151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:59]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er vissulega svartur föstudagur þegar vangeta ríkisstjórnarinnar til að landa eðlilegum kjarasamningum við flugvirkja Landhelgisgæslunnar býr til þá stöðu að við erum sett á milli steins og sleggju og þurfum að velja milli þess að virða löglegan verkfallsrétt flugvirkja og þess að gæta öryggis landsmanna. Það er þess virði að spyrja sig hvernig hefði verið hægt að afstýra þessu ástandi. Auðvitað eru samningar augljósa svarið. Það hefur legið fyrir í ansi langan tíma hvað hefur verið til viðræðna, hvað þessi deila snýst um, en einhverra hluta vegna strandar þetta eiginlega á síðasta augnablikinu og að því er virðist, af fjölmiðlaumfjöllun að dæma, á því hvort eigi að ganga frá bráðabirgðasamningi til eins árs eða þriggja ára. Ég hefði haldið að báðum aðilum væri gagn af því að mætast á miðri leið. En gott og vel, ég er svo sem ekki í samninganefndum og veit svo sem ekki allt um hvað fór þar á milli.

Einhverra hluta vegna erum við þó komin í þetta ástand og mig grunar að þetta sé bara einn liðurinn í áralöngum vanvilja ríkisstjórna á Íslandi til þess að tryggja að Landhelgisgæslan sé í góðu ástandi. Höfum í huga að þetta er ekki eitthvað sem er nýtt af nálinni. Eins og var nefnt hér áðan voru lög í gildi sem bönnuðu flugvirkjum í þessu hlutverki að fara í verkfall, lög frá 1968 sem voru afnumin 2006. Á þeim tíma, 2006, samþykktu þrír núverandi þingmenn og ráðherrar að þau væru afnumin, m.a. hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, og hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, þó sátu núverandi hæstv. forseti og hv. þm. Jón Gunnarsson hjá í þeirri afgreiðslu. Ég náði ekki að fara ofan í saumana á því hvers vegna en mér finnst þetta mikilvægur punktur í samhenginu.

Mér finnst líka mikilvægt að við horfum aðeins á samhengið sem snýr að starfinu hjá þessum mönnum. Ástandið í Landhelgisgæslunni hefur verið mjög slæmt mjög lengi, rosalega mikið álag, mikil starfsmannavelta og allt of lítið af flugvirkjum, að mér skilst. Auk þess er búið að taka í notkun nýjar þyrlur af tegundinni Airbus H225 sem hafa, að mér skilst, u.þ.b. tvöfalda viðhaldsþörf á við eldri þyrlur, að hluta til vegna þess að þær eru nýrri og flóknari og hafa miklu meiri búnað og eru auk þess stærri en að hluta til vegna þess að þessar þyrlur eru þekktar sem ákveðnir gallagripir. Gírkassavandamál ollu alvarlegum flugslysum í Noregi og Suður-Kóreu og lýsa sér í því að þyrluspaðar eiga það til að slitna frá í flugi sem er mjög óheppilegur eiginleiki fyrir þyrlu, verð ég að segja. Það veldur því að það þarf að sinna miklu ríkara viðhaldi á þessum þyrlum en þyrlum almennt og þessar þyrlur voru leigðar. Ég veit ekki hvers vegna þær voru valdar, kannski vegna þess að enginn annar í heiminum vill nota þær, með einhverjum örfáum undantekningum, yfirleitt vegna svipaðra skilyrða, að það var ódýrt. Ofan á það verður að segjast að þegar talað er um þyrluna TF-LÍF verðum við að átta okkur á því að hún situr í bútum í augnablikinu. Hún er ekki nothæf og verður líklega aldrei notuð aftur á Íslandi.

Það hefur vantað milljarða í rekstur Landhelgisgæslunnar í mörg ár. Verið er að leigja út TF-SIF í aukaverkefni til að reyna að fjármagna önnur verkefni og jafnvel þá er ekki nægt fjármagn til að halda öllu gangandi sem þarf að vera í gangi. Í þessum kringumstæðum er ætlast til þess að flugvirkjar Landhelgisgæslunnar haldi úti þyrluþjónustu til björgunar 24 tíma sólarhrings, 365 daga á ári en mest af viðhaldsþjónustunni fer fram á dagvinnutíma. Þegar við tökum frá hádegishlé og matartíma og annað hljóðar það upp á kannski 5–6 klukkutíma á dag, virka daga. Allt annað viðhald, sem bætist við vegna þess að þessar þyrlur eru stærri og flóknari o.s.frv., og auk þess gallagripir, er eitthvað sem þarf að sinna einhvern tímann á þessum vöktum sem deilan snýst kannski fyrst og fremst um. Talað er um uppsafnaða viðhaldsþörf upp á eina eða tvær vikur. Ég er ekkert hissa. Ég er ekkert hissa á því að þetta skuli vera kringumstæðurnar þegar Landhelgisgæslan er viðstöðulaust vanfjármögnuð á þennan alvarlega og hættulega hátt og álaginu bara velt yfir á flugvirkjana.

Síðan kemur upp þessi spurning: Eiga viðbragðsaðilar, neyðarviðbragðsaðilar, þeir sem sinna mikilvægri öryggisþjónustu fyrir landsbyggðina og landsmenn alla, að hafa verkfallsrétt? Sumir vilja meina að svo sé ekki. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ef allir, þar á meðal lögregla og flugmenn hjá Gæslunni o.s.frv., hefðu verkfallsrétt væri kannski miklu auðveldara fyrir þá að ná samningum. Þá væri ekki þessi staða sem kemur upp trekk í trekk að þeim er stillt upp við vegg eins og hjúkrunarfræðingum var stillt upp við vegg fyrir ekki svo löngu. Þá er alltaf viðkvæðið: Þið eruð svo mikilvæg að þið þurfið að fórna ykkur en þið eru ekki nógu mikilvæg til að við semjum við ykkur. Það er einhvern veginn svo léleg pólitík og svo léleg nálgun á reksturinn vegna þess að þá verður ekki bara uppsöfnuð viðhaldsþörf á þyrlunum heldur líka á starfsumhverfinu vegna þess að enginn vinnur undir svona viðstöðulausu og síauknu álagi til langs tíma án þess að eitthvað fari að brotna. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það er þegar álagið og óánægjan sem er til staðar í þessu umhverfi verður síðan að auki að pólitísku bitbeini hér inni og leysist með því að fólki sé skipað að mæta til vinnu án þess að gerður sé nýr samningur og það verður bara að gjöra svo vel að vinna vinnuna sína. Það er ekki góð leið til að leysa þennan vanda. Ég hef áhyggjur af þessu ástandi og ég hef reyndar haft áhyggjur af því mjög lengi. En einhvern veginn er viðkvæðið að það sé svo mikilvægt að tryggja öryggi en það er ekki það mikilvægt að það megi tryggja að fólki líði vel í vinnunni. Það megi ekki gera það þannig að þar sé réttur fjöldi fólks með rétta sérhæfingu, nógu mikið af fjármagni til að sinna viðhaldinu, og það þurfi ekki auk þess að fara betlandi út um allan heim eftir verkefnum til að fjármagna þá vinnu sem er lögboðin. Í alvöru, herra forseti, ég skil ekki þessa nálgun.

Við erum einhvern veginn komin í þennan vanda. Búið er að setja okkur milli steins og sleggju: Öryggi landsmanna annars vegar og starfsskilyrði og verkfallsréttur flugvirkja hins vegar. Auðvitað myndi ég vilja segja nei við þessu og ég kem líklegast til með að gera það nema ég heyri afskaplega góð rök fyrir því að þetta sé rétta leiðin. En ég hef ekki heyrt þau. Ég hef ekki einu sinni heyrt neitt sem bendir til þess að þetta geti verið rétt leið. Rétta hugsunin í þessu verður auðvitað að vera sú að leysa úr deilum. Það er að einhverju leyti kjaramál, að einhverju leyti eitthvað sem er leyst með kjarasamningum en til lengri tíma litið þurfum við líka að fara að skoða það hvernig Landhelgisgæslan er notuð og höfum í huga að hún er ekki alltaf notuð vel. Horfum bara á staðreyndirnar. Talað er um að þyrlurnar séu ekki alveg í nothæfu ástandi sem stendur. Það kemur margoft fyrir. Oft er engin þyrla til taks vegna þess að búið er að nota þær of mikið, þær eru allar komnar á viðhaldstíma og stundum vegna verkefna sem voru kannski ekki björgun, voru kannski ekki nauðsynleg, stundum var það að skutla fólki. Við vitum öll um þessi dæmi. Við höfum séð þau í fjölmiðlum, meira að segja á þessu ári, og ég er ekki viss um að það sé endilega jákvætt. Það er svo komið að við þurfum líka að fara að íhuga hvort ekki sé kominn tími á stjórnsýsluúttekt á rekstri Landhelgisgæslunnar, ekki að þar sé endilega eitthvað að, en ég er ekki viss um að allt sé með felldu í ljósi þess að þessi viðstöðulausa vanfjármögnun hefur átt sér stað þetta lengi og að auki sjáum við starfsmannaveltuna, t.d. er núna, held ég, í þriðja skipti á tveimur árum verið að auglýsa eftir öryggis- og gæðastjóra. Það hljómar ekki mjög vel.

Ég vildi bara setja þetta samhengi fram vegna þess að það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða ástand er þarna inni og hvers vegna þessi kjaradeila er kannski til komin af fleiru en bara launakröfum og tengdum efnum. Eflaust eru einhverjar eðlilegar ástæður hluti af því hvers vegna ríkið vill ekki alveg ganga að öllu og þá á bara að leysa það, til þess eru samninganefndir, en það að við séum sett í þessa stöðu einhvern veginn aftur og aftur, að fólk sé ekki talið nógu mikilvægt til þess að hægt sé að semja við það almennilega heldur sé bara lögum skellt á það í staðinn, er ljót pólitík. Þetta er leiðinleg og ankannaleg staða og við eigum ekki að samþykkja svona lagað. Við eigum að gera þetta vel. Við eigum að fjármagna Landhelgisgæsluna vel. Við eigum að tryggja að fólk hafi verkfallsrétt og samningsrétt og geti samið vel og eigum ekki að vera sett í þessa stöðu, sér í lagi ekki á svona degi.