151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

minningardagur um fórnarlömb helfararinnar.

110. mál
[19:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka sérstaklega hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrsta flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu um að Ísland minnist helfararinnar þann 27. janúar ár hvert. Ég vil segja, frú forseti, að það er löngu tímabært að slík tillaga líti dagsins ljós hér á Alþingi. Það hefði verið óskandi að þessi tillaga hefði fengið framgang hér á síðasta þingi þegar hún var lögð fram í fyrsta sinn þannig að Íslendingar hefðu getað minnst þess opinberlega að 27. janúar á þessu ári voru 75 ár liðin síðan sovéski herinn frelsaði fanga úr fangabúðum nasista í Auschwitz í Póllandi. Eins og segir í tillögunni minnast öll aðildarríki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu helfararinnar á einhvern hátt, sömuleiðis Norðurlöndin, öll nema Ísland.

Frú forseti. Við getum ekki verið þekkt fyrir það, það vekur upp spurningar og ég held að það sé bara nauðsynlegt að leita svara við því hvers vegna Ísland hefur ekki, eitt landa í evrópsku samstarfi, séð ástæðu til að minnast helfararinnar. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2005, í sérstakri ályktun, að 27. janúar ár hvert skyldi vera alþjóðlegur minningardagur um helförina. Nokkrar þjóðir, Þýskaland og Bretland og fleiri, höfðu þó fyrir þann tíma minnst hennar árlega. Ályktun allsherjarþingsins hvetur allar aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna til að minnast helfararinnar sérstaklega. Auk þess er lögð áhersla á að fræða alla um þessa skelfilegu atburði í þeirri viðleitni að þeir muni aldrei endurtaka sig.

Gyðingaandúð fer vaxandi í heiminum og er það áhyggjuefni. Árásir á gyðinga tvöfölduðust í Bandaríkjunum á milli áranna 2017 og 2018. Sérstaklega vex þó gyðingahatur á meginlandi Evrópu þar sem sama vandamál varð til þess að reynt var að útrýma gyðingum fyrir 75 árum. Síðastliðin þrjú ár hafa verið hvert öðru verra í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi þar sem gyðingar hafa nýlega verið varaðir við því að bera kollhúfur á almannafæri vegna hættu á árásum. Gyðingaandúð fær nú byr undir báða vængi, annars vegar frá kynþáttahyggjumönnum á öfgahægri vængnum og hins vegar þeim sem andæfa Ísrael.

Milljónum innflytjenda frá múslimalöndum sem setjast nú að í Evrópu hefur verið innrætt djúpstætt hatur á Ísrael og gyðingum. Gyðingar í mörgum Evrópulöndum segjast um langt skeið hafa fundið fyrir vaxandi andúð í sinn garð. Þessi andúð birtist með ýmsu móti. Veist er að þeim á götum úti og hróp eru gerð að þeim, hnýtt í þá í verslunum, þeir fá í auknum mæli alls konar hótanir á netinu, það er harðari tónn en áður hefur sést í greinum, birtist í fjölmiðlum og í umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi.

Könnun var gerð í Evrópu meðal þúsunda gyðinga fyrir ekki svo löngu síðan þar sem 89% þeirra sögðust hafa orðið varir við vaxandi andúð á síðastliðnum fimm árum og kváðust 38% þeirra íhuga flytjast á brott þar sem þeim fannst þeir ekki lengur vera öruggir. Niðurstöðurnar ættu ekki að koma á óvart. Baráttunni gegn gyðingahatri er lýst sem baráttu sem Evrópa hefur ekki efni á að tapa. Gyðingaandúð er andstæða þess sem Frakkland stendur fyrir, er haft eftir forseta Frakklands, Emmanuel Macron, í febrúar síðastliðnum er hann heimsótti grafreit gyðinga. Þar höfðu hakakrossar verið krotaðir á 80 leiði. Það eru mörg dæmi þess að grafreitir gyðingar séu vanhelgaðir í Evrópu. Gyðingasamfélagið í Hollandi segir að gyðingahatur aukist frá ári til árs og gyðingar í Evrópu upplifi óöryggi, þeir verði fyrir hrópum og köllum og þeir hafi einnig orðið fyrir árásum vegna uppruna síns. Hollensk stjórnvöld segja að árásir á gyðinga hafi aukist mjög og í flestum tilfellum séu það nýbúar úr röðum múslima sem standi að baki eineltinu gegn gyðingum. Börn gyðinga séu lögð í einelti, ráðist sé á fólk, krotað sé á bænahús gyðinga og bensínsprengjum kastað að þeim. Stjórnmálaforingjar í Evrópu hafa jafnvel látið gyðingahatur viðgangast innan sinna raða og sinna stjórnmálaflokka. Þekktasta dæmið í þeim efnum er að finna í breska Verkamannaflokknum þar sem Jeremy Corbyn var vikið úr flokknum vegna málsins.

Fordómar gegn gyðingum mátti ekki síður finna á Íslandi fyrr á tímum. Þór Whitehead sagnfræðingur telur að íslensk stjórnvöld hafi á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar fylgt stefnu Dana leynt og ljóst um að hleypa ekki gyðingum til landsins. Íslendingar höfðu þó mikla samúð með gyðingum eftir síðari heimsstyrjöldina og Ísland gegndi mikilvægu hlutverki í stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þess er minnst með táknrænum hætti í Ísrael og ísraelska þjóðin hefur ekki gleymt því, það þekki ég af eigin raun. Samskipti Íslands og Ísraels voru lengi vel mikil en hafa minnkað verulega á liðnum árum, einkum vegna hernáms Ísraels í Palestínu sem við fordæmum. Ég fullyrði þó hér að Ísraelsmenn bera mikla virðingu fyrir Íslandi og líta á okkur sem vinaþjóð. Þess má geta hér að ég sótti eitt sinn minningardag um helförina í Ísrael. Þar er að finna mjög áhrifamikið safn um helförina. Safnið telur margar byggingar og lætur engan ósnortinn og er þá vægt til orða tekið. Ég hvet alla sem sækja Ísrael heim til að skoða helfararsafnið í Jerúsalem.

Frú forseti. Sífellt færri vita hvað helförin er og um hvað hún snerist. Það er ekki síst vegna þess sem nauðsynlegt er að minnast hennar. Samkvæmt könnun sem dagblaðið New York Times gerði árið 2018 vita 66% Bandaríkjamanna á aldrinum 18–34 ára ekkert um Auschwitz og ekki að þar hafi verið útrýmingarbúðir. Alls vissu 41% Bandaríkjamanna ekki hvað Auschwitz er. Um 400.000 manns sem lifðu af helför nasista eru enn lifandi. Flestir eru á níræðis- og tíræðisaldri. Um er að ræða gyðinga, samkynhneigða, votta Jehóva, sígauna, kommúnista og aðra sem nasistar töldu að ekki ættu rétt á að lifa. Þar af eru rúmlega 189.000 gyðingar sem lifðu helförina af búsettir í Ísrael.

Því lengra sem líður frá atburðunum, nú eru meira en 70 ár liðin, því minni áhersla er á að fólk viti um þessa hræðilegu atburði, læri um þá og ræði. Ég vil segja að það er mikið og nauðsynlegt verkefni okkar að sjá til þess að þessir atburðir gleymist ekki. Við verðum að tryggja að komandi kynslóðir Íslendinga þekki þessa sögu. Við verðum að læra af henni, geta sett hana í samhengi við styrjaldarátök í heiminum sem eiga sér stað á hverjum degi og vaxandi hatursglæpi. Við verðum að tryggja að allir viti að mannréttindi eru grundvallarréttindi hverrar manneskju. Þessi skelfilegi atburður í mannkynssögunni sem helförin er má aldrei gleymast. Hann er ekki svo langt frá okkur í tíma og við eigum að minnast hans með sérstökum hætti eins og aðrar þjóðir.