151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal með ánægju fara yfir tekjuhliðina. Það er auðvelt að vera með skoðanir á útgjaldahliðinni, sérstaklega þegar hún mætti vera betri. Ég held að atvinnuleysisbætur ættu t.d. að vera hærri svo að fólk geti lifað á þeim. En lítum svo á tekjuhliðina. Samfylkingin hefur ítrekað komið með hugmyndir varðandi tekjuhliðina. Við höfum verið að kynna hér eitthvað sem heitir atvinnuskapandi skattalækkanir fyrir fyrirtæki. Við studdum ekki þá leið ríkisstjórnarinnar að niðurgreiða uppsagnir fólks. Við viljum lækka tryggingagjald fyrir einyrkja og smáfyrirtæki. Við kynntum hér hugmynd, sem mér finnst mjög spennandi, um 2 millj. kr. afslátt af tryggingagjaldi fyrir öll fyrirtæki, þetta yrði hálfgerður persónuafsláttur fyrir fyrirtæki, myndi gagnast best þeim fyrirtækjum sem eru hvað smæst en myndi samt gagnast öllum. Þetta er ein leið til að koma hjólunum af stað aftur, sem ráðherrann var að kalla eftir.

Ég veit ekki hversu margar ræður ég hef haldið um fjölmörg svið þar sem við gætum búið til peninga og ég vil nefna sérstaklega sjónvarps- og kvikmyndagerð. Það er svo auðvelt. Sjónvarps- og kvikmyndagerð gæti verið hluti af atvinnustefnu Íslands og ég skil ekki af hverju ríkisstjórnin er ekki tilbúin að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%. Það er búið að tala um þetta síðan í janúar, að það væri rosalega sniðugt til að búa til störf og skapa umsvif, ekki síst á þeim sviðum sem þarf, í ferðaþjónustunni. Grænmetisframleiðslan er annað dæmi. Ég veit þetta mætir ekki allri þörfinni en við þurfum að hafa marga sprota. Þessi ríkisstjórn var tilbúin að auka innlenda grænmetisframleiðslu um einn fjórða. Ég kom með hugmyndir um að við ættum að fjórfalda grænmetisframleiðslu. Tölvuleikjaiðnaðurinn, Tækniþróunarsjóð, nýsköpun — ég gat um það í ræðu minni. Af hverju fullfjármögnum við ekki Tækniþróunarsjóð? Hvernig stendur á því að viðbótin í nýsköpun á næsta ári er 0,3% af landsframleiðslu? Þetta eru ekki stóru tölurnar og það er svo auðvelt að setja þetta í atvinnusköpun í einkageiranum. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin fellir tillögur okkar um að lækka tryggingagjald og setja meiri peninga í nýsköpun? Það býr einmitt til atvinnu.