151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[17:51]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt munað hjá þingmanni að þau gáfu ekki mikið fyrir lækkun á áfengisgjaldi, það er alveg rétt. Þetta er vissulega hugmynd sem kemur að jafnaði frá stjórnmálamönnum, en munum líka að hugmyndin um áfengisgjald kom líka frá stjórnmálamönnum og enginn í rauninni bað um hana. Ef maður hugsar út í það þá er áfengisgjald ákveðin birtingarmynd íhaldssamrar bannmenningar og er ein aðferð sem er notuð til þess að reyna að stjórna fólki og stýra því og breyta hegðun. Ég held að slík gjöld séu ekki endilega jákvæð í samfélagi eins og okkar sem vill kenna sig við að vera opið lýðræðissamfélag þar sem fólki er frjálst að taka eigin ákvarðanir. Þetta er alla vega eitt af þeim gjöldum og mér finnst ekki að það eigi að reyna að stýra fólki með þessum hætti. Mér finnst það óheppilegt. En það er rétt að það eru aðrar aðgerðir sem myndu gagnast veitingageiranum mun meira og við ættum auðvitað að horfa til þeirra. Ég held að t.d. tillagan um að lækka tryggingagjaldið væri gott innlegg í það. En svo aftur, eins og ég nefndi í ræðunni, þá hafa almennu gjaldskrárhækkanirnar sem ganga þvert yfir auðvitað áhrif á hluti eins og t.d. vínveitingaleyfi, útgáfu heimilda og ýmiss konar þjónustuafgreiðslu, t.d. heilbrigðiseftirlits og þess háttar. Þó að það komi ekki alltaf nákvæmlega fram í þessu frumvarpi er þetta birtingarmynd af tilhneigingu til að fjármagna ríkið meira og meira með þessum hætti.