151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

almannatryggingar.

90. mál
[17:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi, þegar við hættum umræðu á þingi, vorum við að fjalla um frumvarp Flokks fólksins, sem allur flokkurinn stendur stoltur að, um frítekjumark vegna lífeyristekna. Í stuttu máli fjallar þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum, frítekjumark vegna lífeyristekna, að í stað 25.000 kr. almenns frítekjumarks fyrir allar tekjur verði sérstakt 100.000 kr. frítekjumark á mánuði upp í lífeyrissjóð. Þetta er mjög gott og mjög þarft fyrsta skref til að bæta kjör þess fólks sem hefur lágan lífeyri og í þeim hópi eru að stærstum hluta konur. Eins og staðan er í dag skilar 25.000 kr. frítekjumark um 15.000 kr. og það sem á eftir kemur, ef viðkomandi fær segjum 100.000 kr. úr lífeyrissjóði, er fyrst skattað, allt að 37%, jafnvel meira, og síðan skert um 45%. Hver einasti sem kann smá í reikningi sér hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir þá sem eru á lægstum lífeyri. Þetta er hrein og klár eignaupptaka á lífeyri þessa fólks. Þegar lífeyrir var upphaflega settur á var hann ekki hugsaður til þess að valda fólki fjárhagslegu tjóni þannig að það sé eiginlega í fátækt, jafnvel sárafátækt, heldur var tilgangurinn að lífeyrir myndi bæta stöðu viðkomandi þegar hann kæmist á lífeyristökualdur.

Það er sárt til þess að hugsa ef við bara áttum okkur á því hvaða tölur við erum að tala um í sambandi við það hvað ríkið er að spara sér með þessum gígantísku skerðingum á lífeyrissjóðstekjum, þær eru svakalegar. Ef við tökum bara allar tekjur, lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og allt, eru skerðingarnar 42.410.000 kr. Ef við tökum bara lífeyrissjóðinn eru það 37.556.000 kr. Þetta segir okkur þá sögu hversu gífurlegum upphæðum ríkið er að ná inn með þessum hætti. Bara við það að hækka frítekjumark í 100.000 kr. myndi skila þeim sem eru með — sumir eru kannski með 20.000, 30.000, aðrir með 50.000 kr. — ef þeir fengju frítekjumark alveg að 100.000 kr. fengju þeir lífeyrinn sinn og gætu notað hann. Að vísu, eins og við vitum öll, þarf að borga skatt af því en það segir okkur það að í staðinn fyrir að ákveðinn aðili sé með 15.000 kr. þá gæti hann verið með 60.000–70.000 kr. og það skiptir sköpum í þessum lágu upphæðum sem um er að ræða. Við erum ekki að tala um neinar risaupphæðir hjá þessu fólki. Við vitum að strípaður lífeyrir er rétt rúmlega 220.000 kr., þannig að við erum ekki að tala um neinar gífurlegar upphæðir. Við erum að tala um að viðkomandi fólk fari úr fátækt yfir í að nálgast það sem er hægt að lifa af nokkurn veginn eða kannski tóra. Ef við ætluðum að fara alla þá leið þyrftum við að fara mun hærra og upp undir 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, sem væri flott. Eitt af baráttumálum Flokks fólksins er einmitt 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. En þetta væri frábært fyrsta skref í þeirri viðleitni að koma þessum málum eitthvað af stað.

Það kostar um 16 milljarða að setja 100.000 kr. frítekjumark á mánuði en, eins og ég segi, þá kostar það ekki. Það er bara verið að skila til viðkomandi þessum peningum og sérstaklega núna í þessu ástandi í dag þar sem kerfisbundið er verið að skerða og eldri borgarar fá ekki þær hækkanir sem þeir eiga rétt á. Þeir sitja eftir, alveg eins og flestallir lífeyrisþegar, hvort sem það eru öryrkjar eða eldri borgarar, þeir sitja eftir, þeir mega þakka fyrir að fá hækkun til jafns við hækkun verðbólgu, þeir fá ekki hækkun vegna launaþróunar eins og þeim ber. Við vitum það að ríkisstjórn eftir ríkisstjórnin hefur séð til þess með öllum ráðum að viðkomandi sitji eftir. Það vantar þetta upp á. Ef við tökum það skattalega; persónuafslátt, skattahækkanir, kjaragliðnun og allt er tekið inn í dæmið þá á lífeyrir að vera 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Ég segi fyrir mitt leyti, og við vitum það öll, að það er bara lágmark til að lifa af með einhverri smáreisn hér á Íslandi.

Þetta mál er hið besta mál en því miður, eins og flest mál, fær það ekki hljómgrunn hjá ríkisstjórninni frekar en önnur mál. Og eins og vanalega þá erum við að flytja þetta mál fyrir tómum sal og ekki einn einasti stjórnarþingmaður í salnum fyrir utan frú forseta. Það verður því miður að segja eins og er að það er sorglegt til þess að vita að frítekjumark skuli bara vera 25.000 kr. Þetta er ótrúlega lág tala og þetta er sorglegt vegna þess að þetta bitnar á þeim sem síst skyldi. Við vitum líka að það er fullt af einstaklingum sem eru með mjög góðan lífeyri. Þegar fólk er komið upp í 600.000–700.000 kr. úr lífeyrissjóði fær það ekkert úr almannatryggingakerfinu en það á að segja sig sjálft að meðan viðkomandi fær ekki nema 220.000 kr., þá á hann að fá úr lífeyrissjóði sínum og þetta er bara fyrsta skrefið, 100.000 kr. frítekjumark. Það er held ég afskaplega sanngjarnt og væri frábært og er einmitt í anda þeirrar kröfu sem Félag eldri borgara hefur lagt fram. Fyrir utan það, eins og hefur komið fram, þá gerði það ekki neinar gífurlegar kröfur varðandi fjárauka eða fjárlagafrumvarp, aðeins að eldri borgarar fengju samsvarandi hækkanir og aðrir hafa fengið. En það er eins og alltaf, það er skorið niður um helming eða meira en það. Það má þakka fyrir að fá helminginn eða jafnvel einn þriðja af því sem þeir eiga að fá. Það er eiginlega sorglegast í því ástandi sem er í dag og Covid-ástandinu að ríkisstjórnin hefur fundið breiðu bökin í þessum hópi og lagt þennan bagga á hann. Því miður, það ætti að vera þveröfugt. Breiðu bökin eru þeir sem hafa það gott. Þeir eiga að taka þennan bagga en ekki þeir sem hafa það verst. En eins og vanalega er þessu alltaf öfugt farið en ég vona heitt og innilega að þeir fari nú að sjá ljósið og gera eitthvað fyrir þá sem þurfa virkilega á því að halda.