151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[22:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna ákvæði sem kveður á um hækkun fjármagnstekjuskatts í 22%. Snemma á þessu kjörtímabili var með lögum gerð breyting í samræmi við þá stefnumörkun en í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samhliða verði skattstofninn tekinn til endurskoðunar. Í upphafi þessa árs skipaði ég starfshóp sem falið var það verkefni að móta tillögur um endurskoðun skattstofns fjármagnstekjuskatts í samræmi við þessi markmið og er í frumvarpi þessu m.a. litið til tillagna starfshópsins. Starfshópurinn hefur sem sagt skilað af sér ítarlegri skýrslu sem fjallar um efnið og setur það í sögulegt og að nokkru í alþjóðlegt samhengi, afar vel unnin skýrsla sem unnin var undir forystu dr. Axels Halls hagfræðings með sérfræðingum á skattasviði í fjármálaráðuneytinu og hjá Skattinum auk endurskoðenda. Frumvarpið er byggt á þessari skýrslu, þessari úttekt, sem ég hvet menn til að kynna sér en hana er hægt að nálgast á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Þetta frumvarp byggir á þessari vinnu.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til ferns konar breytingar sem snúa allar að skattlagningu fjármagnstekna. Í fyrsta lagi er lagt til að 150.000 kr. frítekjumark, sem í dag gildir um hvers konar vaxtatekjur, verði hækkað í 300.000 kr. Í öðru lagi er lagt til að frítekjumarkið taki einnig til tekna í formi arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í skráðum félögum. Í þriðja lagi er lagt til að söluhagnaður frístundahúsnæðis verði undanþeginn skattskyldu með sambærilegum hætti og gildir um íbúðarhúsnæði sem er innan rúmmetrareglu laganna. Í fjórða lagi er í frumvarpinu mælt fyrir skattleysi gengishagnaðar af sérgreindum sparnaðarreikningum í þeim tilfellum þegar einstaklingar sjá fram á tiltekin útgjöld í erlendum gjaldmiðli, svo sem til skólagjalda erlendis, leigugreiðslna eða annars þess háttar, en í greinargerð með þeirri grein frumvarpsins sem um þetta fjallar eru rakin nánari dæmi um það hvernig þetta gæti gagnast og skilyrði nánar útskýrð.

Fyrst um frítekjumark vaxtatekna: Hér er lagt til, eins og ég hef tekið fram, að frítekjumarkið hjá einstaklingum, hvort sem þeir bera ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu hér á landi, hækki úr 150.000 kr. í 300.000 kr. á ári. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs muni lækka um 770 millj. kr. verði tillagan samþykkt. Í frumvarpinu er einnig að finna nýja tillögu um að breikka stofn þeirra fjármagnstekna sem falla undir frítekjumark vaxtatekna. Verði breytingin að lögum mun frítekjumarkið ekki aðeins ná til vaxtatekna heldur einnig arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga.

Í umsögnum um þetta atriði laganna hefur m.a. komið fram frá Kauphöll að æskilegt væri að útvíkka þetta ákvæði nokkuð með því t.d. að það gæti tekið til First North viðskipta. Ég tel að það hafi svo sem verið færð fram ágætisrök fyrir því, ég tel hins vegar að það liggi nokkuð skörp lína milli þess að eiga viðskipti með verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði í þessu samhengi og þess að opna fyrir að óskráð bréf myndu falla undir regluna. Með þessu myndi 300.000 kr. frítekjumarkið ná jafnt til vaxtatekna, arðs og söluhagnaðar hlutabréfa skráðra félaga. Ef sameiginlegar tekjur eru hins vegar umfram 300.000 kr. þá yrði það sem umfram er skattskylt samkvæmt almennum reglum.

Með þessari breytingu eru skattalegir hvatar milli fjárfestingarkosta sem leiða af sér vaxtatekjur annars vegar og arðstekjur og söluhagnað hins vegar jafnaðir. Vonast er til þess að breytingin muni gera hlutabréfamarkaðinn að álitlegri fjárfestingarkosti frá því sem verið hefur og þannig hvetja til aukinnar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. Áformað er að breytingartillagan taki gildi við álagningu árið 2021 og munu tekjur ríkissjóðs lækka um 150 millj. kr. árlega verði tillagan samþykkt.

Hagnaður fólks af sölu íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis telst almennt að fullu til skattskyldra tekna á söluári. Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst þó ekki til skattskyldra tekna hafi seljandi átt húsnæðið í a.m.k. tvö ár og að heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis í eigu seljanda á söludegi sé ekki umfram 600 rúmmetra, þ.e. 1.200 rúmmetra ef um hjón er að ræða. Ef íbúðarhúsnæðið er til eigin nota þá gildir stærðartakmörkunin þó ekki.  

Hagnaður fólks af sölu frístundahúsnæðis telst til skattskyldra fjármagnstekna á söluári og sætir hagnaðurinn alla jafna 22% fjármagnstekjuskatti en því til viðbótar hefur slíkur hagnaður áhrif til skerðingar fyrir þá einstaklinga sem fá greiddar tekjutengdar bætur úr almannatryggingum. Á hinn bóginn greiðir bótaþegi sem selur annað íbúðarhúsnæði, sem ekki hefur verið til eigin nota, ekki skatt af söluhagnaðinum og bætur hans skerðast ekki, að því gefnu að heildarrúmmál sé undir stærðarmörkunum. Það er dálítið erfitt að vera að ræða um þessar heildarrúmmálstölur. Fólk hefur almennt ekki vanist því að nota rúmmálstölur þegar rætt er um fasteignir en við skulum bara segja að 1.200 rúmmetrar séu þó nokkuð rúm regla og sjaldgæft að á hana reyni, afar sjaldgæft.

Þessi ólíka meðferð söluhagnaðar af sölu frístundahúsnæðis annars vegar og sölu annars íbúðarhúsnæðis, sem ekki hefur verið til eigin nota, hins vegar þykir vera ósanngjörn, að ekki sé talað um þau ótrúlega miklu áhrif sem sala frístundahúsnæðis getur haft á réttindi í almannatryggingakerfinu. Ef við tökum bara dæmigert mál sem gæti tengst einstaklingi sem selur frístundahúsnæði sitt í Grímsnesinu, sem dæmi, þá getur söluhagnaður vegna slíkrar eignar, hann myndast oft t.d. þegar einstaklingur hefur nýlega misst maka og ákveður í framhaldinu að selja frístundahúsnæðið, myndað skattskyldan stofn og leiðir líka til skerðingar á greiðslum almannatrygginga. Ef þessi sömu hjón, þar sem annað síðan fellur frá, hefðu átt húsnæði á Selfossi og ákveðið að losa sig við eignina þar þá hefði að öðrum skilyrðum uppfylltum, um rúmmetrafjöldann, ekki komið til skattlagningar á söluhagnaðinum og þar sem hann var ekki skattskyldur hefði ekki heldur komið til neinna skerðinga á bótum almannatrygginga. Nú skulum við gefa okkur að þetta séu einstaklingar á sama ári, nánast nágrannar, annars vegar sá sem á aðra eign í sveitarfélaginu Árborg og hinn með sumarhús í Grímsnesinu. Ef aðstæður þeirra eru að öðru leyti hinar sömu þá eru skattkerfið og tryggingakerfin okkar að meðhöndla þessi tvö mál með mjög ólíkum hætti, eingöngu vegna þess að annar var að selja sína aðra eign, jafnvel þó að hann byggi ekki í henni, á meðan hinn var að selja sumarhúsið sitt eða frístundahúsnæðið sitt. Þetta viljum við laga með þessu frumvarpi. Við viljum laga hvort tveggja, bæði hina ólíku skattalegu meðhöndlun og það sem snýr að skerðingum almannatrygginga. Það gerum við með því að leggja til að hagnaður af sölu frístundahúsnæðis til eigin nota verði skattlagður með sambærilegum hætti og gildir um íbúðarhúsnæði, enda séu uppfyllt skilyrði ákvæðisins um eignarhaldstíma og stærðarmörk. Þó er lagt til það viðbótarskilyrði að eignarhald frístundahúsnæðis hafi varað að lágmarki í fimm ár á söludegi í stað tveggja ára eins og á við í tilviki íbúðarhúsnæðis. Gert er ráð fyrir því að lækkun tekna ríkissjóðs verði á bilinu 600–700 millj. kr. árlega verði tillagan samþykkt.

Síðasta atriðið sem er að finna í þessu frumvarpi snýr að   gengishagnaði af sérgreindum sparnaðarreikningum. Mælt er fyrir um frádráttarheimild á móti innleystum gengishagnaði með ákveðnum takmörkunum. Samkvæmt gildandi reglum er gengishagnaður skatt- og staðgreiðsluskyldur við innlausn. Einstaklingur sem leggur inn 1.000 evrur á gjaldeyrisreikning gæti því þurft að greiða skatt af gengishagnaði, jafnvel þótt hann taki út sömu 1.000 evrur stuttu síðar, ef gengi íslensku krónunnar hefur lækkað í virði. Með breytingartillögunni er ekki hróflað við almennri skattskyldu í þeim aðstæðum þegar einstaklingur innleysir gengishagnað af sparnaði í erlendum gjaldeyri. Breytingunni er ætlað að koma til móts við þá einstaklinga sem sjá fram á tiltekin útgjöld í erlendum gjaldeyri í náinni framtíð og fjárfesta í erlendum gjaldeyri í þeim tilgangi að verja sig gengisbreytingum íslensku krónunnar. Þetta gerist þá þannig að menn geta stofnað sérstakan reikning í þessum tilgangi fyrir allt að 15.000 SDR, sem er hægt að fletta upp genginu á, og það er þá gert í ákveðnum yfirlýstum tilgangi. Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu byggir þetta þá á því að menn hafi stofnað slíkan reikning í samráði við fjármálastofnanir sem að öðru leyti gæta þess að skilyrðum laganna sé fullnægt. Þetta er hægt að gera til þriggja ára og þetta er þá viðleitni til þess að styðja fólk í því sem vill draga úr áhættu sinni vegna gengisbreytinga fyrir þessari lágmarksfjárhæð og kemur á vissan hátt til viðbótar við hækkun frítekjumarksins, en gengisbreytingar íslensku krónunnar og afleiðingar gengisbreytinga á skattskyldu hafa verið gagnrýndar lengi vegna þess að fólk er ekki að upplifa að það hafi notið mikils hagnaðar við það að gengisbreyting hafi orðið á krónunni. En þá ber á það að líta að við snúum öllu yfir í krónur þegar við leggjum mat á skattaleg áhrif. Hækkun frítekjumarksins kemur þá hér að notum og dregur úr skattalegum áhrifum af gengisbreytingum íslensku krónunnar fyrir allar venjulegar fjárhæðir sem meginþorri íslenskra heimila kann að hafa á gjaldeyrisreikningum þó að það sé nú kannski ekki almenna reglan. Svo kemur þetta þá til viðbótar. Hér er komið til móts við einstaklinga sem sjá fram á tiltekin útgjöld í erlendum gjaldeyri á næstu árum, eins og ég hef hér rakið. Það geta verið skólagjöld, leigugreiðslur eða annað þess háttar. Ekki eignakaup þó. Ég tel að þetta ákvæði sé mjög til bóta.

Þessi breytingartillaga snýr einnig að lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur þannig að innleystur gengishagnaður, sem myndast á þessum sérgreindu sparnaðarreikningum, sem verður að stofna í þessum tilgangi, myndi ekki sæta staðgreiðslu líkt og nú er verði frumvarpið að lögum. Búist er við að breytingin hafi í för með sér tekjutap innan við 200 millj. kr. árlega en áhrifin myndu fyrst og fremst koma fram ef sveiflur eru á gengi íslensku krónunnar og eingöngu ef íslenska krónan er að lækka í virði. Þetta er því dálítið erfitt að meta að meðaltali á ári inn í langa framtíð. Ég tel að þetta ákvæði sé mjög til bóta en eins og fram er komið þá er það frítekjumarkið sem hefur miklu víðtækari áhrif og teygir sig m.a. inn í áhrifin af gengisbreytingum eins og ég hef aðeins komið inn á.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið mat á áhrifum tillagna frumvarpsins í mínu máli samhliða efnislegri umfjöllun. Í heild erum við hér að ræða um lækkun tekna sem getur legið á bilinu 1,5 milljarðar til 1.800 milljónir. Það er upphæð sem er á svipuðum slóðum og áhrifin af hækkun virðisaukaskattsins í upphafi kjörtímabilsins, þó ívið lægri, eins og það mál var lagt fyrir þingið a.m.k. Ég tel mig hafa farið yfir öll helstu efnisatriði málsins. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og svo til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.