151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[22:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þau tilvik þar sem við næðum ekki með frumvarpinu að hafa þessi jákvæðu áhrif á rétt til bóta úr almannatryggingum. Það væri þá þegar viðkomandi væri að selja frístundahúsnæði og heildarhúsnæði hans væri umfram 1200 m³ regluna. Þá kæmi til skattlagningar sem leiddi til þess að viðkomandi hefði skattskyldar tekjur sem leiddu til skerðinga. Ef eignarhaldið hefði ekki náð fimm ára viðmiðunartímabilinu gæti það haft sömu afleiðingar.

Það er sjálfsagt að útvega nefndinni gögn um það hvernig fjármagnstekjuskattur er greiddur eftir kynjum, hvaða fjárhæðir eru þar undir og, eftir atvikum og eftir því sem hægt er að greina nánar, um þjóðfélagshópana. En ég tel alveg augljóst og hef séð tölur um það — ég er ekki með þær í kollinum — að karlar greiða fjármagnstekjuskattinn í meira mæli en konur. Þó eru konur einnig mjög stórir greiðendur fjármagnstekjuskatts. Skattskyldar tekjur eru einkennandi hærri í þessum skatti hjá eldri kynslóðum. Mér finnst það dálítið ráða úrslitum að gera ekki mun á skattandlaginu, eins og ég rakti í máli mínu, og mér finnst það líka mikilvægt, sjálfstætt markmið að fjölga valkostum fyrir sparnað á Íslandi.