151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir og hugleiðingar. Ég tek heils hugar undir að hér erum við með mjög jákvætt skref en verð þó að segja að það hefur tekið ótrúlega langan tíma að gera þessa byggingargátt. Það sem vekur samt upp bjartsýni hjá manni er að hin nýja stofnun sem sett var á fót, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, er svo fókuseruð á að gera vel í stafrænum málum, í þessu rafræna, og er að keyra þetta áfram með stuðningi allra byggingarfulltrúanna og sveitarfélaganna. Það held ég að við ættum að yfirfæra á sem flesta málaflokka og stofnanir, að vera svona fókuseruð í að fara inn í nútímann til að auka hagræðingu hjá notendum og líka hagræðingu í rekstri.

Ég veit ekki hvort það tengist því að búið hafi verið að fjármagna það fyrir fram en það kom aldrei umræða um að það vantaði fjármagn til þess að klára þetta heldur var það bara: Nú kemur löggjöfin og nú ætlum við að keyra þetta í gegn og klára það. Svo erum við með önnur mál fyrir þinginu þar sem við spyrjum: Bíddu, af hverju ætlið þið að taka ykkur til 2022 eða 2023, eins og við höfum kynnst hjá öðrum stofnunum í velferðarnefnd? Þá er fjármagninu alltaf kennt um í staðinn fyrir að setja fókusinn bara á það að auka þjónustuna, auka gæðin með aukinni samræmingu og yfirsýn og auknu aðgengi. Það þarf að hætta að væla um peninga og bara fara í hlutina.