151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[16:45]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér í fimmta sinn fjáraukalög fyrir árið 2020 og það er kannski ekki undarlegt í ljósi allsérstakra aðstæðna sem við búum við í samfélaginu um þessar mundir. Ekki hefur gefist tími til að fara vendilega yfir frumvarpið í heild sinni, enda var það lagt fram í gærkvöldi. Það er viðamikið og margir þættir sem vert er að skoða þar. Við fyrstu skoðun veldur það nokkrum vonbrigðum að ekki skuli tekið fastar á tilteknum þáttum sem við er að fást akkúrat núna. Maður hefur áhyggjur af því að ýmislegt sem þarna er sagt sé ekki nægilegt. Ég nefni t.d. framlög til skóla. Ég nefni sérstaklega framlög til sveitarfélaga. Ég nefni sérstaklega framlög vegna Covid-kostnaðar. Þetta mun væntanlega þýða að við sem erum í fjárlaganefnd þurfum að beita okkur enn frekar í því að lagfæra fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir og er til umræðu í nefndinni.

Gerum meira en minna, segir ríkisstjórnin. En samt gerir ríkisstjórnin minna en meira. Það eru mikil vonbrigði vegna þess að samfélagslegar afleiðingar af því að gera minna en meira verða verri og illviðráðanlegri fyrir vikið. Það má hafa uppi alls konar almenn orð um það hvað hefði átt að gera. Það þjónar kannski litlum tilgangi í sjálfu sér. Ég held að óhætt sé að fullyrða að við í Viðreisn, og reyndar margir í stjórnarandstöðunni líka, hefðum viljað sjá stærri stef skref stigin og það strax.

Ástandið er vissulega alvarlegt. Atvinnuleysið er óþolandi mikið. Allt of mörg fyrirtæki berjast í bökkum, berjast fyrir lífi sínu og það þarf að gera eins mikið og nokkur kostur er til þess að búa þannig um hnútana að samfélagið sé eins vel í stakk búið og nokkur kostur er til að taka þátt í því þegar úr rætist. Það er vissulega þannig að það er ljós við enda þessara ganga. Það er ljós vegna þess að það standa vonir til þess að innan ekki allt of langs tíma takist að byrja að ráða niðurlögum veirufaraldursins. Bóluefni eru u.þ.b. að verða tilbúin og bólusetningar geta hafist. Það breytir ekki því að staðreyndin er sú að það er enn býsna langt, það eru enn margir mánuðir þangað til að samfélagið okkar, þangað til samfélög víða um heim komast í samt lag að því leyti að fólk geti stundað sína vinnu, það geti ferðast og það geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu með því að beina neyslu sinni út í samfélögin.

Við þurfum að miklu leyti að treysta á það að úr rætist í ferðabransanum til skemmri tíma. Þess vegna er svo brýnt að það sem við gerum verði til þess að stutt sé við fyrirtæki á því sviði, og reyndar í fleiri geirum sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum og voru óbeint tengdir ferðamennskunni. Má þar nefna ýmsa menningarstarfsemi, listir og síðan hina fjölbreyttu flóru í því sem við sum hver a.m.k. erum farin að kalla næturhagkerfið, þ.e. skemmtanalífið. Það er órjúfanlegur þáttur og nauðsynlegur í mannlegu samfélagi til þess að við getum notið þess að vera til. Þess vegna er svo mikilvægt að stuðningi sé beint þangað sem hann skilar mestum og bestum árangri. Þvert á það sem margir ráðherrar segja, a.m.k. á hátíðarstundum, að þeir séu staðráðnir í því að gera alltaf meira en minna, gera þeir minna og þeir gera það helst of seint, og það er miður. Það er mjög mikilvægt við þessar aðstæður að stíga stór skref strax, að skapa eins mikla vissu og kostur er um framtíðina. Ég veit vel og geri mér fulla grein fyrir því að það er erfitt en það er samt hægt að gera betur og það þarf að gera.

Fjárlögin sem við erum að fást við eru býsna snúin. Ég held að það sé mikið verk að vinna fyrir fjárlaganefndina að bæta þar verulega í á mörgum sviðum ef við ætlum að geta gert hvort tveggja í senn, varðveitt eins mikið af fyrirtækjum og efnahagslegri starfsemi og kostur er og geta reist við það sem við áttum. Það verður örugglega ekki hægt að reisa það allt saman við. Það blasir við. En á sama tíma þurfum við líka að huga að framtíðinni og vera djörf í því að byggja undir það sem mun skila okkur fjölbreyttara hagkerfi, fleiri stoðum. Við verðum að gera það samtímis því að ef það dregst að bregðast við á þeim sviðum þá dregst það líka að nýjar atvinnugreinar, ný fyrirtæki, verði til. Við megum ekki við því. Ef það er eitthvað eitt sem við vitum fyrir víst þá er það að áföll munu koma að nýju, vonandi ekki af sömu stærðargráðu og við erum að fást við núna en þau munu koma. Og í hvert skipti sem þessar dýfur koma höfum við sagt við sjálf okkur: Við þurfum fjölbreyttara atvinnulíf, við þurfum fleiri stoðir til þess að treysta á svo að dýfurnar verði ekki eins krappar og djúpar. Einhvern veginn hefur okkur alltaf tekist meira og minna að gleyma því um leið og rofar til. Síðan vöknum við aftur upp við vondan draum við næstu dýfu og segjum: Æ, við hefðum kannski átt að vera duglegri við að gera atvinnulífið fjölbreyttara og sterkara til að takast á við sveiflur af þessu tagi.

Þetta er auðvitað verkefni sem við verðum að taka alvarlega og takast á við. Ég vil eiginlega lýsa þeirri ósk minni og þeirri von að við í fjárlaganefnd munum spýta í lófana og gera enn betur en útlit er fyrir miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp. Ég held að einu sinni enn séum við — og þegar ég segi við þá á ég við ríkisstjórnina — að byggja á of bjartsýnum forsendum. Ég held að það blasi við að þrátt fyrir að ljósið sé við enda ganganna þá muni þetta ganga hægar og verða erfiðara en þær spár sem fjárlagafrumvarpið byggir á gera ráð fyrir. Við verðum að taka mark á því. Fjárlaganefndin og Alþingi getur ekki horft frá því sem blasir við út um gluggann en látið nægja að glugga í gamlar hagspár sem blasir við að eiga ekki við lengur. Ég trúi því og treysti að okkur takist þetta því að það er til mjög mikils að vinna. Ef okkur tekst þetta ekki er ég hræddur um að skaðinn verði mun meiri en ella.