151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það voru allmargar spurningar í þessu. Í fyrsta lagi af hverju þetta úrræði er tímabundið. Það stafar einfaldlega af því að það er yfirleitt þannig í stjórnsýslunni. Mín reynsla er alla vega sú að varanlegar aðgerðir byrja oft með tímabundnum aðgerðum og svo átta menn sig á því hvort þær virka. Við setjum þetta tímabundið upp til að sjá hvernig það virkar. Ef þetta virkar mjög vel sé ég enga ástæðu til annars en að það verði gert varanlegt. Ég hef á þingferli mínum tekið þátt í fjölmörgum tímabundnum úrræðum sem urðu að einhverju leyti varanleg þegar þau höfðu sannað gildi sitt.

Það er ekki rétt að öll námsúrræði séu á íslensku. Það eru námsúrræði á fleiri tungumálum og það er bara eðli máls samkvæmt, þannig hafa námsúrræði verið hér á landi. Það var það sem ég sagði áðan. Þess vegna hefur tekið tíma að bregðast við því. Vinnumálastofnun hefur líka sett upp sérstaka deild innan stofnunarinnar og gert skipulagsbreytingar til að leggja meiri áherslu á innflytjendamál og útlendingamál og málefni útlendinga í tengslum við þá niðursveiflu sem verið hefur. Varðandi símalínuna skal ég kanna það vegna þess að ég er að heyra þetta í fyrsta skipti. Ég hef lagt áherslu á að það sé góð þjónusta við þennan hóp líkt og aðra.

Hvað varðar brunann á Bræðraborgarstíg, þann skelfilega bruna, ég tek undir það með hv. þingmanni, þá fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með rannsókn á þeim bruna á grundvelli rannsóknarskyldu sinnar. Þeirri rannsókn er að ljúka. Ég óskaði eftir því við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að samhliða þeirri rannsókn yfirfæru þau lög og reglur í samstarfi við ráðuneytið með það að markmiði að skoða hvar við getum gripið inn í varðandi lagabreytingar, varðandi þætti sem hægt er að breyta til að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er niðurstöðu úr því að vænta núna í desember.