151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[20:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021. Umræðan hefur verið mjög góð. Það er ýmislegt við þessi lög að athuga. Byrjum á erfðafjárskatti. Í frumvarpinu er lagt til að skattfrelsismörk erfðafjárskatts hækki úr 1,5 millj. kr. í 5 millj. kr. Það væri ekki slæmt að eitthvað yrði dregið úr þessum dauðaskatti, eins og hann hefur verið kallaður, þar sem verið er að skattleggja peninga sem búið er að skattleggja áður. Það að hann fari úr 1,5 milljónum yfir í 5 milljónir þýðir eiginlega á mannamáli að þeir sem eru á launamarkaði, og eru á engan hátt tengdir lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins, njóta þess að fá þetta. En eins og staðan er í dag er þetta því miður ekki í boði fyrir þá sem fá lífeyrisgreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það er auðvitað algerlega fáránlegt að við skulum enn vera með svo ömurlegar reglur í þjóðfélagi okkar að þeir sem mest þurfa á aukapeningum að halda séu þeir síðustu sem fái hann. Það er hreinlega alltaf verið að girða fyrir möguleika þeirra á að fá eitthvað út úr kerfinu annað en eymd og skilaboð um að herða sultarólina.

Ég skil ekki í hvaða skerðingarþoku ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur villst. Maður heldur alltaf að menn hafi villst inn í þessa skerðingarþoku, en ég er orðinn sannfærður um að það gerðu menn ekki. Þeir fóru vísvitandi og viljandi þarna inn og síðan létu þeir meiri og meiri þoku umlykja sig þannig að þeir sáu ekki handa sinna skil og geta þar af leiðandi afsakað það að koma svona fram við eldri borgara og veikt fólk. Það er líka alveg með ólíkindum í þessu samhengi að þessar gífurlegu skerðingar hjá Tryggingastofnun ríkisins eru allt að 45% hjá eldri borgurum og 38% hjá öryrkjum, plús skattur yfirleitt. En þarna erum við að tala um skattfrelsismörk. Það er eiginlega með ólíkindum að þeir sem eru á lífeyri frá Tryggingastofnun séu ekki þar inni og gætu nýtt sér slíka fjármuni. Við getum varla ímyndað okkur hversu óbilgjarnt, mannfjandsamlegt og ofbeldisfullt þetta kerfi er. Ef einhver vildi styrkja öryrkja sem ætti ekki til hnífs og skeiðar, væri það illa staddur að hann gæti ekki lifað mánuðinn af, og einhver myndi vilja styrkja hann og hugsa: Ég ætla að hjálpa þessum einstaklingi, ég ætla að gefa honum 100.000 kr. á mánuði út árið. En það má ekki. Það yrði a.m.k. að gera það ólöglega, láta viðkomandi fá pening, ekki opinberlega, svo að það kæmi ekki fram í skattskýrslu eða með því að millifæra það inn á reikning hans á annan hátt. Þær upphæðir myndu skerða það sem viðkomandi á rétt á frá Tryggingastofnun.

Það er eins og þetta kerfi sé byggt á fjárhagslegu ofbeldi. Ég næ því ekki hvers vegna í ósköpunum við erum búin að byggja svona kerfi upp og ekki bara það heldur að við höfum verið að viðhalda því og bæta við það og gera það enn ómanneskjulegra en það er. Það er alveg rannsóknarefni út af fyrir sig.

Ýmislegt er við þetta kerfi að athuga. Hér er verið að hækka sóknargjöld úr 980 kr. hjá 20 ára og eldri upp í 1.080 kr., það er sett hér inn. En á sama tíma og verið er að gera þetta, sem er það merkilegasta í þessu öllu saman, er verið að halda óbreyttu frítekjumarki öryrkja, sem er 109.000 kr. á mánuði. Þetta frítekjumark hefur verið óbreytt svo árum skiptir. Það er búið að sýna fram á að ef þetta frítekjumark yrði uppfært í dag væri það ekki undir 200.000 kr. En á sama tíma þegar maður horfir yfir þetta er verið er að hækka gjöld hér og þar. Það er meira að segja verið að hækka gjald til Ríkisútvarpsins úr 17.900 kr. í 18.300 kr. En það er tekið sérstaklega fram og segir orðrétt í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði óbreytt á árinu 2021. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði.“

Þetta er óskiljanlegt fyrirbrigði og ríkisstjórninni til háborinnar skammar að geta ekki einu sinni lyft þessum einstaklingum sem eru að reyna að vinna. Ef þetta væri rétt þá væru þessir einstaklingar að fá 100.000 kr. meira og þá myndu þeir borga skatta af því. En þegar búið er að skatta og skerða þetta þá eru þetta engir fjármunir, þá er þetta bara kostnaður. Það gleymist alltaf að taka inn í að þeir sem eru að reyna að vinna, það fylgir því kostnaður að komast í og úr vinnu. Við verðum að hætta þessu ofbeldi. Gerum okkur grein fyrir því að það er eins og ríkisstjórnin vilji ekki leyfa fólki að bjarga sér. Samt er hún alltaf að tala um að búa til eitthvert starfsgetumat sem stangast á við allt. Ef einhver vilji væri til að gera það væri frítekjumarkið það gott að það myndi hvetja alla til að fara út að vinna. Það er það eina rétta í stað þess að pína fólk til að vera lokað inni í einhverju kerfi sem refsar alltaf endalaust.

Það er líka annað í þessu sem sýnir hversu fáránlegt þetta kerfi er, en það er samspil örorkugreiðslna og almannatrygginga og lífeyrissjóða. Hér er enn einu sinni eitthvað sem þarf að endurnýja á hverju ári. Með leyfi forseta, bara til að sýna fram á hversu fáránlegt þetta kerfi er, ætla ég að lesa orðrétt upp úr þessu:

„Við samanburð á heildartekjum fyrir og eftir orkutap líta lífeyrissjóðir m.a. til greiðslna almannatrygginga sem oft hefur leitt til þess að greiðslur til örorkulífeyrisþega úr lífeyrissjóðum hafa lækkað eða jafnvel fallið niður. Við þá tekjulækkun öðlast hinir sömu einstaklingar aukin réttindi innan almannatryggingakerfisins sem aftur leiðir til enn frekari lækkunar á greiðslum frá lífeyrissjóðunum við næsta samanburð og síðan koll af kolli. Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum getur því leitt til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og tilsvarandi óöryggis lífeyrisþega sem fyrst og fremst hafa komið örorkulífeyrisþegum illa.“

Hver samdi þetta? Hvernig var hægt að semja svona? Ég myndi segja, virðulegur forseti, að sá sem það gerir þurfi sálfræðimeðferð eða hjálp til að geta viðhaldið svona texta ár eftir ár og fá sérstaka heimild til að samþykkja þetta ár eftir ár. Það er eitthvað stórkostlega undarlegt við það hvernig við komum fram í þessu kerfi, að það skuli yfir höfuð eitthvað vera til í átt að þessu. Maður verður gjörsamlega orðlaus yfir því að svona skuli vera komið fram við fólk.

Við verðum líka að átta okkur á því hvað er gert enn eina ferðina í þessu. Hækkun til örorku- og ellilífeyrisþega verður 3,6% um næstu áramót, en launaþróunin er komin í 7%. Ástæðan er, eins og hefur oft komið fram, að almannatryggingaþegar fá ekki þessi 7%, eins og segir í 69. gr. almannatryggingalaga, það á að miða við launaþróun. Það er bara búið til eitthvert launaskrið og reynt að draga það frá; þá koma alls konar afsakanir og með þessum ótrúlegu brellum halda þeir viðkomandi í um 9.000 kr. hækkun sem ætti samkvæmt lífskjarasamningum að vera a.m.k. 15.000–16.000 kr. að lágmarki. Þetta er ekki bara gert núna. Þetta er gert ár eftir ár. Þá spyr maður sig líka: Hvers vegna í ósköpunum er hægt að hækka ýmis gjöld og annað en aldrei er hægt að hækka hjá þessum einstaklingum á réttan hátt þannig að þeir fái rétta hækkun, þó ekki væri nema í ár? En það segir sig sjálft að það er ekki inni í dæminu frekar en undanfarna áratugi.

Frá 1988, í upphafi staðgreiðslu og persónuafsláttar, þá dugði þetta alla vega, þá var það ekki skattað. Þá var eftir 30% af bótum almannatrygginga upp í lífeyrissjóð og svoleiðis átti kerfið að vera. En í dag erum við ekki bara að skatta fátækt heldur sárafátækt og það lítur ekki út fyrir að til standi að breyta því fyrirkomulagi á nokkurn hátt. Við sjáum að það er ekkert rosalegur munur á því hvort maður eigi að lifa á 220.000 kr. eða 229.000 kr. Það eru margir einstaklingar skelfingu lostnir þarna úti af því að það var búið að lýsa því yfir að þeir ættu að fá 50.000 kr. skatta- og skerðingarlaust og síðan var talað um 18. desember, en nú er það farið. Það virðist ekki vera pottþétt að það verði greitt á þeim tíma. Ég vona heitt og innilega að þessi ríkisstjórn fari nú að girða sig almennilega og sjái til þess að þessu fólki verði hjálpað.

En það er líka annað athyglisvert í þessu, sem er ekki inni í þessu frumvarpi. Það er hækkun til eldri borgara. Það er bara þessi 3,6% hækkun, það er ekki jólabónus eða neitt annað, engin skattlaus eingreiðsluhækkun til þeirra. Það er eins og þessir eldri borgarar eigi ekki að geta gefið börnum eða barnabörnum jólagjafir eða, þeir sem eru verst staddir, hreinlega haldið almennileg jól. Þeir fá þó alla vega jólagjöf frá ríkisstjórninni að það virðist eiga að auka kostnaðarþátttöku, rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilanna er þarna inni. Þeir passa upp á að seilast örugglega í fé í Framkvæmdasjóði aldraðra til að koma því yfir í rekstrarkostnað hjúkrunarheimila sem er fáránlegt og á ekki að vera. Það segir okkur að á meðan þeir eru að þessu þá eykst vandi hjúkrunarheimila og það vantar stórlega fé til að byggja hjúkrunarheimili og þessi peningur var aldrei hugsaður í þessa átt. Það virðist vera hægt að réttlæta allar gjaldtökur af eldri borgurum og öryrkjum en ekki til baka.

Að lokum er verið að ræða kolefnisgjaldið svokallaða. Ég verð að segja eins og er að öll svona gjöld sem varða mengunarskatta og annað bitna harðast á þeim sem síst skyldi. Mér finnst lágmarkskrafa að séð sé til þess, þegar verið er að leggja svona gjöld á, verði framfærsla þeirra sem hafa það verst hækkuð í sama hlutfalli þannig að þeir standi jafn vel eftir. En það verður auðvitað ekki gert. Það segir sig sjálft að hjá þeim sem hafa minnst og bera minnst úr býtum munar um hverja krónu. Það er eiginlega sorglegt hvernig komið er fram við almannatryggingaþega.

Ég tók fyrir erfðafjárskattinn hér í upphafi. Ég verð að segja alveg eins og er að það er ömurlegt til þess að vita að fólk megi ekki einu sinni erfa 1,5 milljónir, það var ekki í boði, ekki þeir sem eru hjá Tryggingastofnun, hvað þá þær 5 milljónir sem verið er að setja inn núna. Við verðum að átta okkur á því að ef við tökum 40% skerðingu á 5 milljónir þá erum við að tala um 2 milljónir, Það þýðir að ári seinna er verið að taka megnið af öllum bótum viðkomandi lífeyrisþega. En á sama tíma má hátekjufólk, eins og við þingmenn, erfa 5 milljónir og það er enginn skattur. Við megum bara eiga þetta, gera við það það sem við viljum. Þeir sem hafa það gott í tryggingakerfinu og hafa passað sig á að vera ekkert hjá Tryggingastofnun ríkisins, því að þeir vita hvort sem er að þeir fá ekkert þar, þeir mega erfa 5 milljónir og þurfa ekkert að pæla í því, þeir mega bara eiga þetta. En þeir sem þurfa mest á slíkum arfi að halda fá þetta ekki, við skulum þá refsa þeim.

Ég spyr bara: Hvernig er hægt að búa til þetta kerfi? Hvernig er hægt að viðhalda þessu kerfi og hvað er að í sálu þeirra sem geta komið hérna ár eftir ár, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og sagt: Við ætlum að viðhalda þessu kerfi. Við ætlum að framlengja þetta samspil örorkubóta og lífeyris eitt ár í viðbót. Við ætlum að gera þetta og við ætlum að hækka allt, öll gjöld til ríkissjóðs. Við ætlum að hækka hér og hækka þar en við ætlum ekki að hækka frítekjumarkið hjá öryrkjum. Við ætlum ekki að bæta kjör þeirra. Við ætlum ekki að láta þá fá þessa hækkun, við ætlum að láta þá fá helmingi minna.

Þetta er gjörsamlega fáránlegt kerfi og öllum þeim sem byggðu það upp til háborinnar skammar, og þeim til enn meiri skammar sem viðhalda þessu kerfi, ár eftir ár eftir ár, í þeim eina tilgangi að valda fólki þannig fjárhagslegu tjóni að það verði að herða sultarólina, að það verði að spara en geti það þó ekki, því að stór hópur er búinn að spara langt út fyrir það sem hann getur og getur ekki gert meira.