151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:24]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrst varðandi það hversu margir eru að detta af bótum, hversu margir eru að klára bótarétt sinn. Ég er ekki nákvæmlega með þær tölur í handraðanum en almennt er það þannig næsta ár að það eru um 100 einstaklingar mánaðarlega, í upphafi ársins, sem eru að klára bótarétt sinn miðað við hvernig landið liggur núna í kerfinu. Það fer síðan vaxandi út árið og fer að nálgast 200 þegar við verðum komin fram á seinni hluta ársins, að því gefnu að enginn þessara einstaklinga fari annaðhvort í nám, við erum að skipuleggja 3.000 námsúrræði, eða fari á vinnumarkað o.s.frv. Reynslan sýnir að það er alltaf eitthvert hlutfall af þessum hópi sem fer í einhver önnur úrræði, við erum að opna námsúrræði og fleira. En ég get komið þessum greiningum til hv. þingmanns eftir þessa umræðu. Þær eru allar til því að við höfum verið að kortleggja þetta með sveitarfélögunum og félagsþjónustunni í landinu.

Varðandi endurhæfingarkerfið; já, við erum alltaf að bæta inn þar til þess að geta gripið einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir til langs tíma. Við gerum ráð fyrir því að það haldi áfram á næsta ári. Við erum að setja auknar fjárveitingar þar inn því við viljum að þeir einstaklingar sem einhverra hluta vegna ílengjast í þessu kerfi fari í endurhæfingu. En það má alltaf gagnrýna hvort við erum að gera nóg þar og ég treysti því að hv. þingmaður muni gera það, þegar þar að kemur, og halda ríkisstjórninni við efnið.

Þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum almennt þá held ég að sú leið sem við höfum farið, sem er einhvers konar blönduð leið, hafi verið skynsamlegust vegna þess að þetta snýst um að þreyja þorrann þar til að við fáum bóluefni. Það er ekki mikið af veiru að koma inn í landið núna, þetta er veira sem er inni í samfélaginu. Ef við lokum öllu þá getum við náð utan um þetta hér innan lands, eðlilega, en ólíkt Nýja-Sjálandi er þjóðhagsframleiðsla okkar meira byggð á ferðaþjónustu og ferðamönnum, þannig að þetta er alltaf línudans. Heilt yfir finnst mér ríkisstjórnin, og þá sérstaklega þríeykið (Forseti hringir.) í samstarfi við stjórnvöld, hafa haldið skynsamlega á málum. En þetta snýst um þolinmæði og maður er að verða fjandi þreyttur á þessu — afsakið orðbragðið, hæstv. forseti. Maður er að verða ansi þreyttur á þessu. Það er enginn munur á félagsmálaráðherra, hv. þingmanni eða almenningi þegar kemur að því.