151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en langar til að skjóta inn einni aukaspurningu: Hefði ráðherra viljað sjá ríkisstjórnina hafa meira úthald í hlutabótaleiðina í stað þess að annars vegar þrengja skilyrðin og hins vegar láta hana ekki gilda lengur? Mér þætti vænt um að heyra svar við þeirri spurningu.

Að öðru leyti langar mig til þess að beina sjónum að námsmönnum og bágri stöðu þeirra. Hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því að fólk á atvinnuleysisskrá geti sótt sér menntun. Það er auðvitað skynsamlegt en ríkisstjórnin virðist ekki hafa skoðað hina hliðina á peningnum, þ.e. rétt námsmanna sem voru í vinnu fram að kreppunni og höfðu greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð en eiga ekki rétt á stuðningi nú. Þetta er vinnandi fólk í námi. Þetta er að stórum hluta fjölskyldufólk sem stendur eftir réttindalaust og ráðalaust og enginn í ríkisstjórninni virðist svara kalli þess. Hvað gerist við þessar aðstæður? Fólk getur ekki framfleytt sér og flosnar úr námi og fær ekki vinnu því að það er enga vinnu að fá. Þetta er auðvitað óviðunandi.

Herra forseti. Þetta er staða sem ríkisstjórnin hefur sett þetta fólki í og ég spyr hæstv. ráðherra: Hverju er hann að beita sér fyrir hér?