151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:12]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að fólk á Íslandi hafi ákveðið félagafrelsi og í því félagafrelsi felst m.a. réttur til að skipuleggja sína verkalýðsbaráttu á þann hátt sem fólki sýnist. Hvort það er eðlilegt að þessi tiltekni hópur ríkisstarfsmanna sé með samninga bundna öðrum eða ekki er í rauninni ekki mitt að segja, ég held ekki einu sinni þingsins. Þetta er í öllu falli staðan sem við höfum í dag og á meðan svo er er kannski eðlilegt að mæta fólki á eðlilegum forsendum, á þeim forsendum sem lagt var upp með. Svo má auðvitað ræða við fólk um það hvort ekki megi breyta tilhöguninni. Kannski er það eitthvað sem má velta fyrir sér.

Hvað eru eðlilegir samningar? Eru það ekki samningar þar sem allir geti verið sáttir við sitt? Eru það ekki samningar sem gerðir eru á jafnræðisgrundvelli með því að deiluaðilar setjist við borð, ræði sín á milli og finni út úr vandamálinu? Ég treysti því alveg að það hafi verið gert, að gerðar hafi verið tilraunir til þess alveg þar til í gærkvöldi, ef ég hef ekki misskilið það. En greinilega var það ekki nóg, einhvers staðar stoppaði þetta. Einhverjir hafa verið að kvarta yfir því að flugvirkjar hafi rosalega góð kjör eins og er. En ég veit ekki, þegar fólk er boðað í útköll og leggur líf sitt í hættu er kannski erfitt að ræða um hvað séu góð kjör. Í öllu falli stóð eitthvað út af, ríkið hefði hugsanlega getað verið sveigjanlegra, kannski hefðu flugvirkjar líka geta verið sveigjanlegri. Í öllu falli hefði átt að leysa þetta. Það er í rauninni bara kjarni málsins.