151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

lækningatæki.

18. mál
[13:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að gera örstutta grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við samþykki mitt á nefndaráliti sem kynnt var hér af hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, en fyrirvari minn lýtur einmitt að því og þeirri umsögn embættis landlæknis sem ítrekuð var í lok október sl. er varðar miðlægan gagnagrunn um lækningatæki. Í umsögn embættis landlæknis, sem er það embætti á Íslandi sem hefur hvað víðtækasta þekkingu á þessum málaflokki, kemur fram eindregin ábending um nauðsyn þess að setja á laggirnar einhvers konar miðlæga skráningu og segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„… telur embætti landlæknis rétt að í stað rafrænnar skrár hjá hverri heilbrigðisstofnun og starfsstofu verði komið á miðlægri skráningu sem verði hjá embættinu. Embætti landlæknis verði heimilt að nota skrána í eftirlitsskyni og þegar nauðsyn ber til með hagsmuni sjúklinga eða samfélags að leiðarljósi.“

Í tillögu landlæknis segir:

„Lyfjastofnun hefði eftir sem áður eftirlit með því að skráning í grunninn eigi sér stað. Um yrði að ræða skráningu niður á persónugreinanlega einstaklinga og að hægt yrði að kalla fram lista með upplýsingum um t.d. þá sem fengið hafa ígrætt tiltekið lækningatæki.“

Hvers vegna þetta? Jú, vegna þess að ef ekki verður um miðlæga skrá að ræða mun mögulega þurfa, t.d. við ráðstafanir sem þurfa að eiga sér stað fljótt, þegar bregðast þarf við vegna gallaðra lækningatækja, að leita uppi allar starfsstöðvar og allar stofnanir, heilbrigðisstofnanir á Íslandi, sem keypt hafa og notað tiltekið tæki í störfum sínum. Eftir það þarf að leita í þeim skrám hjá þessum tilteknum stofnunum. Væntanlega er allur gangur á því hversu nákvæm skráningin er, en við skulum vona að hún sé mjög nákvæm hjá þessum aðilum og stofnunum. En þá þarf að reyna að finna út hvaða sjúklingar hafa tækið grætt í sig. Þegar um er að ræða brýn mál sem komið geta upp í samfélaginu getur verið mjög seinlegt að hafa kerfið með þessum hætti.

Miðlægur gagnagrunnur eða heimild landlæknis til miðlægs gagnagrunns er á fjölmörgum sviðum og er það skilgreint nákvæmlega í lögum um embætti landlæknis. Þess vegna geri ég þennan fyrirvara við samþykki mitt við nefndarálitið, af því ég sé ekki af hverju velferðarnefnd og löggjafinn bæta ekki þessu litla verkefni við þann lista sem setja má í miðlægan gagnagrunn sem er í lögunum. Þarna eru nokkrir tölusettir liðir um hvaða heimild embætti landlæknis hefur til söfnunar slíkra upplýsinga í miðlægan grunn hjá sér. Við höfum áður í störfum hv. velferðarnefndar bætt upplýsingum við þennan lista, t.d. nú nýlega varðandi heilabilaða. Það blasir við að mikilvægt er að hægt sé að bregðast við fljótt og örugglega með svona miðlægri skráningu sem hlýtur að vera miklu æskilegri kostur, og embætti landlæknis talar um það, og helst lifandi skráning, þ.e. skráning jafnóðum í grunninn.

Fjallað er um kostnaðarhliðina í umsögn embættis landlæknis. Talað er um að þetta sé nýtt verkefni og að tryggja þurfi fjármögnun en að ein leið til fjármögnunar gæti verið að hluti þess eftirlitsgjalds sem Lyfjastofnun mun innheimta vegna þessara tækja, rynni til embættis landlæknis til reksturs þessa miðlæga grunns.

Þetta er fyrirvari minn. Mér hefði þótt meiri bragur að því að velferðarnefnd myndi bara ljúka við þetta í staðinn fyrir að senda þetta til framkvæmdarvaldsins, af því að velferðarnefnd er hluti af löggjafanum og á að geta lagt til svona einfaldar breytingar eins og þetta er. Þetta er einn stafliður í lögum um landlækni. En ekki var meiri hluti fyrir því og tel ég það miður, sérstaklega þar sem embætti landlæknis hefur ítrekað þessa eindregnu ósk sína. Hana hefði verið auðvelt að framkvæma. Að öðru leyti er ég samþykk því að þetta mál nái fram að ganga.