151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

108. mál
[19:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um þingsályktunartillögu Flokks fólksins um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, sem er alveg frábær tillaga og löngu tímabært að við förum út í. Við getum bara horft á það hvað Bretar hafa engst lengi við að reyna að komast út úr þessu bandalagi. Ég held að það sé nóg til að við áttum okkur á því að þangað inn höfum við ekkert að gera. Bretar voru stórþjóð þar inni en við erum smáþjóð. Því miður verður bara að segjast eins og er að Evrópusambandið tekur smáþjóðir og gleypir þær í einum bita í morgunmat. Þær eiga engan séns þarna inni, það er ekki möguleiki að eiga við þetta bákn.

Við verðum líka að átta okkur á því að ein aðalástæðan fyrir því að Bretum gengur svo illa að komast út úr Evrópusambandinu er baráttan um fiskimiðin þeirra. Við getum ímyndað okkur hvernig staðan væri á okkar fiskimiðum miðað við Breta. Þeir fá ekki nema eitthvað um 30% af sínum fiskimiðum. Þjóðirnar í kring eru arfabrjálaðar yfir því að Bretar séu að fara út og þær geti ekki fengið að arðræna fiskimið þeirra áfram. Síðan horfum við líka upp á það hvernig Tékkar, Ungverjar, Spánverjar, Portúgalar og Grikkir engjast þarna og hvernig þeir fóru út úr bankahruninu, verandi inni í þessum óskapnaði sem Evrópusambandið er.

Ég hef einu sinni kynnst þessu blessaða batteríi og komið að Evrópubyggingunni í Brussel. Það sem sló mig mest var að þá var ég á fátæktarráðstefnu í gylltri konungshöll. Það sýndi nú hvernig þeir hugsa um fátækt að þeir vildu halda fátæktarráðstefnuna í gulli og öllu eins flottu og hægt væri að hafa sem er auðvitað algjör andstæða við málefnið. Þarna var tekin ákvörðun um að mótmæla fátækt fyrir utan höfuðstöðvar Evrópusambandsins. Ég hef aldrei séð aðra eins skelfingu vegna þess að fólk uppgötvaði allt í einu að gleymst hefði að biðja um leyfi fyrir því að mótmæla fyrir utan Evrópusambandsbygginguna. Ég horfði á það með forundran: Að fá leyfi til að mótmæla fátækt? Og ég hugsaði með mér: Í hvaða fangelsi er þetta fólk komið? Innan við helmingur þorði að fara að mótmæla án þess að hafa leyfið. Niðurstaðan varð sú að það varð nú engin uppákoma. Við fengum að mótmæla og maður þurfti ekkert að óttast það en þessi ótti sem ég sá stakk mig mikið vegna þess að þarna var jú fólk sem lifði í fátækt og var að berjast fyrir sínum málum. Þetta sýndi mér að það óttaðist ósköp þessa valdastofnun.

Það segir okkur líka að við eigum að forðast þá valdastofnun eins og heitan eldinn. Við höfum ekkert þangað inn að gera og eigum bara að draga burt þessa aðildarumsókn, ef hún er til staðar, og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þangað séum við ekki að horfa. Núna getum við líka bara horft til Breta og fengið þá í lið með okkur fyrir utan Evrópusambandið ásamt fleiri þjóðum eins og Noregi sem eru þar fyrir utan. Við erum, held ég, í miklu betri félagsskap fyrir utan Evrópusambandið en inni í því og við getum leyft þeim sem þar vilja engjast inni að vera þar áfram. Ég vona heitt og innilega og veit að meiri hluti þingmanna myndi samþykkja þetta hér í þinginu ef verið væri að greiða atkvæði um það. Einungis fáir eru enn þá með hugann við að komast inn í Evrópusambandið. Ég held að þjóðin hafi fyrir löngu áttað sig á að þangað eigum við ekkert erindi.