151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að þetta kunni að þykja flókið, jafnvel fyrir fagfólk. Það er m.a. vegna þess að úrræðin hafa verið að breytast yfir tíma og þau eru fjölmörg og ólík og hafa kannski ólíkan tilgang innbyrðis. Ég held hins vegar að við höfum gert vel í því að gera allar upplýsingar aðgengilegar og nú síðast vorum við að opna vef sem heitir viðspyrna.is þar sem bæði má lesa sér til um úrræðin og skilyrðin og sömuleiðis sækja um. Ég held að það séu bara ekki dæmi um að stjórnkerfið hafi áður brugðist jafnt hratt við með jafn stuttri atrennu og á við hér og þróað jafn skilvirka lausn og á við í því tilviki.

Varðandi einyrkjana þá vék ég stuttlega að því í framsögu minni að það þarf að taka tillit til þeirra, eins og hv. þingmaður bendir á. Ég hef heyrt af þessum áhyggjum sömuleiðis, að menn telji að þar sem þeir hafi dregið svo mjög úr starfseminni þá kunni þeir að falla á milli í úrræðunum, m.a. vegna skilyrða þessa máls. En líkt og ég rakti þá er heimilað í þessu máli að miða rekstrarkostnað við reiknað endurgjald í sama almanaksmánuði í skattframtali vegna 2019. Þetta þýðir í raun að hægt er að horfa til þess hvernig starfsemin var á þeim tíma hvað starfsmannafjöldann varðar. Ef menn hafa tekið sjálfa sig af skrá fyrir reiknað endurgjald á þessu líðandi ári vegna aðstæðna er heimilt að gera þetta og ætti að koma til móts við þessar tilteknu áhyggjur.

Annars vil ég að lokum nefna að mér finnst það dálítið fara fyrir ofan garð og neðan í umræðu um þetta mál hversu ótrúlega umfangsmikið það er. (Forseti hringir.) Við erum jú að tala um að setja á annan tug milljarða til fyrirtækja til að styðja þau í gegnum erfiða tíma.