151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

virðisaukaskattur og fjársýsluskattur.

372. mál
[22:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau atriði sem koma til mats við breytingar á lögunum eru upp að talsverðu marki huglæg og ekki beinlínis hægt að leggja reglustiku á hvort sá tími sé nákvæmlega runninn upp núna, eða hvort það verði síðar, til þess að fella niður þessar tilteknu ívilnanir. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við höfum á talsverðum hraða — og þegar ég segi á miklum hraða þá er ég að vísa til hraða breytinganna sem eru að verða í framleiðslu þessarar tegundar bifreiða, þeirra miklu breytinga sem eru að verða á neyslumynstri innan lands, á samsetningu flotans o.s.frv. Það er ekki alveg öruggt að við hittum nákvæmlega alltaf í miðju í hverju skoti hjá okkur. Hér hafa þó verið færð rök fyrir því að við eigum aðeins að þrengja skilyrðin fyrir ívilnunum í þágu innflutnings tengiltvinnbifreiða og meðal þeirra raka sem hafa komið fram í aðdraganda þessa máls eru þau að innflytjendur segja það reynslu sína að viðskiptamenn þeirra til margra ára hafi margir hverjir fært sig úr hefðbundnum bensín- eða dísilbílum yfir í tengiltvinnbifreiðar áður en þeir taka síðan skrefið að fullu yfir í rafbíla. Á meðan rafbílarnir eru ekki komnir lengra í þeirri þróun sem við sjáum þar þá hafa þau sterku rök komið fram frá innflytjendum að þennan valkost ættum við að hafa áfram til staðar (Forseti hringir.) til að flýta aðlögun.