151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:20]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þennan fimmta fjárauka. Eins og ég gat um í andsvari mínu til hæstv. ráðherra held ég að hér sé einfaldlega ekki gert nóg. Það hljómar kannski sérkennilega í ljósi þess að ráðherrann hefur komið með fimm fjárauka en þegar maður brýtur þetta niður þá mætir það ekki þeirri þörf sem er fyrir hendi. Hæstv. ráðherra spurði hvað væri nóg og nefndi tölur eins og 300 milljarða og 400 milljarða. Það eru dálítið villandi tölur af hálfu ráðherrans þegar við sjáum útgjöldin. Ég veit að hallinn er um 260–270 milljarðar og hann skýrist m.a. af því að tekjur hafa minnkað og útgjöld aukist. En ef við skoðum innspýtinguna, ef við skoðum það sem þessi ráðherra og ríkisstjórnin er að gera til að mæta því áfalli sem hagkerfið, fjölskyldur, heimili og fyrirtæki verða fyrir, sjáum við að rammasett útgjöld með öllum fjáraukunum við fjárlög aukast um 12% og ef við tökum heildarútgjöldin eru það 16,7%. Mér finnst það ekki nóg til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár. Það getur vel verið að það þyki mjög ódýrt af stjórnmálamanni, sérstaklega stjórnarandstöðuþingmanni, að segja: Ég vil meira, ég vil meira. En ég er ekkert einn um þá skoðun. Sérfræðingur eftir sérfræðing hefur kallað eftir því að hér sé í alvöru gert meira til að milda höggið, til að veita viðspyrnu. Viðspyrna er hugtak sem ríkisstjórnin notar ótt og títt. Þá þarf viðspyrnan að vera kröftugri en hér er. Þetta er fjárauki en við sjáum í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum í næstu viku að hið svokallaða fjárfestingarátak, ríkisstjórnin notar það orð, er einungis 1% af landsframleiðslu. Allir sjá að 1% af landsframleiðslu í sérstakt fjárfestingarátak á næsta ári til að mæta Covid dugar ekki, herra forseti. Og á þessu ári var flýting framkvæmdaverkefna, eins og það heitir, fyrir 2020, takið eftir, 0,6% af landsframleiðslu, 17,9 milljarðar. Það er ekki nóg til að mæta því djúpstæða áfalli sem við erum að kljást við.

Í alvöru, herra forseti, það vantar meiri innspýtingu, enda sjáum við að alveg frá því við í stjórnarandstöðu og fleiri byrjuðum að tala svona — þetta er ekki bara stjórnarandstaðan, það eru hagfræðingar, hagsmunaaðilar, stofnanir sem kalla eftir meiru — hafa spárnar versnað. Verðbólguspáin hefur versnað, atvinnuleysi er enn á uppleið. Það er það sem við höfum áhyggjur af. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, sem verður til umræðu í næstu viku, á atvinnuleysi einungis að lækka um 1 prósentustig milli ára. Er það árangur til að hrópa húrra fyrir? Nei. Hvað segir sú tala? Hún segir okkur að hér er innspýtingin of lítil. Ég hef sagt hæstv. ráðherra það oft og mörgum sinnum að hann hefur pólitískan meðbyr til að gera meira. Ég veit að hallinn verður meiri, en í svona ástandi er það réttlætanlegt. Það er líka réttlætanlegt að taka lengri tíma en fyrirhugað er til að greiða niður hallann. Það er bæði góð hagfræði og góð pólitík. Við hæstv. ráðherra höfum rifist um þetta í níu mánuði. Ég veit að markmið okkar hlýtur að vera það sama en beitum þeim verkfærum sem ríkisfjármálin eru með myndarlegri hætti en hér er gert.

Sveitarfélögin, sem er stjórnað af hægri flokkum, vinstri flokkum, miðjuflokkum o.s.frv., hafa verið að meta þörf sína upp á 50 milljarða fyrir þetta ár og næsta. Hvað er í fjáraukanum sem við erum að ræða hér? Sveitarfélögin fá 2 milljarða, herra forseti, til að veita fjárhagslega viðspyrnu eins og það kallast. Það er engin fjárhagsleg viðspyrna að veita sveitarfélögunum fyrir þetta ár 2,1 milljarð, með fullri virðingu. Það er bara ekki nóg. Síðan fáum við fréttir um helgina um hallarekstur Landspítalans. Hvernig stendur á því að við þurrkum ekki bara þann halla upp? Við höfum alveg efni á því. Þetta eru 4 milljarðar og ég veit að það eru miklir peningar, en það eru svo sannarlega fyrir hendi aðstæður til að þurrka upp þann halla Landspítalans. Hvernig stendur á því að við erum með ríkisstjórn sem vill að Landspítalinn, í miðjum heimsfaraldri, vinni upp eldri halla? Af hverju klárum við hann ekki bara með einu pennastriki? Það er hægt því að hér er fjárveitingavaldið. Það er hægt. Það er ekki réttlætanlegt, herra forseti, að kalla eftir hagræðingu á þessum skala gagnvart Landspítalanum.

Fyrir utan þann hallarekstur erum við líka með sérstaka aðhaldskröfu á skóla og sjúkrahús fyrir næsta ár. Ég hef ítrekað gagnrýnt það. Það er óþarfi að hafa aðhaldskröfu á þessum tíma. Það merkilega er að t.d. er ekki aðhaldskrafa á dómstóla. Einhverjar stofnanir verða ekki með aðhaldskröfu á næsta ári. Af hverju erum við með aðhaldskröfu á spítala og skóla? Til að undirstrika furðulegheitin fellur þessi aðhaldskrafa niður eftir tvö ár. Þá er engin aðhaldskrafa á spítalann. Ég segi, herra forseti: Tökum þessa aðhaldskröfu út. Hæstv. ráðherra heldur að það sé ekki há tala en allt telur. Þetta eru stórar tölur í stóra samhenginu. Hlutfallslega er þetta litlar upphæðir, ég átta mig alveg á því, ég ætla ekki að rífast um það, ég er bara að segja að það eru vond pólitísk skilaboð að setja aðhald á þessar lykilstofnanir og segja jafnvel að menn þurfi einfaldlega að hlaupa hraðar, tala um blóðuga sóun o.s.frv. Mér finnst það sérkennileg skilaboð til framlínu sem stendur sig afskaplega vel.

Síðan eru aðrir þættir sem ég vil draga sérstaklega fram. Ég hef ítrekað líka að viðbótin í umhverfismálin á næsta ári er 0,1% af landsframleiðslu og viðbót í nýsköpun er 0,3% af landsframleiðslu. Þetta eru ekki tölur til að hrópa húrra fyrir, herra forseti. Ég nefni þessar tölur hérna í belg og biðu til að undirstrika að raunverulega þarf að gera betur í uppbyggingu, atvinnusköpun, grænni atvinnustefnu o.s.frv. Það er einfaldlega ekki gert, herra forseti.

Það er svo merkilegt, eins og ég gat um í andsvari mínu við hæstv. ráðherra, að þegar ég hef verið að kalla eftir frekari aðgerðum þá mæti ég alltaf sama viðhorfinu: Það er svo óábyrgt að gera eitthvað meira. En síðan kemur hæstv. ráðherra með fjárauka eftir fjárauka þar sem hann bætir þó eitthvað í. Því ber að sjálfsögðu að fagna. En hann er ekki samkvæmur sjálfum sér, herra forseti. Hann hefur rifist við mig og fleiri þingmenn um að ekki eigi að hækka atvinnuleysisbætur, það sé svo slæmt og dragi svo mikið úr atvinnuþátttöku. Ég er ósammála því, sérstaklega í ástandi þar sem enga atvinnu er að finna. En í síðustu viku ákvað hann að hækka þær lítillega. Sömuleiðis er verið að bæta aðeins í aðra þætti. Þannig að ekki fer alveg saman hljóð og mynd hjá ráðherranum. Hann getur ekki verið eina stundina ofsalega á móti því að bæta í, eins og hann er, og svo líða einhverjar vikur og þá er haldinn blaðamannafundur og bætt aðeins í. Hvar stendur hæstv. ráðherra í þeirri pólitík og í hagstjórninni?

Ef við förum aðeins yfir fjáraukann sem hér er um að ræða þá eru þetta 65 milljarðar. Það er há tala, ég átta mig á því, en brjótum hana aðeins niður. Atvinnuleysisbætur eru helmingurinn af þessari tölu. Að sjálfsögðu hækkar heildarupphæð atvinnuleysisbóta þegar atvinnuleysi eykst. Mér finnst það með merkilegri röksemdafærslum sem ég hef heyrt ráðherra tefla fram, reyndar ekki fjármálaráðherra, heldur félagsmálaráðherra, þegar hann sagði í síðustu viku, og virtist í alvörunni vera að stæra sig af því, að engin ríkisstjórn hefði sett jafn mikið í atvinnuleysisbætur og þessi ríkisstjórn. Hugsum þetta aðeins. Auðvitað er sett met í upphæð atvinnuleysisbóta þegar atvinnuleysi er í methæðum. Það gerist sjálfkrafa. Fólk á rétt á atvinnuleysisbótum. Mér finnst sú nálgun ráðherrans álíka gáfuleg og ef forstjóri Landspítalans færi að monta sig af því að aldrei hefðu verið jafn margir veikir hjá honum, sem merki um einhvern árangur. Það er það að sjálfsögðu ekki. Þetta, herra forseti, er tóm steypa.

Kjarninn er hins vegar sá að upphæð atvinnuleysisbóta til hvers einstaklings er of lág, meira að segja eftir fyrirhugaða hækkun þeirra. Áfram skulu atvinnulausir lifa á um 260–270 þús. kr. eftir skatt þegar tímabundna tímabilinu lýkur. Það gerist þrátt fyrir að við í stjórnarandstöðunni og fjölmargir sérfræðingar höfum sagt það aftur og aftur að það besta sem við getum gert í svona ástandi sé að reyna að koma peningunum til þeirra sem þurfa á þeim að halda, koma þeim til atvinnulausra og tekjulágra. Það auðveldar lífið hjá því fólki en þessi hópur eyðir líka öllum peningunum sínum, hann á ekki annarra kosta völ. Það er dýrt að lifa á Íslandi. Ef við hækkum bæturnar til tekjulægstu hópanna, til atvinnulausra, öryrkja, eldri borgara, námsmanna o.s.frv., þá fara peningarnir strax aftur út í vinnu. Peningar þeirra skapa neyslu, umsvif, störf og skatttekjur aftur til baka. Þetta höfum við verið að segja og talað okkur hás um undanfarið ár. Komum þessum peningum sem þó eru til skiptanna til tekjulægstu hópanna, hækkum atvinnuleysisbætur meira. Það dregur ekki úr atvinnuþátttöku eins og sumir óttast. Það er umræða sem við höfum tekið áður.

Í öðru lagi á í fjáraukanum að veita 2,1 milljarð til sveitarfélaganna. Ég gat um það áðan að það er allt of lítið, herra forseti, á þessu ári. Það verður fróðlegt að sjá hvort við breytum fjárlagafrumvarpinu hvað það varðar.

Í þriðja lagi er í fjáraukanum verið að bæta Covid-kostnað hjá nokkrum stofnunum eins og sjúkrahúsum, skólum og lögreglu. Gott og vel. Við þurfum að fá það fram á vettvangi fjárlaganefndar hvort það dugi. En ég hef áhyggjur af öðrum kostnaði hjá öðrum stofnunum. Hjúkrunarheimilin fá hluta þarna en er sá kostnaður að fullu bættur í þessum fjárauka eða ekki? Hvað með þann Covid-kostnað sem SÁÁ sér fram á eða Geðhjálp eða hjálparsamtök eða sambærilegir aðilar? Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að Covid-kostnaður verði bættur. Það er fróðlegt að vita hvort hann verður bættur hjá öllum.

Í fjórða lagi eru í þessum fjárauka tekjufallsstyrkirnir. Þeir koma í þennan fjárauka núna. En á ég að segja ykkur eitt? Við í stjórnarandstöðunni vorum löngu búin að leggja til aukna styrki með þessum hætti til fyrirtækja. Takið eftir því. Við vorum fyrir löngu búin að leggja það til, við gerðum það í apríl. En hvað gerðu ríkisstjórnarflokkarnir? Þeir felldu tillögurnar eins og þeir hafa gert með eiginlega hverja einustu tillögu sem við höfum lagt formlega á borðið. Það er fellt. Það er ekki vegna þess að stjórnarflokkarnir séu endilega ósammála tillögunum heldur vegna þess að þær koma frá stjórnarandstöðunni. Sandkassaleikurinn verður ekki meiri en þetta á tímum neyðarástands og heimsfaraldurs. En við í stjórnarandstöðunni samþykkjum iðulega það sem stjórnin leggur hér á borð, séum við sammála því.

Í fimmta lagi segir það sína sögu, og ég gat um þetta reyndar áðan, að í flýtingu framkvæmdaverkefna fyrir allt árið 2020 fóru tæpir 18 milljarðar sem eru bara 0,6% af landsframleiðslu.

Herra forseti. Þetta eru allt þættir sem við í stjórnarandstöðunni og aðilar úti í samfélaginu höfum bent á að sé hægt að gera meira í og beri að gera meira í. Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD hafa öll sagt að rík þjóð eins og Ísland eigi að vaxa upp úr kreppunni. Ég veit að höggið er mikið og ég veit að ekki eru endalausir peningar til í ríkissjóði en samt eru peningar í ríkissjóði og ríkissjóður hefur ýmsar leiðir varðandi lántöku sem fyrirtæki, heimili og sveitarfélög hafa ekki. Nú eru vextir lágir. Það er lag, herra forseti, að gera betur. Við sjáum að hallinn á ríkissjóði stefnir í 9,5%. Ríkissjóður dræpist ekki þó að hallinn yrði kannski aukinn um 2 prósentustig, hann myndi ekki gera það. Ekkert hrikalegt myndi gerast ef við færum ekki í harkalegar hagræðingaraðgerðir strax eftir tvö ár, eins og má lesa út úr fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Þetta Covid-ástand er, sem betur fer, eitthvað sem skapast á 100 ára fresti, vonandi ekki mikið oftar. Þetta er djúp kreppa, dýpri en bankakreppan, og þess vegna eigum við að beita ríkisfjármálum af fullum þunga til að milda höggið, til að gefa fyrirtækjum og heimilum von.

Ég hef oft sagt úr þessum ræðustól að í svona kreppu séu helstu mistök stjórnvalda að gera of lítið. Því fyrr sem við náum viðspyrnunni, sem hæstv. ráðherra verður tíðrætt um, því fyrr fáum við aftur hagvöxt og framleiðslu á fullt og fáum skatttekjur inn á móti. Nú segja fræðin okkur að við eigum að gera miklu meira varðandi atvinnusköpun, við eigum að stuðla að grænni atvinnuuppbyggingu, við eigum að efla opinbera innviði. Við eigum að vera óhrædd við að fjölga opinberum starfsmönnum, það á ekki að vera skammaryrði. Við eigum einmitt að nýta núna tækifærið til að fjölga sjúkraliðum, hjúkrunarfræðingum, lögreglumönnum, vísindamönnum o.s.frv., við eigum ekki að vera föst í einhverjum hægri kreddum hvað það varðar, því að þörfin er fyrir hendi.

Við eigum sömuleiðis að huga að litlu fyrirtækjunum. Samfylkingin gaf nýverið út sérstakt efnahagsplan sem heitir Ábyrga leiðin. Þar erum við með margvíslegar hugmyndir, 33 hugmyndir, um hvernig við getum komið okkur aftur á fæturna. Það eru ekki síst litlu fyrirtækin og meðalstóru fyrirtækin sem eru hryggjarstykkið í atvinnulífinu sem þurfa hjálp. Við þurfum að hugsa miklu betur um iðnaðarmanninn, búðareigandann og litlu þjónustufyrirtækin, herra forseti. Að sama skapi ber okkur siðferðisleg og pólitísk skylda til að huga sérstaklega að þeim hópum sem hafa hvað minnst og þeim hópum sem reiða sig hvað mest á opinbera þjónustu, hvort sem það eru (Forseti hringir.) öryrkjar, eldri borgarar, sjúklingar, námsmenn eða einfaldlega fátækt fólk.