151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

hollustuhætti og mengunarvarnir o.fl.

335. mál
[15:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um loftslagsmál. Markmið frumvarpsins er að tryggja örugga föngun, flutning og niðurdælingu koldíoxíðs í jarðlög á Íslandi í því skyni að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Lagðar eru til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem snúa að breytingu á innleiðingu tilskipunar ESB um geymslu koltvísýrings í jörðu (2009/31/EB). Breytingar sem lagðar eru til á lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um loftslagsmál eru breytingar sem tengjast innleiðingu tilskipunarinnar.

Áðurnefnd tilskipun var innleidd í íslenskan rétt árið 2015 með breytingu á lögum um loftslagsmál. Við innleiðingu hennar var ákveðið að nýta heimild sem fram kemur í tilskipuninni um að banna geymslu koldíoxíðs neðan jarðar á íslensku yfirráðasvæði þar sem slíkt var ekki talinn raunhæfur kostur vegna jarðfræðilegra aðstæðna hér á landi. Þekktar aðferðir þess tíma gengu út á nýtingu jarðlaga á borð við olíu- og gaslindir, kolalög eða jarðsjó í setlögum, þ.e. holrými neðan jarðar sem henta til geymslu á koldíoxíði.

Hins vegar var ákveðið að nýta heimild í tilskipuninni sem leyfir geymslu á allt að 100 kílótonnum af koldíoxíði í rannsóknar- og tilraunaskyni.

Í janúar 2012 hófst niðurdæling í slíku tilraunaskyni með svokallaðri Carbfix-aðferð sem felur í sér steinrenningu koldíoxíðs í jarðlögum neðan jarðar. Koldíoxíð og hugsanlega önnur vatnsleysanleg gös úr uppsprettu, eru leyst í vatni sem er dælt niður í basalt. Uppleystu gösin bindast í basaltinu og kristallast í jarðlögum.

Með þessari aðferð er hægt að fylgjast með bindingu koldíoxíðs og hugsanlega annarra vatnsleysanlegra gastegunda úr uppsprettunni strax í upphafi þegar þeim er dælt niður. Að tilteknum tíma liðnum er hægt að staðreyna steinrenningu á niðurdældu koldíoxíði og við það er áhætta af leka ekki lengur til staðar. Í tilskipuninni er á hinn bóginn gengið út frá geymslu koldíoxíðs í holrýmum neðan jarðar en með slíkri geymslu eykst hætta á að koldíoxíð sleppi út og leiti aftur upp á yfirborðið. Því er nauðsynlegt að tryggja eftirlit til lengri tíma.

Með frumvarpinu er lögð til annars konar innleiðing tilskipunarinnar í íslensk lög og hún aðlöguð að jarðfræði hér á landi og heimilar þar með varanlega geymslu koldíoxíðs í jarðlögum. Þetta skapar tækifæri fyrir rekstraraðila sem standa innan svokallaðs viðskiptakerfis Evrópusambandsins, til að fá niðurdælingu á koldíoxíði dregna frá í losunarbókhaldi sínu. Jafnframt munu aðilar hér á landi, sem standa utan viðskiptakerfisins, fá tækifæri til að taka á móti innfluttu koldíoxíði frá rekstraraðilum af Evrópska efnahagssvæðinu til niðurdælingar og varanlegrar geymslu í jörðu hérlendis.

Nokkur fyrirtæki eru nú að vinna að eða með í undirbúningi verkefni sem tengjast niðurdælingu og steinrenningu í tengslum við jarðvarmavirkjanir hér á landi. Slík verkefni geta verið mikilvæg í tengslum við markmið sem Evrópusambandið og Ísland stefna á að ná. Aðstæður hér bjóða upp á að steingera nær ótakmarkað magn af koldíoxíði og ljóst að um verulega hagsmuni er að ræða fyrir Evrópska efnahagssvæðið í heild sem lúta fyrst og fremst að því að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum.

Með því að fara þá leið sem lögð er til í frumvarpinu og innleiða efni tilskipunarinnar um niðurdælingu sem nýjan kafla í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er hægt að tengja ýmis ákvæði hennar við lögin. En það er gert til að einfalda vinnu við málsmeðferð og útgáfu leyfa fyrir niðurdælingu, við framkvæmd eftirlits með starfseminni, eftirfylgni í tilvikum frávika í starfsemi og framkvæmd við lokun niðurdælingarsvæða.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.