151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í raun að leggja það til að þetta myndi þá gilda um öll fyrirtæki í þetta eina ár. Það kann að vera heldur glæfraleg tillaga. Nú höfum við gengið í gegnum heilt ár þar sem hagkerfið hefur fengið á sig mjög þungt högg og við vitum líka að tilgangur skatta er fyrst og fremst að regla verðbólgu en ekki að fjármagna ríkið. Ríkið er fullfært um að búa til þá peninga sem það þarf með skuldabréfaútgáfu og öðru. Þar sem hagkerfið er á þessum erfiðu tímum gæti þetta kannski verið aðferð til þess að auka viðspyrnukraftinn. Ég hefði viljað að þetta hefði verið meira til umræðu á fyrri stigum. Tryggingagjaldið er flókinn skattur, bæði vegna þess hvernig það er uppbyggt og hvernig það er nýtt í praxís. En ef einhvern tímann er tilefni til að endurskoða þennan skatt eins og hann stendur í dag þá held ég að það sé núna í ljósi aðstæðna í hagkerfinu. Það sem ég var að leggja til var að það mætti hreinlega láta þetta gilda um öll fyrirtæki út þetta eina ár.

Að mínu mati er líka tilefni til að taka skattkerfið í heild sinni til að endurskoðunar, ekki með það í huga endilega að leggja það niður eða neitt þannig heldur hreinlega skoða það. Fyrir hverja er skattkerfið eins og það er í dag? Hagsmunum hverra er það að þjóna?