151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:26]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í andsvari áðan hefur ríkisstjórnin á undanförnum mánuðum og eiginlega frá því að þessi heimsfaraldur byrjaði útbúið ákveðið hlaðborð úrræða sem eru sniðin að mismunandi tegundum fyrirtækja í mismunandi stöðu. Og sitt sýnist hverjum, sum úrræðin hafa verið heldur gagnslítil, önnur hafa búið til slæma hvata. Í einu tilfelli var fyrirtækjum í rauninni greitt fyrir að segja starfsfólki sínu upp og í ákveðnum tilfellum starfsfólki sem hafði sjálft tekið þátt í að höggva á hnútinn, eins og hæstv. ráðherra sagði hér rétt áðan.

Á móti kemur að önnur úrræði hafa verið mjög góð. Ég nefni þá hlutabótaleiðina sem var ekki alveg gallalaus en hafði þó fyrst og fremst jákvæð áhrif og síðan tekjufallsstyrkina og lokunarstyrkina sem voru gagnlegir. Reyndar eru tekjufallsstyrkirnir ekki enn þá komnir til framkvæmda en ég trúi því að þeir verði gagnlegir. Það var þó þannig með þá, líkt og í þessu máli, að þeir voru og verða minna gagnlegir en þeir hefðu getað verið. Það er að einhverju leyti vegna þess, sem ég lýsti á sínum tíma í ræðum um það mál, að það er ákveðið blæti fyrir þrepaföllum í gangi. Í stað þess að hafa umfang aðstoðar í réttu hlutfalli við þörfina er leitast við að búa til afskurð við tiltekna tölu. Sú tala, eins og kom fram í andsvörum áðan, er ekki valin út frá greiningu á því hversu mörg fyrirtæki geta notið góðs af heldur er fyrst og fremst miðað við pólitískt mat á því hvort fyrirtæki, sem hafa ekki orðið fyrir meiri niðurskurði eða samdrætti í tekjum en sem nemur einhverri ákveðinni tölu, eigi bara að bjarga sér eftir öðrum leiðum. Ókei, það er ákveðin pólitík en það er ekki mín pólitík. Ég get borið virðingu fyrir því að fólk hafi þá afstöðu þó svo að mér finnist hún ekki mjög góð eða gagnleg, sérstaklega ekki þegar samfélagið er að ganga í gegnum versta efnahagssamdrátt í minni lífstíð allavega og í enn lengri tíma.

Þetta eru aðstæður sem oft er talað um sem, með leyfi forseta, „force majeur“, þ.e. aðstæður sem eru mannkyninu yfirsterkari. Við erum öll að reyna að leitast við að bjarga því sem bjargað verður. Samtakamáttur samfélagsins hefur verið rosalega mikill undanfarna tíu mánuði og við vitum líka að það hefði aldrei komið til greina að frysta bara hagkerfið vegna þess að fólk mun alltaf þurfa áfram mat, skjól, vörur og þjónustu. Fyrir vikið hafa mörg fyrirtæki reynt að standa sig vel í þessum aðstæðum. En ef markmiðið með þessu frumvarpi er að veita viðspyrnu, sem hljómar eins og ágætisplan, að spyrna upp frá botninum þegar honum er náð, ætti sú viðspyrna ekki að takmarkast við þá sem illu heilli komast yfir tiltekna marklínu. Við vitum alveg að staðan er slæm víða og einmitt misslæm eftir atvikum. Það er eðlilegt að taka tillit til þess hversu slæm hún er frekar en að byggja bara á þremur þrepum; þrep núll er upp að 60% þar sem tekjufall upp að 60% þýðir að þú færð engan stuðning í þessu úrræði, fyrsta þrep er frá 60–80% og annað þrep er þegar komið er yfir 80%.

Á undanförnum vikum, eftir að ég fór að spyrjast fyrir um tekjufallsstyrkina, hef ég heyrt frá ýmsum rekstraraðilum fyrirtækja sem hafa verið rétt undir 40% mörkunum og eiga þar af leiðandi ekki von á að tekjufallsstyrkirnir gildi um þá. Í einu tilfelli var fyrirtæki með 36% tekjufall sem í því tilfelli þýðir að einn rigningardagur í viðbót í júní hefði mögulega komið þeim yfir marklínuna og þau hefðu þá átt rétt á þessum tekjufallsstyrkjum. Þau fyrirtæki sem ég hef verið að heyra frá hafa oft ekki átt kost á því að segja upp starfsfólki sínu og láta ríkið greiða fyrir það. Þetta er fólk og fyrirtæki sem uppfylltu ekki endilega allar kröfur fyrir lokunarstyrki eða annað á þessu hlaðborði úrræða sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Ég ætla að leyfa mér að nefna nokkur dæmi sem ég hef fengið send. Í mörgum tilfellum hef ég að vísu verið beðinn um að gæta nafnleyndar en ég skal þá bara lýsa aðstæðunum til að við áttum okkur á þeim af því að þegar við tölum um rekstraraðila hljómar það svo abstrakt. Það hljómar eins og eitthvað sem skiptir ekki máli. Við verðum að átta okkur á því að það er fólk á bak við þetta, í einu tilfelli maður með veitingarekstur sem var með töluvert meira en 40% tekjufall en út af faraldrinum brá hann á það ráð að opna annan veitingastað á sömu kennitölu til að reyna að bjarga því sem hægt var að bjarga með þeim tilkostnaði sem mögulegur var. En af því að þetta var rekið á sömu kennitölu sat hann eftir með sárt ennið og hafði ekki lengur rétt á tekjufallsstyrk. Annað fyrirtæki hefur verið að dansa við þessi mörk, aðallega vegna þess að þau stukku til og reyndu að tjalda öllu til til að halda öllu gangandi. En þegar á hólminn var komið voru þau aðeins undir þeim mörkum sem þurfti til. Annað fyrirtæki úti í bæ var með samdrátt upp á rúmlega 78% í einum mánuði og yfir árið voru tölurnar alltaf neikvæðar. En þegar allt var tekið saman var heildarafkoma fram í október ekki nógu slæm til að þau ættu rétt á einhverjum af þessum stuðningsúrræðum. Ég get nefnt fleiri dæmi. Ég get líka talað um fólk sem er með rekstur á eigin kennitölu og hefur fallið milli skips og bryggju í þessum úrræðum. Mörg fyrirtæki eru einmitt í þeirri stöðu að vera með rosalega margt starfsfólk í vinnu og þar sem 90% af útgjöldum fyrirtækisins eru vegna starfsmannakostnaður og þau eru að reyna að gera það sem þau geta til að komast hjá því að segja upp starfsfólki eiga þau ekki rétt á að segja fólki upp á kostnað ríkisins. Og jafnvel ef þau hefðu átt rétt á því er ekki víst að þau hefðu gert það, hreinlega bara af siðferðislegum ástæðum.

Þetta er því raunverulegt vandamál og við vitum að úrræðin hafa auðvitað ekki fullkomna verkun. Við höfum fullkominn skilning á því að aldrei verður hægt að bjarga öllu. Mörg fyrirtæki munu fara á hausinn í þessari niðursveiflu, í þessari kreppu og mörg fyrirtæki hafa þegar gert það. En mér finnst ekki ásættanlegt að í rauninni sé verið að nota þrepafallanálgun til að útiloka sum fyrirtæki vegna þess að þau voru rétt neðan við mörkin. Það væri alveg hægt að smíða sanngjarna aðferð sem myndi auka umfang stuðnings eftir því sem hann yrði meiri. Kannski myndum við setja einhver neðri mörk í því sambandi, hver þau yrðu veit ég ekki. Maður þyrfti alltaf að velja einhverja tölu ef svo væri. 20%, 30%? Í venjulegu árferði er alveg hægt að búast við því að tekjur fyrirtækis geti dregist saman um 20–30% án einhverra öfgafullra aðstæðna. En þegar um er að ræða jafnvel 30% tekjufall, sérstaklega þegar aðstæðurnar eru langt umfram það sem mannkynið hefur vald yfir, þá er fullkomlega eðlilegt að við reynum að sýna því meiri skilning og aukum einmitt umfang stuðnings, eins og ég hef sagt áður, í réttu hlutfalli við þörfina. Það ætti sér í lagi ekki að gera það með þeim hætti að þeim sé refsað sem höfðu þó dugnað og forsjálni til að reyna að bjarga sér í þessum aðstæðum. Fyrirtæki sem hlupu til og reyndu að víkka út, gera eitthvað nýtt og bæta við sig til að bregðast við aðstæðum, eiga ekki að vera undanskilin stuðningi ef þau hafa þörf fyrir hann, bara vegna þess að þau reyndu að gera eitthvað gott.

Ég er ekki að segja að við eigum að hjálpa öllum. Sum fyrirtæki standa sig jafnvel betur en fyrr. Sum fyrirtæki eru í þannig rekstri að hagur þeirra hefur annaðhvort staðið í stað eða batnað. Sömuleiðis er minni háttar samdráttur hjá mörgum fyrirtækjum. Sé markmiðið að reyna að halda hinum fyrirtækjunum gangandi með þessum úrræðum þá hlýtur að fylgja að við komum með eðlilegum og jöfnum hætti fram við þau, að við búum ekki til þrep sem byggja ekki á tölulegri greiningu á því hvað sé raunverulega vandamálið heldur fari alfarið eftir pólitísku mati hæstv. ráðherra og sér í lagi að þau séu ekki hönnuð þannig að allir geti safnast saman fyrir neðan þrepið og óskað þess að þeir hefðu bara fengið einn rigningardag til viðbótar vegna þess að þá hefði fyrirtækið kannski bjargast. Það er óábyrgt að gera þetta með þessum hætti. Ég vil bara segja það hér og nú. Mjög víða í íslenskum lögum er notast við þrepaföll. Sums staðar eru þau aðeins skárri en annars staðar en víðast hvar til mikillar óþurftar. Þetta er tilhneiging sem ég held að skýrist af því að einhverjum finnist þetta einfaldara. En hvað getur hugsanlega verið einfaldara en einföld bein lína, herra forseti?

Við getum alveg látið styrkina aukast ólínulega að einhverju leyti. Við getum alveg haft það þannig að þeir verði töluvert meiri eftir því sem þörfin er meiri. Það er alveg hægt að fara út fyrir beina línu. Það má alveg íhuga slíkar flækjur. En að segja að þrepaföll séu eðlilegri og réttmætari, jafnvel sanngjarnari, heldur en beina línan, það er bara ekki satt. Það er langt frá því að vera satt og þessi ósannindi eru ekki bara eitthvert stærðfræðilegt viðfangsefni heldur er þetta raunveruleikinn sem fjöldi fyrirtækja á Íslandi býr við, fyrirtæki sem þurfa á aðstoð okkar að halda, gætu verið að fá hana ef við hefðum bara dregið línu í staðinn fyrir að teikna tvö þrep.