151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[15:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum fengið utanaðkomandi mat á áætlanir ríkissjóðs, áætlanir þessarar ríkisstjórnar. Matsfyrirtækin hafa m.a. verið að fjalla um stöðuna og gefið áætlunum okkar aukinn trúverðugleika með því að lánshæfi okkar hefur haldist gott. Þar er verið að horfa til þess hvort við séum að sýna rétt viðbragð og hvernig við finnum viðspyrnu við erfiðar aðstæður.

Ég vil taka það fram að ég hef verið þeirrar skoðunar frá upphafi að við þurfum að gera nóg og ég hef aldrei útilokað, þegar við höfum stigið skref fyrr á þessu ári, að við þyrftum að gera meira, að það þyrfti bara að meta það eftir aðstæðum. Fjölgun hjúkrunarfræðinga er ekki sjálfstætt markmið sem ég tel að hafi þýðingu til að berjast við þær efnahagsaðstæður sem við erum að fást við. En við höfum hins vegar verið að fjármagna heilbrigðiskerfið í samræmi við þörf á þessu ári (Forseti hringir.) og ef það er sjónarmið hv. þingmanns að stefnan verði mæld í fjölda milljarða sem menn eru tilbúnir til að ráðstafa, þá held ég að það sé dálítið holur hljómur í málflutningi hans.