151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir með hv. þingmanni, eins og ég sagði áðan um þetta svæði, Suðurnesin. Það er mjög sérstakt að því leyti að það eru búnar að vera ofboðslegar sveiflur þarna. Fyrir ekkert löngu síðan var ferðamannaþjónustan í fullum vexti, voru miklir vaxtarverkir á svæðinu og svo erum við komin alveg niður í botninn núna. En af því að hv. þingmaður sagði að við myndum fá svona veiru aftur og þetta myndi gerast aftur, þá vil ég trúa því að við séum ekki að glíma við veiru eins og þessa oft á lífsleið hvers einstaklings. Sagan sýnir alla vega að það hafi verið með þeim hætti. Þannig að alger lokun á landinu, þeirri einu almennilegu gátt inn í landið sem skapar eðlilega mjög mikla starfsemi á Suðurnesjum — ég vil nú trúa því að það sé talsvert langt í að ég og hv. þingmaður upplifum slíkt aftur. En við eigum að vera undir allt búin hvað það snertir.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega íþróttahreyfinguna og við höfum verið í samtali við hana, ég og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er væntanlegt frumvarp inn í þingið til þess að koma til móts við kostnað íþróttahreyfingarinnar á meðan öll starfsemi hefur legið niðri, enda skiptir hún gríðarlega miklu máli, ekki bara sem vinnustaður heldur gegnir hún líka miklu félagslegu hlutverki fyrir okkur öll, ekki síst fyrir börn og ungmenni, eins og þekkt er, ekki bara hér á landi heldur um allan heim.

Síðan varðandi bankastofnanir þá hefur mér ekki fundist bankastofnanirnar axla nægilega mikla ábyrgð í þessu fárviðri sem verið hefur. Við sjáum það best í því með hvaða hætti þær hafa skilað vaxtalækkunum. Þær hafa eðlilega verið að stíga ákveðin skref gagnvart frystingu fasteignalána o.s.frv., en vaxtalækkanir Seðlabankans hafa ekki verið að skila sér í gegnum allt kerfið og það er umhugsunarefni.