151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi umræða í dag hefur komið víða við og verið mjög áhugaverð og upplýsandi og ég vil þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir greinargóð svör. Mig langar til að byrja á því að ræða um stöðuna á Suðurnesjum, eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom reyndar einnig inn á. Ráðherra svaraði mjög vel en þó eru nokkur atriði sem ég hefði áhuga á að ræða frekar sem snúa sérstaklega að þessu svæði. Eins og fram hefur komið er rúmlega 20% atvinnuleysi á svæðinu. Stóran hluta þess má skýra með því hruni sem hefur orðið í ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta segir okkur að við verðum að horfa til framtíðar og byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf um allt land vegna þess að það mun koma annað hrun, það mun koma önnur farsótt. Spurningin er bara hvenær. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á innflytjendur og stöðu þeirra sem er grafalvarleg og það er einmitt þannig á Suðurnesjum, þar skera Suðurnesin sig líka úr, að þar eru 25% íbúa af erlendu bergi brotin. Þetta fléttast allt saman og gerir stöðuna þar mjög erfiða.

Að mínu mati er mjög mikilvægt að ríkið fjárfesti meira í verkefnum á Suðurnesjum. Ráðherra nefndi hér fjölmargar almennar aðgerðir og talaði um að hann væri í góðu sambandi við sveitarstjórnir á svæðinu, sem er vel. Mig langar þá til að spyrja ráðherra hvort það standi til að fjölga opinberum störfum á svæðinu, fá frekari upplýsingar um það. (Forseti hringir.) Einnig hvort Byggðastofnun sem lánveitandi horfi sérstaklega til svæðisins.