151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki verið að uppfæra efnahagshorfurnar í samræmi við spá Seðlabankans sem tekur til næsta árs. Við teljum að við séum komin nógu langt inn í árið núna, 26. nóvember, til að áætla útkomuna fyrir árið í ár. En hér er í raun verið að koma inn á það hvort við séum mögulega að vanmeta stöðuna fyrir næsta ár. Við tókum þá ákvörðun að uppfæra ekki efnahagsforsendur fjárlaga, það væru ekki slíkar breytingar að það kallaði á slíka uppfærslu. Ég held að við ættum að taka dáltla umræðu um það hér í þinginu hvort við eigum ekki að fara að hverfa frá þeirri venju að taka upp með rótum í raun og veru fjárlög næstkomandi árs þó að það breytist eitthvað örlítið í spá marga mánuði fram í tímann, horfurnar í huga hagfræðinga hjá Hagstofunni, frá því í júní og fram í október. (Forseti hringir.) Ég held að það hafi bara kallað svo mikla vinnu yfir okkur og við séum hvort sem er að vinna með dálítið óvissar tölur, að við eigum bara að halda okkur við okkar forsendur.