151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

mannvirki.

17. mál
[21:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál mikið en ég er á nefndarálitinu og styð það heils hugar. Ég ætla bara að koma aðeins inn á algilda hönnun. Hugmyndin er sú að opinberar byggingar séu ekki teknar í notkun og lokafrágangur síðan kannski kláraður nokkrum árum seinna, heldur sé séð til þess að hönnun sé algild svo að þeir sem þurfa á því að halda geti komist að opinberum byggingum og öðrum byggingum á sama tíma. Það eigi að sjá til þess að allir, hvort sem þeir eru í hjólastólum eða ekki, geti nýtt sér að koma í þessar byggingar. Því miður hefur orðið misbrestur á því. Opinberar byggingar hafa verið opnaðar þar sem ekki hefur verið búið að ganga frá lyftu með aðgengi og það hefur dregist í mörg ár. Síðan er þetta auðvitað spurning um að fylgjast vel með. Það er jafn sorglegt þegar búið er að ganga mjög fallega frá á allan hátt fyrir þá sem eiga að nota rampa og annað fyrir hjólastóla en síðan er ekki hægt að nota þetta vegna þess að það er rangt gert. Við eigum bara að sjá til þess að hlutirnir séu í lagi. Ég held og vona að með því að setja þetta inn í nefndarálitið verði séð til þess í eitt skipti fyrir öll að slíkt húsnæði sé ekki tekið í notkun fyrr en það er á hreinu að allir geti nýtt sér það.