151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[19:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir athugasemdum mínum við þetta mál sem hefur verið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég ákvað að gera það munnlega í ræðu fremur en skriflega, enda er þetta fyrsta málið af a.m.k. þremur sem ganga undir nafninu bandormurinn. Við erum með bandorm eitt, sem við ræðum hér, erum byrjuð að fjalla um bandorm tvö og svo er a.m.k. von á bandormi þrjú. Ég vona að þetta verði ekki eins og með kvikmyndirnar, að númer 1 sé yfirleitt best, heldur muni þessi mál smátt og smátt batna eftir því sem á líður. Meiri hluti nefndarinnar leggur fram nokkrar breytingartillögur og er ástæða til að fagna þeim flestum, ef ekki öllum. Undir forystu hv. þm. Óla Björns Kárasonar hafa verið gerðar lagfæringar á þeim atriðum sem snúa að viðbrögðum við Covid-faraldrinum. Einu sinni sem oftar hefur þurft að gera slíkar lagfæringar í nefnd og nefndin hefur undir forystu formannsins gert ýmsar lagfæringar sem eru til bóta.

Það er þó óhjákvæmilegt að gagnrýna þetta frumvarp vegna megininntaks þess. Það snýst fyrst og fremst um áframhaldandi skatta- og gjaldahækkanir á almenning og það í þessu faraldursástandi. Ég átti satt best að segja ekki von á að stjórnvöld myndu leggja það til við þessar aðstæður en þar halda þau sínu striki og leggja í raun línurnar fyrir nýtt ár með því að ríkið ríði á vaðið og byrji nýja árið, strax 1. janúar, með því að hækka gjöld og aðrar álögur á almenning. Þetta er stefna sem við ákváðum að hverfa frá á sínum tíma, fyrir sex, sjö árum, og töldum mikilvægt að ríkið hefði ekki forystu um að ýta undir verðhækkanir og verðbólgu á nýju ári og þar með auðvitað hækkanir á verðtryggðum lánum heimila og fyrirtækja. Við fórum af stað með það sem átti að verða nýja stefnan áramótin 2014/2015. En það, eins og svo margt annað, hefur aftur fallið í sama gamla farið eftir að kerfið tók völdin á ný.

Þess vegna horfum við fram á það núna að ríkisstjórnin ætlar að hækka hin ýmsu gjöld á almenning og fyrirtæki í landinu, jafnvel í ástandi þar sem fólk á mjög í vök að verjast vegna áhrifa heimsfaraldurs. Þetta gerist í landi sem er með einhverja hæstu skatta í heimi. Gleymum því ekki í þessu samhengi að skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi ef við tökum greiðslur í lífeyrissjóði með, sem er eðlilegt því að víðast hvar eru þær hluti af skattlagningu almennings. Þegar þær greiðslur eru teknar með er skattlagning á Íslandi með því sem gerist allra mest í heimi. Þrátt fyrir það halda stjórnvöld áfram að finna upp ný gjöld, nýjar álögur og í anda ímyndarstjórnmála samtímans, merkimiðastjórnmálanna, stimplastjórnmálanna, eða hvað menn vilja kalla þetta, eru þessum nýju gjöldum jafnan gefin nöfn sem eru til þess ætluð að láta þau hljóma vel. Það er látið hljóma eins og nánast greiði við skattgreiðendur að þessar nýju álögur séu lagðar á þá og eru kallaðar græn gjöld. Eitt af þessum grænu gjöldum er kolefnisskatturinn svokallaði sem hækkar nú eina ferðina enn. Það er í raun í eðli sínu nokkurs konar nefskattur því að allir þurfa að komast leiðar sinnar og allir, óháð tekjum, þurfa að nýta orku. Því bitnar þetta verst á tekjulægri hópum eins og bent er á í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem þingmenn hafa nefnt hér fyrr í umræðunni. Ég tek undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni sem talaði hér á undan mér, það er ástæða fyrir alla þingmenn að kynna sér efni þessarar skýrslu.

En hver eru áhrifin? Hver hafa áhrifin orðið af þessum hækkunum? Skýrslan gefur okkur sannarlega vísbendingar um það, ekki bara með hliðsjón af aðstæðum á Íslandi heldur í öðrum löndum líka. Áhrifin hafa verið lítil sem engin og jafnvel þar sem slíkir skattar hafa ekki verið lagðir á, eins og bent var á í ræðu á undan minni, hafa áhrifin verið meiri heldur en á þeim stöðum þar sem menn eru skattpíndir, enda sjáum við það í hendi okkar að í hvert sinn sem einhver órói er í Miðausturlöndum og bensín- eða olíuverð hækkar þá keyrir fólk ekkert minna. Það þarf einfaldlega að borga meira fyrir að komast leiðar sinnar. Hér eru stjórnvöld að leggja á enn eitt gjaldið og hækka það á fólk sem þarf að komast leiðar sinnar. Gjöldin eru nú mörg fyrir, sérstök og almenn gjöld, og mætti rekja það í löngu máli en áfram er bætt við og fundin upp ný gjöld. Þess vegna er það fagnaðarefni að hv. þm. Birgir Þórarinsson leggi fram breytingartillögur hvað varðar kolefnisgjaldið. Þetta er mjög hófleg tillaga hjá hv. þingmanni og ástæða til að styðja hana. Ég vona að þingmenn geri það sem flestir, helst allir, því að við þessar aðstæður eru auknar álögur og áframhaldandi hækkanir á nýuppfundnum sköttum það síðasta sem almenningur á Íslandi þarf á að halda.

Kolefnisgjaldið er líka skattur sem leggst sérstaklega á landsbyggðina. Það kom aðeins til umræðu hér áðan að það leggst á landsbyggðina umfram höfuðborgarsvæðið, ekki hvað síst vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu geta menn farið leiðar sinnar á litlum bílum, jafnvel á rafmagnsbílum, í stuttar ferðir. Íbúar á landsbyggðinni þurfa hins vegar jafnan að fara lengri ferðir og á áreiðanlegum bílum sem koma þeim í gegnum skafla og erfið veður oft og tíðum, fram og til baka. Þetta er í raun einn af þessum landsbyggðarsköttum sem við höfum séð bætast við, einn af öðrum, síðustu misseri og þetta er auðvitað neyslustýring. Og það viðurkennir ríkisstjórnin meira að segja. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins viðurkenna að þetta sé neyslustýring, sem er nokkuð sem menn þar á bæ töldu óviðeigandi, svo að ég taki ekki dýpra í árinni, hér áður fyrr. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, bætti því svo við hér í umræðunni að þetta væri neyslustýring sem væri til þess fallin að vernda innlenda framleiðslu og auka eftirspurn eftir innlendri orku á kostnað erlendrar orku. Það er áhugavert að heyra þá nálgun og vonandi, ef sú er raunin að ríkisstjórnin telji slíkt æskilegt, þá munum við t.d. sjá einhverjar breytingar í landbúnaðarmálum og iðnaði til að vernda innlenda framleiðslu á kostnaði erlendrar. Staðan er engu að síður sú að það eru takmörk fyrir því hversu mikið við getum nýtt innlendu orkuna á sumum sviðum enn sem komið er. Við þurfum áfram að reiða okkur á innflutta orku, herra forseti, a.m.k. þangað til við förum að dæla upp olíu og sérstaklega gasi á Drekasvæðinu. Það er áhugavert að ríkisstjórnin skuli hafa lokað fyrir það allt saman. Þar væri mikil lind innlendrar orku sem gæti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með aukinni framleiðslu umhverfisvæns gass. En það er önnur saga.

Enn um sinn þurfum við að reiða okkur að ákveðnu marki á innflutning á orku. Með því fyrirkomulagi sem rekið hefur verið og stöðugt er bætt í er sérstaklega verið að refsa tekjulægri hópum og landsbyggðarfólki með þessari gjaldtöku. Í rauninni má segja að þessir grænu skattar séu til þess fallnir, og við heyrum hv. þingmenn lýsa því opinskátt hver tilgangurinn sé, að færa okkur aftur í þróun samfélagsins, frá því sem var ríkjandi á 20. öld þegar sífellt fleirum, stærri og stærri hópum, fleira fólki, var gefið tækifæri til að njóta þess sem samtíminn og tæknin veitti, til að njóta bættra lífskjara, t.d. tækifæris til að eiga og reka bíl, að komast leiðar sinnar á sínum fjölskyldubíl. Nú er komið bakslag í þetta og það bitnar á þeim tekjulægri sem eiga ekki lengur, samkvæmt þessu, að eiga sama rétt og aðrir á að reka sinn fjölskyldubíl, eignast bifreið og njóta betri lífskjara. Þetta er afleiðing ímyndarstjórnmálanna.

Í Bretlandi er stefnt að því að nettólosun gróðurhúsalofttegunda verði engin árið 2050 og því hefur verið lýst sem einhverri metnaðarfyllstu áætlun heims í þeim efnum. Ríkisstjórnin okkar segir að hún stefni að því að nettólosun verði 0 árið 2040 og má kannski segja að Ísland hafi ákveðið forskot á Bretland hvað þetta varðar. En í fyrra sá þáverandi fjármálaráðherra Bretlands, Philip Hammond, ástæðu til að senda erindi á forsætisráðherrann og ríkisstjórnina til að benda á að ætti þetta markmið að nást, nettólosun 0 fyrir 2050, myndi það kosta breskt samfélag eina billjón punda. Það eru 173.000 milljarðar kr. á núverandi gengi. Ráðherrann benti á að það myndi óhjákvæmilega þýða að ráðast þyrfti í niðurskurð hjá skólum, spítölum, lögreglu og á öðrum þeim sviðum þar sem ríkið er að forgangsraða sínu takmarkaða fjármagni. Þetta er ekki ráðherra sem er sérstaklega andsnúinn aðgerðum í umhverfismálum, þvert á móti er þetta ráðherra sem hafði, að mínu mati a.m.k., tekið fagnandi nálgun ímyndarstjórnmálanna en hann sá samt ástæðu til að benda á þetta og á þá staðreynd að ýmsar starfsgreinar í Bretlandi yrðu ósamkeppnishæfar í framhaldinu, svo sem stóriðja og landbúnaður. Það þyrfti að banna a.m.k. frá 2050 allar samgöngur sem nýttu jarðefnaeldsneyti og svo var áfram talið. Til að setja þessa upphæð í samhengi, virðulegur forseti, er 1 billjón punda slík upphæð að það væri hægt að verja milljón pundum á dag í hin ýmsu verkefni í hátt í 3.000 ár fyrir þá upphæð eða, ef við lítum á tímarammann sem þarna eru lagður til grundvallar, 30 ár, 100 milljónum punda á dag í hin ýmsu samfélagslegu verkefni sem bíða úrlausnar.

Nú kemur það áhugaverðasta af öllu þessu í samhengi við það sem við ræðum hér. Nýverið kom í ljós að Bretar hafa farið langt með að helminga losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 1990. Ég held að hún hafi minnkað um 42%, ef ég man rétt, þ.e. ef við lítum til þeirrar losunar sem er skráð á Bretland. En hvað hefur gerst? Framleiðslan hefur verið flutt annað, flutt til Kína og annarra landa þar sem framleiðslan fer fram með mun óumhverfisvænni hætti en í Bretlandi. Svo bætast við flutningar á stórum svartolíubrennandi skipum til Bretlands. Þegar litið er á neysluna í Bretlandi hefur losunin nánast ekkert minnkað frá 1990, hún hefur bara verið flutt annað.

Er þetta stefnan sem við viljum innleiða hér á Íslandi, að flytja framleiðsluna héðan, þar sem hún fer fram með einhverjum umhverfisvænasta hætti sem völ er á í heiminum, til landa sem nýta kolabruna til að framleiða orkuna og flytja svo dótið aftur til Íslands og auka með því losun gróðurhúsalofttegunda? Þó að stjórnvöld geti svo hrósað sér af því í einhverjum skýrslum að hafa minnkað losunina sem er skráð á Ísland hefur framleiðslan einfaldlega, hvort sem það er landbúnaður, stóriðja eða annað, verið flutt til annarra landa þar sem hún losar meira af gróðurhúsalofttegundum. Þetta er það sem má lesa út úr stefnu núverandi ríkisstjórnar, að refsa fólki og fyrirtækjum fyrir að nýta orku hér innan lands til samgangna eða til að framleiða varning og þar með að draga úr framleiðslunni hér og fækka störfum — það fylgir því óhjákvæmilega — og flytja þessi störf og þessa framleiðslu til annarra landa þar sem losunin er meiri.

Og af því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir spurði hér áðan hver stefna Miðflokksins í þessum málum væri hvet ég hv. þingmann til að horfa á ræðu mína á fyrsta landsþingi Miðflokksins sem snerist nánast eingöngu um umhverfismál og losun gróðurhúsalofttegunda sérstaklega. Þar benti ég á betri leiðir til að ná árangri á þessu sviði, leiðir sem byggja á vísindum, þekkingu og almennri skynsemi, sem því miður oft er allt of lítið af á þessu einu helsta sviði ímyndarstjórnmálanna. Bretar gætu hæglega ákveðið að gróðursetja billjón tré, reyndar miklu meira — það kostar minna en eitt pund að gróðursetja tré — ef þeir fyndu pláss fyrir þau. Þeir gætu gróðursett milljón tré og náð margfalt meiri árangri í umhverfismálum heldur en með þeirri stefnu sem felst í því að draga úr framleiðslu og fækka störfum í heimalandinu.

Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson spurði eftir að hafa hlýtt á ræður þingmanna Miðflokksins: Er losun æskileg? Losun koltvísýrings er ekki bara æskileg, hún er nauðsynleg. Hún er nauðsynleg fyrir líf á jörðinni. Hún er jafn nauðsynleg fyrir trén og plönturnar eins og hangikjötið er fyrir mig á jólunum, jafnvel enn nauðsynlegri. En það þarf að stilla þetta af, það þarf að ná jafnvægi og við náum ekki jafnvægi nema með því að leyfa okkur að nálgast málið út frá skynsemi og staðreyndum fremur en ímyndarpólitík samtímans.

Af því að ég á fáeinar sekúndur eftir, herra forseti, þá vil ég aðeins nefna það sem nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á hér fyrr í umræðunni, þ.e. um kirkjuna. Mér virðist blasa við að sérstakt átak þurfi til að gera þjóðkirkjunni kleift að vernda og gera við kirkjubyggingar vítt og breitt um landið og að sóknargjaldið muni ekki leysa það mál. Þar liggja mikil menningarverðmæti undir skemmdum.

Ég tek einnig undir með þeim sem hafa bent á að nauðsynlegt sé að huga að ósanngjörnustu sköttunum, þ.e. tvísköttun, jafnvel margfaldri sköttun, sem birtist víða. Nefndin hefur að einhverju leyti rætt þau mál og vill þoka þeim, held ég flestir þar, í rétta átt. Þar þarf miklu meira til að koma.

Eftir afgreiðslu bandorms eitt bíða a.m.k. bandormur tvö og þrjú. Ég vil nota tækifærið til að lýsa yfir þeirri von minni að þar gefist tækifæri til að koma til móts við fleiri hópa, taka á fleiri vandamálum sem enn eru óleyst vegna faraldursins og þeirra sérstöku efnahagslegu aðstæðna sem hann hefur skapað. Ég vonast til að nefndin muni beita sér í þeim efnum og laga og bæta við það sem ríkisstjórnin hefur skilað okkur í þeim efnum.