151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

skákkennsla í grunnskólum.

106. mál
[18:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fjalla um þetta mál sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason var að mæla fyrir, ég er reyndar á málinu ásamt fleiri þingmönnum. Þar segir að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að kanna hvort tilefni sé til að skákkennsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskóla. Í mínum huga er það sjálfsagt mál að þetta verði kannað og mér finnst tilefnið brýnt.

Hv. þingmaður og flytjandi málsins fór vel yfir þetta mál og færði fyrir því rök, fór yfir söguna og vitnaði í rannsóknir sem gerðar hafa verið á hvað skákkennsla og -kunnátta gerir ungu fólki gott, ekki síður því eldra. Ég sjálfur man eftir því þegar ég var ungur stubbur að ég lærði mannganginn snemma og á mínu æskuheimili var skák tefld töluvert og þegar það voru gestir í húsi, ættingjar og vinir, var jafnvel slegið upp skákmóti á nokkrum borðum. Þetta þótti okkur krökkunum rosalega skemmtilegt og við fengum að vera með fullorðna fólkinu og þetta var hin besta skemmtun auk þess að keppnisandinn réði líka ríkjum, að ná sér í vinning. Eins var skákkennsla í barnaskóla, sem þá hét þegar ég var ungur, hún var bara aukagrein en var mjög vinsæl og þar voru líka skákmót og þetta gerði manni mjög gott. Ég var reyndar aldrei neitt góður í skák en ég kann alla vega mannganginn enn þá. Ég var ekkert heldur góður í því að hugsa marga leiki fram í tímann en það er kannski bara eins og margt annað í lífinu, það er misjafnt hvað við erum klók að sjá marga leiki fram í tímann í lífinu sjálfu. En það er gott að geta lært það í skákinni.

Það kemur fram í greinargerðinni að skák, eins og hún þekkist í dag, hafi borist hingað til lands síðla á 12. öld, þ.e. 300 árum eftir landnám eða rúmlega það, og hafi komið frá Orkneyjum eða því svæði. Við státum af því, Íslendingar, að eiga marga skáksnillinga, marga meistara, en mér hefur fundist núna síðustu ár að minna hafi verið fjallað um skák, það sé minni umræða, minni neisti í skákinni en var fyrir nokkrum árum síðan. Ég man vel eftir heimsmeistaraeinvíginu 1972, einvígi aldarinnar sem kallað var, þegar Spassky og Fischer háðu einvígi í Laugardalshöll og þetta var í hverjum fréttatíma og maður fylgdist vel með, þá var ég ekki nema 12 ára gamall en hafði rosalega gaman af þessu og var mjög stoltur af því að sjá þessa heimsfrægu skáksnillinga leiða saman hesta sína á skákborðinu.

Hv. þingmaður, Karl Gauti Hjaltason, fór mjög vel yfir þetta mál og ég hjó eftir því sem kemur fram hér um hvað skákin gerir gott fyrir ungt fólk sem er að þroskast bæði líkamlega og andlega. Hér segir, með leyfi forseta:

„Það sem vakið hefur hvað mesta eftirtekt í rannsóknum seinni tíma á áhrifum skáklistarinnar í skólastarfi er hversu vel skákin hefur reynst félagslega og þá sem samfélagslegt tæki innan veggja skólans. Skákiðkun leiðir þannig saman ólíka hópa krakka með mismunandi bakgrunn sem að öðrum kosti leiða jafnan ekki saman hesta sína; skákin gefur mismunandi kynslóðum og árgöngum barna og ungmenna tækifæri til að kynnast og eiga samskipti og þjappar saman ólíkum hópum nemenda sem að öðrum kosti hafa tilhneigingu til að einangrast frá hver öðrum.“

Þannig að skákin á fullt erindi inn í skólann að mínu mati. Mér þótti svolítið gaman að heyra að hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem var hér á undan mér í ræðustól, talaði um að þetta væri fallegt og frumlegt mál. Ég get alveg tekið undir það. Eins talaði hún um í lok ræðu sinnar um umræðuna og vinnuna sem fer af stað núna í framhaldi af þessari framsögu, að Alþingi raungeri þann möguleika að skólarnir geti aukið skákkennslu á þeim vettvangi sem skólarnir eru. Þetta kostar náttúrlega einhverja peninga og þetta kostar skipulag en það er alveg þess virði að fara í þá vinnu vegna þess sem að framan hefur verið nefnt.

Ég óska hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni til hamingju með að leggja þetta mál fram og vonast til að það fái farsælan framgang í þeirri nefnd sem það fer til.