151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[16:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Bara svo það sé alveg skýrt þá var það ekki ég sem fór að ræða um kaup og kjör hjúkrunarfræðinga og flugvirkja Landhelgisgæslunnar. (Gripið fram í.) Fólk á rétt á að semja um kaup sitt og kjör og mér finnst mjög slæmt að Alþingi ætli að grípa fram fyrir þann rétt. Ég hef sagt það í hvert einasta skipti sem þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að setja lög á réttindi fólks til að semja. (Gripið fram í.) — Kannski ekki þennan hóp. En það hefur verið gert. (Gripið fram í.) Við verðum að horfa á staðreyndirnar. Staðreyndirnar eru að fólk hefur þennan rétt til semja. Hjúkrunarfræðingar eru kannski hópur sem erfitt er að tala um núna vegna þess að þeir hafa haldið lífinu í mörgum hér á landi og gera það reyndar alltaf, en sérstaklega í gegnum þennan heimsfaraldur. Samt voru þeir í raun skikkaðir til og þurftu að sætta sig við að vera ekki með góðan samning heldur bara einhvern dóm.

Ég held að það sé eitthvað að í allri kjaraumræðu á Íslandi fyrst við lendum í þessu trekk í trekk. Ég átta mig ekki á því á hvaða vegferð við erum ef við þurfum að koma hingað saman á föstudegi á neyðarþingfundi, svo að segja, til að taka af fólki samningsrétt þess. Mér finnst það ljótt.