151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins stuttlega að ræða um atvinnuleysisbæturnar í samhengi við tryggingagjaldið og sömuleiðis frekari afslætti á því. Við erum að mæla fyrir því hér að það lækki tímabundið en við verðum einfaldlega að ræða það af meiri þunga og alvöru í þinginu til hvers tryggingagjaldið er yfir höfuð. Atvinnutryggingagjald er sem sagt gjald til þess að tryggja ákveðin atvinnuréttindi, bætur í atvinnuleysi. Við erum að stýra málum með þeim hætti núna að ríkið taki á sig sveiflujöfnunina. Fyrir nokkrum árum voru aðilar vinnumarkaðarins að óska eftir því að fá bæði Fæðingarorlofssjóðinn og Ábyrgðasjóð launa, atvinnutryggingagjaldið í heild sinni, og bera ábyrgð á þessu og sömuleiðis fæðingarorlofið og allt sem því fylgdi. Því var hafnað og ríkið hefur þetta hjá sér. Ég hef verið að reyna að vinna að því að menn sammæltust um langtímaatvinnutryggingagjald og sömuleiðis fulla fjármögnun á fæðingarorlofshlutanum í gegnum tryggingagjaldið á öllum útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs. Á meðan við höfum ekki tæmt þessa umræðu þá erum við stödd í millibilsástandi þar sem er voðalega freistandi að vera að kroppa af þessu og láta svo almannatryggingar mæta afgangi, sem er þá almenni hluti tryggingagjaldsins sem er ætlað að styðja ríkissjóð til að standa undir almannatryggingum. Þetta er allt komið á flot og upp í loft í augnablikinu og ég vildi bara aðeins koma því á framfæri.

Annars get ég tekið undir sumar hugmyndir hv. þingmanns. Ég held það séu sóknarfæri í grænmetisframleiðslu og við eigum að vera öflug í kvikmyndaframleiðslunni. Ég held að það sé ekkert nauðsynlega þannig að við þurfum að fara í 35%. Ég held reyndar að kerfið okkar í dag sé mjög aðlaðandi og vel samkeppnisfært. Nákvæmlega hvar sú lína liggur er, held ég, svolítið hreyfanlegt skotmark, en þetta eru allt hugmyndir sem við þurfum að vinna áfram með.