151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:07]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er þetta frumvarp enn eitt skrefið í því að reyna að bregðast við því efnahagsáfalli sem er í gangi og alveg gott sem slíkt og bara jákvætt að slíkt sé gert. En það hefur verið viðvarandi vandamál, bæði í þessu og í tekjufallsstyrkjunum, að miðað er við tiltekið prósentuhlutfall, í þessu tilfelli að 6% samdráttur þurfi að hafa verið í tekjum til einstaklinga eða lögaðila til að þeir geti átt von á því að fá þessa styrki. Vandinn verður til þegar aðilar eru kannski með 59% tekjusamdrátt. Það er nokkuð sem ég hef fengið mikið af fregnum af eftir að tekjufallsstyrkirnir voru samþykktir, m.a. fyrirtæki sem hafa verið með 36% samdrátt og þar af leiðandi ekki getað fengið tekjufallsstyrki sem voru miðaðir við 40% og þar fram eftir götunum. Það vill þannig til að það er ekkert flókið að búa til línulega tengingu á milli meiri samdráttar og meiri stuðnings. Þetta er ekki flókið. Það er hægt að setja neðri mörk, það er hægt að setja efri mörk, það er hægt að hafa þetta línulegt þarna á milli. Í staðinn hefur hæstv. ráðherra trekk í trekk lagt fram frumvarp sem styðst við þrepaföll. Mig langar að spyrja: Hvers vegna er alltaf verið að nota þrepaföll sem undanskilja mjög mörg fyrirtæki, fleiri heldur en væri þörf á, þegar það væri hægt að vera með eðlilegan línulegan vöxt á stuðningi eftir því sem þörfin er meiri?