151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um fjáraukann og hann er til að bregðast við tímabundnum, ófyrirsjáanlegum og óhjákvæmilegum útgjöldum. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í sambandi við málefnasvið 28 Aldraðir. Þeir eru ekki að fá neitt samkvæmt þessu, sýnist mér. Samt hefur gengið fallið, verðbólgan farið af stað, matvæli hækkað og ýmsar vörur fyrir utan að þessir einstaklingar þurfa að fá sent heim vegna Covid, jafnvel Covid-vörur, spritt og annað. Kostnaðurinn hefur hlaupið mikið upp hjá þeim en á sama tíma hefur verið séð til þess, og má þakka fyrir það, að það kemur eingreiðsla til öryrkja upp á 50.000 kr., skatta- og skerðingarlaust. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna situr þessi hópur á eftir? Ef við tölum sérstaklega um þá verst settu sem eru á strípuðum bótum, eldri borgara á lífeyri sem fá ekki nema 90% vegna búsetuskerðinga: Á ekkert að gera fyrir þennan hóp? Á að skilja hann algerlega eftir?