151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

viðspyrnustyrkir.

334. mál
[14:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er dagljóst að mörg fyrirtæki og heimili þurfa kraftmiklar og beinskeyttar aðgerðir á næsta ári. Það þarf að stíga stór og djörf skref strax sem stuðla að atvinnusköpun og að því að sem allra flest fyrirtæki geti tekið þátt í nauðsynlegum vexti á komandi misserum. Við fjöllum hér um frumvarp um viðspyrnustyrki og er það vissulega viðleitni ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við þann vanda sem við stöndum öll sameiginlega frammi fyrir, og ekki dettur mér í hug að gera lítið úr því. Nú ber svo við að frumvarpinu var dreift í gær þannig að ekki hefur gefist mikið ráðrúm til að fara vendilega yfir málið. Það mun bíða umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem ég veit að mun taka málið föstum tökum og ræða ítarlega. Það eru þó á þessu stigi nokkur atriði sem vert er að gefa gaum þegar horft er á frumvarpið.

Ég er að hugsa um að byrja aðeins á hugleiðingum hv. þm. Smára McCarthys hér áðan, þar sem hann var að tala um þrepaföll og línuleg föll. Mér finnst margt í máli hans vera afar athyglisvert og íhugunarvert hvort hægt er að skoða málið út frá þeim sjónarhóli. Auðvitað er ekkert kerfi fullkomið. Með núverandi þrepaskiptingu eru auðvitað skurðpunktar fleiri en einn í frumvarpinu en með því að gera þetta línulega væri hugsanlega hægt að draga úr þeim fjölda. Vissulega þyrfti að vera eitthvert hámark og lágmark, eða a.m.k. lágmark, þ.e. að menn hefðu að lágmarki orðið fyrir ákveðnu tekjufalli þar sem byrjað væri að draga línuna. Mér finnst þetta mjög athyglisvert vegna þess að auðvitað er það þannig, og eru nú svo sem ekki nýjar fréttir fyrir neinn, að alltaf þegar sett eru þrep af einhverju tagi þá lenda menn ýmist rétt fyrir neðan eða rétt fyrir ofan. Þá er orðið býsna stutt á milli þeirra sem eru rétt fyrir neðan og þeirra sem eru rétt fyrir ofan og kannski erfitt að átta sig á því, fyrir þann aðila sem fyrir neðan er, af hverju sá sem er rétt fyrir ofan nýtur stuðnings, en hinn ekki. Þetta er auðvitað gömul saga og ný en mér fannst þetta mjög athyglisverð hugleiðing hjá hv. þm. Smára McCarthy.

Það kemur fram í frumvarpinu, og ber að þakka, að þetta horfir fram í tímann og reynt er að veita vissu fram á við, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt. Í 4. gr., þar sem verið er að tiltaka skilyrði fyrir því að geta notið stuðnings, er í fyrsta lagi afmarkað tímabil sem fyrirtæki geta sótt um eða notið stuðnings og endapunkturinn er settur til og með maí. Reyndar er, svo að allrar sanngirni sé gætt, ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu sem kveður á um að eigi síðar en í mars skuli endurskoða hvort lengja eigi þetta tímabil. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé skynsamlegt á þessari stundu, þar sem fleiri og fleiri teikn benda til þess að viðspyrna eða upprisa ferðaþjónustunnar muni tefjast umfram það sem vonir okkar stóðu til fyrir ekki mjög löngu, að lengja strax þetta tímabil, a.m.k. um einn eða tvo mánuði, vel fram á sumarið en engu að síður að vera með bráðabirgðaákvæði sem hægt væri að grípa til.

Síðan er auðvitað spurningin um tekjufallið, hversu mikið það þarf að vera til þess að fyrirtækin geti notið aðstoðarinnar. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem hann kom inn á hér í andsvörum og í ræðu sinni, að það eru auðvitað alls konar úrræði í gangi sem fyrirtæki geta sótt í. Engu að síður tel ég ríka ástæðu til þess að nefndin skoði mjög vandlega hvort 60% er sú töfratala sem æskilegt er að miða við, að því gefnu að nefndin fari ekki út í það að setja upp línulegt ferli við þetta.

Ég vil nefna önnur atriði sem koma hér til skoðunar. Tilgangurinn með þessu öllu saman er jú sá að sem flest fyrirtæki, auðvitað er það einkum í ferðaþjónustu og tengdum greinum en þó víðar, séu sem mest tilbúin til að taka þátt í því sem við köllum gjarnan viðspyrnu þegar hagkerfið fer að taka við sér. Þá held ég að gildi hið fornkveðna, sem hefur mikið verið á vörum allra og ekki síst ríkisstjórnarinnar, að skynsamlegt sé að gera meira en minna. Ég er ekki alveg sannfærður um að í þessu frumvarpi felist þau skilaboð að verið sé að gera meira en minna. Það þarf líka að huga að fjárhæðarmörkum sem sett eru og síðan, af því að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu, hve tekjufallið er mikið, hversu háar fjárhæðir menn geta fengið; þ.e. 400.000 kr. fyrir hvert stöðugildi ef tekjufallið er á bilinu 60–80% og svo 500.000 kr. ef það er yfir 80%. Allt eru þetta skilyrði sem geta orkað tvímælis og þarf að fara mjög vandlega yfir í vinnu nefndarinnar. Það er auðvitað þannig að mörg af þessum fyrirtækjum hafa í sjálfu sér ekki kosið að draga sig í híði, eins og það hefur verið kallað hér, reyna að halda uppi lágmarkslíffærastarfsemi eins og björn í híði. Það eru auðvitað mörg önnur fyrirtæki sem eru að berjast eins og þau mögulega geta við að halda uppi einhvers konar rekstri, reyna að laða til sín viðskiptavini með tiltækum ráðum, breyta starfsemi sinni með ýmsum hætti og sýna með því að þau hafa mikinn lífsvilja og lífsþrótt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skiljum þessi fyrirtæki ekki eftir sem eru þó að ströggla við að halda sér á floti. Það má ekki koma þannig út að þeim sem mest berjast, leggja mest á sig til að halda sjó, sé með einhverjum hætti refsað meðan aðrir, og ég er ekki að segja að aðstæður þeirra séu þannig að þeir geti annað, leggjast í híði eins og björninn og geti ekki eða hafi ekki hugmyndaflug til að reyna að bæta við í reksturinn með þeim hætti að einhver lágmarksstarfsemi sé í gangi. Ég held að þetta sé mikið atriði.

Ég ætla svo sem ekki að fara dýpra í þetta enda skal það viðurkennt að ekki hefur gefist tími til að gaumgæfa þetta alveg ofan í kjölinn. En ég er sannfærður um það, og ég þekki það vel af reynslu minni í vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að þar er farið vel yfir mál af þessu tagi og ég treysti því að hér eftir sem hingað til muni nefndin leggja talsvert á sig til að gera málið enn skilvirkara því að mér sýnist að svigrúm sé til þess.