151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum átt í samskiptum við heilbrigðisráðuneytið og Landspítalann vegna þeirrar skoðunar hjá Landspítalanum að það vanti upp á að launa- og verðlagsliðurinn sé bættur að fullu. Við höfum verið þeirrar skoðunar að hann hafi verið fjármagnaður að fullu í samræmi við gerða kjarasamninga en við hlustum eftir ábendingum og höfum tekið þær til skoðunar. Ég hef fengið þau skilaboð frá mínu fólki að við teljum að þetta sé að fullu bætt. Ég verð að segja, með eldri halla Landspítalans að öðru leyti, að þá finnst mér þetta vera ein af þessum ríkisstofnunum sem menn fjalla um hér í þingsal með þeim hætti að það sé eðlilegt að menn fylgi ekki fjárlögum. Ég kalla eftir því að héðan úr þingsal og úr fjárlaganefnd heyrist skýrar að þegar menn fylgja ekki fjárlögum eigi það að hafa einhverjar afleiðingar, alveg eins og er skrifað út í lögum um opinber fjármál sem hv. þingmaður vísar oft til.