151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

virðisaukaskattur og fjársýsluskattur.

372. mál
[22:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þær tvær breytingartillögur sem þingið er með hér fyrir framan sig til að taka afstöðu til séu dálítið af sama meiði, sú sem hv. þingmaður vísar til í andsvari og sú sem ég er að mæla fyrir.

Spurningin er hvernig við náum langtímamarkmiðum okkar og hvernig við hröðum ferlinu sem mest. Hv. þingmaður hefur til rökstuðnings sínum málflutningi notað tvo mælikvarða, annars vegar mælikvarða á árangur í loftslagsmálum og hins vegar notar hann í síðara andsvari sínu peningalega mælikvarða fyrir ríkissjóð. Það getur vel verið að það sé mjög vel þess virði að sjá af mögulegum tekjum vegna breytinga sem hefðu ella orðið á aðflutningsgjöldum, einmitt til þess að sjá meiri þróun í samsetningu bílaflotans.

Varðandi það atriði sérstaklega ætla ég bara að segja að uppsafnað höfum við náð mun meiri árangri en maður gat leyft sér að vona á undanförnum árum, frá því að við fórum að beita þessum sterku ívilnunum. Við erum meira að segja komin á þann tímapunkt núna að við erum farin að draga aðeins úr þeim. Í því frumvarpi sem við erum með á dagskrá er byrjað að draga aftur úr ívilnunum í þágu tengiltvinnbifreiða, annars vegar vegna þeirrar jákvæðu þróunar sem er að verða í rafbílavæðingu og hins vegar vegna þess hversu miklum árangri við höfum náð. Ef við fellum alla þessa bíla, tengiltvinnbifreiðar og aðrar sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum, undir græna bíla flytjum við inn (Forseti hringir.) hlutfallslega hvað mest allra þjóða af slíkum ökutækjum á móti hinum.