151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[17:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um fjáraukann árið 2020. Það er ýmislegt við hann að athuga. Við getum bara byrjað á því að nefna að Félag eldri borgara, grái herinn, sendi út yfirlýsingu þar sem þau biðja um jafnrétti, biðja um að fá sínar hækkanir eins og allir aðrir hafa fengið. En eins og kom fram í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra stendur það ekki til. Hann telur að allt þetta — gengið, verðbólgan, hækkun matvöruverðs og aukinn Covid-kostnaður — muni greiðast upp með hækkun til eldri borgara og öryrkja um næstu áramót, sem á að vera 3,6%. Það má þó þakka fyrir að þessi 3,6% hækkun um næstu áramót dugi fyrir verðbólgunni. Ef rétt væri farið að, ef farið væri eftir launaþróun, eins og stendur í 69. gr. almannatryggingalaga, ætti hækkunin að vera rúmlega 6%. Sú hækkun myndi skila nokkurn veginn því sem grái herinn er að biðja um af hógværð sinni. Það myndi skila sér nokkurn veginn í þeirri upphæð sem þau fara fram á en eins og þau benda á þá eru þessi 3,6% ekki nema rétt um 9.000 kr. og skila ekki nema 5.000 kr. í vasann, sem er ekki há upphæð í samhengi við það hvað allt kostar orðið í dag og hversu mikið öll útgjöld hafa hækkað. Í þessum fjárauka, með tímabundnum, ófyrirsjáanlegum og óhjákvæmilegum útgjöldum, á þetta að koma fram en það verður að segjast eins og er að það er ekki að ske. Ef maður tekur lið 25, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, vitum við að Landspítali – háskólasjúkrahús er ekki að fá það sem hann þarf. Ákveðin aðhaldskrafa er gerð, sem er auðvitað algjörlega fáránlegt í þeirri stöðu sem er í dag vegna Covid. Mikið hefur verið lagt á starfsfólk sem hefur staðið sig með ólíkindum vel í þeirri baráttu.

Það er annað sem ég sé hvergi í fjáraukanum og mér finnst algjörlega vanta, það ætti að vera löngu búið að skrifa eitthvað um það, a.m.k. vera með einhverja fjárhæð, og það tengist afleiðingunum af Covid. Við vorum að hlusta hér á hv. þm. Björn Leví Gunnarsson tala um 2 milljarða hækkun í endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun. Það er bara stefnan þar núna, það á að dæla öllum inn á endurhæfingarlífeyri, engum inn á örorku, það liggur fyrir að það á að setja inn starfsgetumat á næsta ári. En látum það vera. Samfara því erum við að verða vitni að því að þeir sem hafa veikst af Covid, og jafnvel þeir sem ekki hafa veikst neitt sérstaklega illa, hafa þurft að glíma við eftirköstin. Því erum við að gleyma. Þar eru stórar fjárhæðir sem þarf að leggja fram; Reykjalundur, sjúkraþjálfun, alls konar endurhæfing. Og jafnvel endurhæfingarlífeyrir, þar kemur fólk líka inn og það virðist ekki tekið með í þessum fjárauka. Það er eins og enginn sé að spá í þann kostnað. Við verðum að átta okkur á því, við eigum að vera með það alveg á hreinu, að í þessu málefni er t.d. alveg óskiljanlegt, eiginlega stórfurðulegt, hvað þessi ríkisstjórn virðist alltaf vera blind inni í mismununarþoku. Það er frábært að hún sé að sýna lit og setja 50.000 kr. eingreiðslu til öryrkja, það ber að þakka. En þá skilur maður ekki af hverju í ósköpunum hún skilur eldri borgara eftir. Það er ákveðinn hópur eldri borgara sem stendur vel. En við erum með hóp sem er á strípuðum lífeyri, engar lífeyrissjóðsgreiðslur, það er ekki stór hópur en samt hópur. Svo erum við líka með þá sem orðið hafa fyrir búsetuskerðingum og þeir fá 90% af þessu lágmarki. Þeir þurfa aldeilis að herða sultarólina og ég held að við séum löngu komin í síðasta gatið til þess. En ríkisstjórnin heimtar alltaf nýtt og nýtt gat, þessir aðilar eiga að herða ólina betur. Það er synd og skömm vegna þess að við erum líka að tala um eldri borgara sem hafa byggt upp þetta land og við eigum að sýna meiri virðingu. Við eigum ekki að mismuna vegna þess að við erum líka að reyna að koma vinnumálum í gang, við sjáum það t.d. að þangað er verið að setja 44,3 milljarða. En við verðum líka að spyrja okkur að því hvers vegna í ósköpunum við erum í þessari stöðu núna. Við hefðum getað verið í miklu betri stöðu ef við hefðum strax eftir fyrstu bylgjuna lokað landinu. Við fáum inn stökkbreytta veiruna, við hleypum henni inn í landið. Það olli því að í dag eru leikhús, veitingahús, sundlaugar, líkamsræktarstöðvar og skólar að stórum hluta í lamasessi vegna þess að við stóðum ekki í lappirnar, vegna þess að við sáum ekki til þess að hlutirnir yrðu gerðir á svipaðan hátt og gert var í Nýja-Sjálandi. Ef við hefðum gert það, ef við hefðum séð til þess að enginn kæmist inn í landið án þess að fara í skimun og vera í einangrun og fara aftur í skimun, að enginn fengi að fara út í samfélagið fyrr en pottþétt væri að hann væri veirulaus, þá værum við ekki í þessari stöðu. Þá þyrftum við ekki að halda uppi stórum hópi listamanna og annarra. Þeir gætu verið að vinna vegna þess að þá væru þeir ekki með veiruna. Mistökin liggja þarna og það er synd og skömm að við virðumst ekki ætla að læra af þessu, því miður. Ég vona heitt og innilega að við gerum það en útlitið er ekki bjart.

Þessi fjárauki er gallaður að því leyti til að hann er að mismuna enn eina ferðina. Sá hópur sem hefur byggt landið upp, eldri borgararnir okkar, er skilinn eftir. Þeir eiga ekki að fá neitt í þessu og þeir eiga bara að fá 3,6% um næstu áramót. Ef rétt væri gefið væru það 6%. Í fjárlögunum segir að launahækkunin sé 5,1% en skýringin á 3,6% upp í 5,1% eða 6% sé eitthvert launaskrið sem ekki eigi að telja með. Auðvitað á að telja það með. Það stendur í 69. gr. að miða eigi við launaþróun og það er það sem við eigum að gera og sjá til þess að þeir sem verst hafa það fái alla vega hjálp. En því miður er það ekki gert hérna. En ég vona að fundin verði leið, í umræðu um þetta í fjárlaganefnd, að séð verði til þess að a.m.k. þeir sem eru verst settir á meðal eldri borgara fái sitt til jafns við aðra.