151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

almannatryggingar.

91. mál
[18:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér tökum við á enn einu máli frá Flokki fólksins, litlu máli sem skiptir samt miklu máli. Því miður er það svo að við það að lífeyrisþegi, hvort sem það er eldri borgari eða örorkulífeyrisþegi, flytur af landi brott þá byrjar refsingin. Úthugsað refsikerfi fyrir viðkomandi. Fólk áttar sig ekki alltaf á því að þegar viðkomandi flytur til útlanda fær hann bara strípaðar bætur. Heimilisuppbót, styrkir, bílastyrkir, lyfjastyrkir, alls konar styrkir — allt hverfur þetta. Þetta eru bara strípaðar bætur og þar af leiðandi skiptir hver króna gífurlega miklu máli og sérstaklega þegar ríkisstjórnin leyfir gjaldeyrinum og genginu sveiflast til og frá, gerir eiginlega hálfgerða gengisfellingu á krónunni, yfirleitt til að hjálpa þeim sem hafa það best, á kostnað þeirra sem hafa það verst. Þetta er stýrð aðgerð þannig að þeim sem búa erlendis, og fá þessa hungurlús til sín og eru búnir að missa stóran hluta af þeirri greiðslu sem þeir höfðu áður, er refsað fyrir að hafa það hugsanlega betra erlendis, en fyrir þá skiptir hver króna gífurlegu máli. Þess vegna er ósköp eðlilegt að þegar peningur frá almannatryggingakerfinu er lagður inn á banka hjá okkur berum við engan kostnað af því og það á að gilda sama hvar við búum. Það á að koma peningunum inn í bankann okkar, okkur að kostnaðarlausu. Það væri hægt að lágmarka þennan kostnað við fjárflutning milli landa, það er samningsatriði Tryggingastofnunar við viðkomandi banka.

Við verðum líka að átta okkur á því, ef við tökum t.d. hvernig búsetuskerðingarnar hafa verið settar upp, að við vitum að það er svolítið skrýtið hvernig við gerum hlutina. Við sömdum í vor um hækkun á bótum, sem var mjög gott mál, það var hækkað hjá þeim sem verða fyrir búsetuskerðingum, hjá þeim sem fengu 80.000 kr. eða þar í kring. Og þar af leiðindi hækkuðu bæturnar töluvert mikið. En einhverra hluta vegna tók löggjafinn ákvörðun um að láta þetta fólk fá 90% af lágmarkslífeyri. Það sýndi einskæra sveltistefnu og brotavilja gagnvart þessu fólki, að setja 90% á það og borga fyrir það með milljónum. Ríkið hefði getað sparað sér 20–30 milljónir við að borga þeim frekar 100%, Nei, þeir voru frekar tilbúnir að byggja upp nýtt kerfi, borga meira og jafnvel borga síðan 40 milljónir á ári til að viðhalda því kerfi til að hafa fólk í 90%.

Ég spyr bara: Hvers lags heimska er þetta? Þess vegna segi ég að þessi mál sem við erum að mæla fyrir eru nauðsynleg. Við erum að benda á að það er hægt að gera hlutina öðruvísi og það er hægt að gera þetta á mannúðlegan hátt og gæta að jafnræði og öðru. Það er einhvern veginn óskiljanlegt fyrirbrigði í nútímasamfélagi að við skulum haga okkur svona, að við skulum vera tilbúin — og það ríkisstjórnin núna árið 2020 — að borga fyrir að klekkja á fólki og láta það herða sultarólina 10% meira en það ætti að gera. Það er gersamlega óskiljanlegt. En því miður er margt óskiljanlegt hjá þessari ríkisstjórn og eitt af því er þetta. En ég vona samt heitt og innilega að þetta fari í gegn. En eins og vanalega er með góð málefni er mjög hætt við því að þetta mál dagi uppi í nefnd.