151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[18:10]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er þannig spurning að helst þyrfti eina eða tvær ræður til að fara yfir þær. En það mætti t.d. nefna, sem var mjög jákvætt, að í gær tilkynnti Reykjavíkurborg um miklar aðgerðir sem snúa m.a. að öðrum samgönguvalkostum, hjólahraðbrautum og hjólaleiðum út um alla borgina og annað í þá veruna. Það eru jákvæðar leiðir til að reyna að búa til aðra valkosti frekar en að vera stöðugt mengandi. Það er kannski líka út af þessu sem ég tel að hugmyndin um virðisaukaskattsafslátt fyrir rafskutlur væri af hinu góða. Það myndi hreinlega bætast við þetta. Málið er öll úthrifin sem við höfum ekki verið látin borga fyrir munu að endingu kosta samfélög manna úti um allan heim. Ef við tökum ekki fast á þeim (Forseti hringir.) og bregðumst við munu þessi gjöld lenda á okkur öllum. Þetta er ekki kostnaður sem hægt að forðast, þetta er kostnaður þar sem eingöngu er hægt að rífast um það hver muni borga þegar upp er staðið.