151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla alls ekki að andmæla því að við tökum hér dálítið breiða pólitíska umræðu um stöðuna og efnahagsmálin þó að við séum hér eingöngu að ræða um fimmta fjárauka ríkisstjórnarinnar sem teygir sig þá í raun og veru ekki nema til áramóta. Mér finnst hv. þingmaður leggja ofuráherslu á útgjaldahliðina, að það þurfi að ganga lengra og ýmis dæmi eru nefnd. Hann vill meina að ég hafi talað gegn atvinnuleysisbótum. Hið rétta er að ég hef sagt betra að styrkja atvinnutryggingakerfið með því að lengja í tekjutengda tímabilinu en að mæta kröfunni um verulega hækkun atvinnuleysisbóta. Og vegna þess að hv. þingmaður vísaði til þess sem félagsmálaráðherra hefur talað um, þ.e. að engin ríkisstjórn hafi greitt meira út, verður auðvitað að hafa það með í þeirri umræðu að ríkisstjórnin hefur stórhækkað grunnatvinnuleysisbætur á kjörtímabilinu. Það var gert árið 2018 og svo hafa þessar breytingar, t.d. lenging tekjutengda tímabilsins, mikil áhrif sömuleiðis fyrir utan það sem nú er boðað, um 2,5% ofan á það sem var fyrirséð um áramótin. Það er fleira í þessu en hv. þingmaður tiltók en það er ekki verið að leggja það til að ganga jafn langt og krafan hefur verið um hækkun grunnbóta þó að við séum að fara í ákveðna styrkingu, t.d. vegna barnafólks.

Ég sakna þess að heyra meira um það hvernig við komumst út úr þessu vegna þess að við munum ekki bara komast út úr þessari stöðu með því að koma peningum til atvinnulausra og þeirra sem eiga bágt með því að þeir fari síðan með peninginn út í búð og það skili sér einhvern veginn allt í auknum umsvifum og hærri skattgreiðslum til ríkisins þegar upp er staðið. Það sem vantar núna er verðmætasköpunin, landsframleiðslan sem er horfin. Það er stóra verkefnið okkar.