151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan hefur vinna við einföldun og breytingu á eftirlitinu og öðru slíku tekið langan tíma, eiginlega alveg frá 2010 þegar fyrst var byrjað að búa til nýtt.

Varðandi lífskjarasamninga var settur af stað svokallaður byggingarvettvangur sem starfaði og kom með tillögur í húsnæðismálum um hvernig mætti einfalda og annað, og þar áður var nú búið að einfalda byggingarreglugerðina. Þetta er að undangengnu miklu samtali byggingariðnaðarins, neytenda, í gegnum stéttarfélögin og hins opinbera, og er í takt og búið að snerta á flestum þeim atriðum sem OECD hefur komið með, sem er náttúrlega aðallega um stafvæðingu í þessu og einföldun á umsóknum í ferlinu. En þar verða líka sveitarfélögin að koma með, algjörlega. Þessi byggingargátt mun auðvelda sveitarfélögunum alla sína stjórnsýslu. Það kom aðeins til umræðu í nefndinni hvaða stjórnsýsla er hjá sveitarfélögunum og hvaða stjórnsýsla er þar ekki, þannig að sveitarfélögin munu halda áfram að halda utan um sína stjórnsýslulegu gagnagrunna en byggingargáttin er svona til að ná að samræma allt í kringum þetta og það á þá að draga úr umsýslukostnaði o.fl.

Svo langar mig að koma inn á það út frá OECD að Norðurlöndin hafa líka verið að vinna saman að því að taka niður stjórnsýsluhindranir og samræma byggingarreglugerðir sínar, sem ég tel einnig vera mjög stórt skref í þessu öllu saman. Ég held því að við séum að vinna á mörgum stöðum. Þetta er gott skref en það má enn þá gera betur og ég treysti því að með byggingarvettvanginum og samstarfi eftir stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þá getum við gert enn betur í þessu.