151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[22:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Við segjum í heiti frumvarpsins að það fjalli um skattalega hvata fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla. Mig langar að byrja á því að segja að þetta er mál sem hefur verið til skoðunar í þó nokkuð langan tíma í stjórnkerfinu og eitt af því sem hefur komið í ljós, við úttekt á þessum málum, er að við skerum okkur töluvert úr í samanburði við margar aðrar þjóðir þegar kemur að því að smíða skattkerfi sem segir hreinlega við alla þá mikilvægu almannaheillastarfsemi sem á sér stað: Við kunnum að meta það sem þið eruð að gera. Víða er gengið alveg gríðarlega langt, meira að segja í löndum sem við köllum háskattalönd, eins og í Danmörku, í því að gera mönnum kleift að ráðstafa eignum inn í sjóði sem njóta mikillar skattalegrar ívilnunar og jafnvel verndar að lögum. Á móti koma reyndar ströng skilyrði, t.d. um varanlegt framsal eigna sem eru lagðar inn í slíka sjóði o.s.frv. En séu sjóðirnir stofnaðir í nánar tilgreindum tilgangi laganna þá er ekki hægt að segja neitt annað en að skattkerfið fagni slíku.

Þróunin hefur verið á töluvert annan veg hér á Íslandi. Við höfum vissulega töluvert af sjálfseignarstofnunum og ýmiss konar góðgerðafélög og almannaheillastarfsemi af ýmsum toga. Ekki er hægt að neita því að við höfum ívilnandi reglur, t.d. fyrir fyrirbæri eins og Landsbjörgu og við teygjum okkur með ýmsum hætti til annarrar íþrótta- og tómstundastarfsemi, félagastarfsemi af ýmsum toga, með því að gera mönnum auðveldara að stofna til slíkrar starfsemi. Sveitarfélög styðja með margvíslegum hætti við slíka starfsemi með alls konar ívilnandi hætti en skattkerfið hefur svo sem ekki mikið verið notað sem tæki í þessum tilgangi. Og það sem meira er, það eru að sjálfsögðu undantekningar á þessu, við höfum stigið styttri skref, vil ég meina, en víða annars staðar sjást til að hvetja bæði einstaklinga og lögaðila til að standa með þessari starfsemi og þannig, án beinna ríkisafskipta, losa um fjármagn sem er til í samfélaginu í þágu slíkrar starfsemi. Og þetta er eitt af því sem þetta frumvarp fjallar um. Það fjallar reyndar um hvort tveggja, að við getum beitt skattkerfinu okkar beint í þágu slíkrar starfsemi en við getum líka notað það óbeint þannig að þriðji aðili, sem ekki sjálfur stundar slíka starfsemi, fái ívilnun eða hvata til þess að leggja þriðja geiranum, eins og við köllum hann oft, lið. Allt þetta erum við að hugsa og leggja til hér vegna þess að við kunnum að meta það sem þriðji geirinn er að gera. Það held ég að hafi oft og tíðum verið stórkostlega vanmetið hversu mikilvægt samfélagslegt starf er unnið á þessu sviði hjá þeim sem hér eru til umræðu. Að þessu sögðu ætla ég að fara aðeins nánar ofan í frumvarpið. Ég er ánægður með að það sé komið fram. Ég hefði viljað leggja það fram fyrir þó nokkru síðan. Ég vil þakka öllum sem hafa haft aðkomu að undirbúningi þess. Ég veit að við erum ekki í einu og öllu að mæta öllum væntingum þeirra sem hafa fylgst með vinnunni en mér finnst samt að við séum með hér í höndunum mjög mikilvægt mál sem er brýnt að verði afgreitt.

Markmið frumvarpsins er, í samræmi við það sem ég hef hér verið að segja, að bæta og styrkja skattalegt umhverfi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann. Þetta er starfsemi sem telst hvorki falla undir einkageirann né opinbera geirann. Alþjóðlegur samanburður hefur leitt í ljós að víðast hvar í nágrannaríkjum okkar eru skattalegir hvatar vegna starfsemi til almannaheilla víðtækari en hér á landi. Það er því nauðsynlegt að auka skattalega hvata fyrir þessa lögaðila og skjóta þannig styrkari stoðum undir þá starfsemi sem þar fer fram en lögaðilar sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Ég held að við vitum þetta öll innst inni. Við sjáum að hjarta þjóðarinnar slær með þessum aðilum þegar þeir komast í kastljósið. Við sjáum það um áramót af viðskiptum við Landsbjörgu og hjálparsveitirnar í landinu. Við sjáum það þegar fólk kaupir neyðarkallinn. Við sjáum það líka þegar álfurinn er seldur til að styðja við starfsemi SÁÁ. Við sjáum það í svo mörgum tilvikum þegar átök eru í gangi en hér erum við ekki að boða neitt átak, við erum að tala um að skapa viðvarandi betri umgjörð fyrir alla þessa starfsemi. En við erum, eins og ég sagði áður, ekki einungis að auka skattalega hvata fyrir þessa lögaðila beint heldur erum við líka að auka hvata fyrir gefendur vegna gjafa og framlaga til þessarar starfsemi. Með auknum skattalegum hvötum, bæði fyrir þiggjendur og gefendur, mun starfsemi til almannaheilla, sem fellur undir þriðja geirann, eflast og styrkjast sem aftur auðgar það mikilvæga sjálfboðaliðastarf sem fram fer í hinum ýmsu félögum og félagasamtökum um land allt. Breytingarnar taka að miklu leyti mið af tillögum starfshóps sem ég skipaði í apríl 2019, um skattumhverfi þriðja geirans, og skilaði tillögum sínum í janúar sl. Þar áður höfum við verið að reyna að kortleggja þetta og við gátum lagt starfshópnum til talsvert efni. Ég vil sömuleiðis þakka starfshópnum fyrir þau góðu störf sem þar voru unnin. Hv. þm. Willum Þór Þórsson veitti honum forystu og var formaður í hópnum og við höfum áður birt niðurstöðurnar og fjallað um þær. Þetta frumvarp er byggt á þessari vinnu og hérna er þetta allt nánar útfært.

Mun ég nú fara yfir helstu efnisatriði frumvarpsins og ég ætla að reyna að gera þetta skipulega þannig að þetta komist allt til skila:

Lagt er til að hugtakið ,,almannaheill“ komi í stað hugtaksins ,,almenningsheill“ og verði skilgreint nánar í lögum um tekjuskatt. Hugtakið er í dag ekki skilgreint í tekjuskattslögum en í skattframkvæmd hefur verið horft til frádráttarbærni gjafa sem gefnar eru til starfsemi sem fellur undir tiltekna málaflokka við afmörkun á því hvort lögaðili starfi til almenningsheilla eða ekki. Undir hugtakið „almannaheill“ falli þannig málaflokkar eins og mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, starfsemi björgunarsveita, vísindaleg rannsóknastarfsemi, starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða, neytenda- og forvarnastarfsemi og starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Gert er ráð fyrir því að sett verði reglugerð þar sem kveðið verði nánar á um hvaða málaflokkar falla hér undir og um framkvæmdina að öðru leyti.

Þá er lagt til að einstaklingum verði heimilt að draga einstaka fjárframlög til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum, að hámarki 350.000 kr. á hverju almanaksári, að frekari skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða nýtt frádráttarákvæði einstaklinga frá tekjum utan atvinnurekstrar sem telja verður afar mikilvægt til að afla tekna þar sem það hvetur til gjafa og framlaga til þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla. Samkvæmt þessu ákvæði geta menn lækkað skattstofn sinn, skattskyldu tekjurnar, um allt að 350.000 kr. Það er rakið hér í frumvarpinu, nánar í greinargerð, hvernig þetta gerist og ég verð að segja að mér þykir að vinnan við málið hafi skilað mjög góðri niðurstöðu um þetta. En eins og rakið er í greinargerðinni þá gerist þetta í reynd þannig að það byrjar á því að menn hafi skráð sig og hafi þeir fengið skráningu hjá Skattinum er það skilyrði uppfyllt að þeir geti verið viðtakendur að styrk sem fellur undir regluna. Þegar styrkurinn er veittur er gefin kvittun til gefandans. Móttakanda styrksins er síðan skylt að skila inn til Skattsins eins konar skilagrein fyrir öll móttekin framlög sem eru frádráttarbær og það leiðir á endanum til þess að skattframtölin verða fyrir fram með frádráttarbærni þess framlags sem við á, allt að 350.000 kr. á hverju skattári í þessu tilviki. Ég verð að hrósa embættismönnum fyrir að hafa unnið þetta alla leið á þennan stað. Þetta þýðir með öðrum orðum að það eina sem einstaklingur þarf að hafa áhyggjur af er að hann sé að styrkja starfsemi sem hefur fengið skráningu og fá fyrir því kvittun, og það næsta sem gerist er að framlagið er komið inn á skattframtalið og það verður tekið tillit til þess við álagningu á því skattári sem er undir.

Jafnframt er lagt til að hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekstraraðila vegna einstakra fjárframlaga til almannaheilla verði hækkað úr 0,75% í 1,5%. Við erum að tvöfalda þessa frádráttarheimild. Hún hefur verið 0,75% hjá atvinnurekstraraðilum, hjá fyrirtækjum, en verður 1,5% eins og hér hefur komið fram. Samhliða er lögð til orðalagsbreyting með hliðsjón af þeim breytingum sem lögfestar voru í sumar með lögum nr. 86/2020, um frádrátt vegna aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, svo sem fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis. Sá frádráttur telst sjálfstæð heimild til að veita framlög til þeirrar starfsemi sem þar fellur undir, þ.e. 1,5%, og þannig erum við í reynd, ef atvinnurekstraraðili nýtir báðar heimildirnar, að fara úr 0,75% og ekki upp í 1,5% heldur upp í 3% af tekjum. Þetta eru þá orðin 3% af tekjum sem hægt er að nota til að lækka skattstofn. Að lokum verð ég að geta þess að lögð er til sú breyting að frádráttarheimild þessi taki ekki til stjórnmálaflokka eins og er samkvæmt gildandi lögum. Ég held að það sé eðlileg breyting í ljósi þess hvernig við höfum verið að auka stuðning við stjórnmálastarfsemi í landinu með opinberum framlögum.

Aðeins nánar um þetta atriði, vegna þess að hér hefur komið fram að við erum í dag með reglu um 0,75% af tekjum sem viðmið. Í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 6 í sérprentun sem liggur hér fyrir þinginu, má sjá að þegar við gerðum þá breytingu að fara frá 0,5% upp í 0,75% þá jukust gjafir og framlög um heilan milljarð á ári. Ég verð að segja að það var veruleg breyting. Við sjáum þetta á því að á árinu 2015 tók gildi breyting, úr 0,5% upp í 0,75%, og gjafir og framlög höfðu áður verið 2,7 milljarðar en á því ári sem breytingin tók gildi þá hækkaði þessi tala, gjafir og framlög, úr 2,7 milljörðum í 3,7 milljarða, gríðarlega mikil breyting. Og nú erum við að fara úr 0,75%, sem hefur að jafnaði undanfarin ár skilað um 3,7 milljörðum á ári í gjafir og framlög, upp í 1,5%. Hvort við getum búist við jafn mikilli aukningu skal ósagt látið en ég tel fullvíst að við munum sjá verulega aukningu. Þá er ótalin sú viðbót sem sérstaklega varðar grænu málefnin sem ég var að rekja hér áðan. Við getum haft væntingar um að jafnvel þótt af þessu verði nokkurt tekjutap fyrir ríkið muni framlög beint inn í almannaheillageirann stóraukast.

Líkt og ég hef komið hér inn á er að finna það nýmæli í frumvarpinu að skilyrði frádráttar, hvort heldur varðar lögaðila eða einstaklinga, er að lögaðili sem starfar að almannaheillum sé skráður í sérstaka almannaheillafélagaskrá hjá Skattinum og það þarf að hafa verið þegar gjöf er afhent eða framlagið er veitt. Þá er lagt til að þeir lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir staðgreiðslu og tekjuskatti af fjármagnstekjum, en fyrir liggur að Ísland er eina Norðurlandaþjóðin í dag sem undanþiggur ekki fjármagnstekjur þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla tekjuskatti. Mér finnst þetta gríðarlega mikilvægt atriði.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að þeim lögaðilum sem starfa til almannaheilla verði gert kleift að óska eftir 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnulið vegna vinnu á byggingarstað, eða vegna endurbóta eða viðhalds, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Hér erum við að tala um varanlegt lagaákvæði. Hér fyrr í kvöld var ég að mæla fyrir framlengingu á 100% endurgreiðslu Allir vinna átaksins, en hérna erum við þá að tala um varanlega lagaákvæðið sem myndi standa í lögum til lengri tíma, ekki tímabundið heldur til lengri tíma. Ég geri mér grein fyrir því að sumir sem starfa í þriðja geiranum hafa verið að horfa til þess að það ætti ekki einungis að tryggja þeim endurgreiðslu vegna vinnu á byggingarstað eða vegna endurbóta eða viðhalds heldur einnig vegna efniskaupa. Við tókum það til skoðunar. Það er erfitt að leggja nákvæmlega mat á það en það er mjög mikið stílbrot að stíga það skref þegar við berum saman við hina almennu endurgreiðsluheimild sem við höfum haft í virðisaukaskattstillitinu um þetta. Einhver kynni að segja að það skipti ekki máli vegna þess að tilgangurinn, markmiðið, væri göfugur en á móti kemur að það má alveg sjá fyrir sér að ef menn vilja styðja enn frekar en gert er með þeim fjölbreyttu úrræðum sem er að finna í þessu frumvarpi við slíka starfsemi, vegna uppbyggingar á félagsheimilum eða annarri starfsstöð sem þarna getur verið undir — eins og ég hef hér rakið geta þetta verið íþrótta- og æskulýðsfélög, alls konar mannvirki sem geta átt hér við — þá erum við í sjálfu sér ekki bundin við það að beita virðisaukaskattskerfinu í þeim tilgangi. Við getum í slíkum tilvikum fundið aðrar leiðir. En hafandi sagt þetta þá er verkefnið í raun að svara spurningunni: Er nóg að gert? Það er í raun spurningin sem er undir. Þarf þá að gera meira vegna mannvirkjagerðar? Ég held að það sé kannski miklu frekar spurningin og ég held að við höfum bara ekki enn séð nægjanlega sannfærandi gögn í undirbúningi þessa máls um að almennt sé slíks stuðnings þörf, að það sem við erum að gera að öðru leyti í þessu frumvarpi komi ekki til með að leysa það að verulegu leyti. 60% endurgreiðsla er þess utan sem varanleg regla gríðarlega mikil ný ívilnun. Ég held að það megi alls ekki gera lítið úr því. En þetta ræðst dálítið af hinu. Hver er þörfin? Hversu langt eigum við að ganga? Eigum við að ganga lengra í því að beita virðisaukaskattskerfinu eða eigum við mögulega að ganga lengra, ef menn meta það svo að það þurfi að ganga lengra, í því að laða fram fjármagn frá atvinnurekstrarstarfsemi? Þetta eru þær tegundir spurninga sem við höfum þurft að fara í gegnum við samningu þessa frumvarps og hér er niðurstaða sem er mjög ívilnandi þó að mér sé kunnugt um að margir hefðu líka viljað sjá efnisliðinn undir.

Í frumvarpinu er lagt til að hugtakið góðgerðastarfsemi verði skilgreint nánar í lögum um virðisaukaskatt. Samhliða er lagt til að þeim dögum sem miðað er við vegna undanþágu góðgerðastarfsemi frá virðisaukaskatti verði fjölgað og að ákvæðið verði útvíkkað. Talið er að tímamörkin séu of þröng og það geti jafnvel unnið gegn því að fyrirhuguð fjáröflun verði að veruleika. Eftir breytinguna má hver starfsemi í hverjum mánuði vara að hámarki í fimm daga í stað þriggja daga áður. Sami aðili getur þannig einungis fengið undanþágu vegna einnar sölustarfsemi í hverjum mánuði að hámarki fimm daga í senn. Einnig er lagt til að ef um árlega atburði er að ræða verði slík sala heimiluð samfellt í 25 daga í stað 15 daga áður.

Lagt er til að þeir aðilar sem starfa til almannaheilla og eru undanþegnir tekjuskatti verði jafnframt undanþegnir gjaldskyldu stimpilgjalds samkvæmt lögum um stimpilgjald. Sem dæmi má nefna að lögaðilar sem eru undanþegnir tekjuskatti og verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum greiða í dag 1,6% stimpilgjald af fasteignamati við kaup á fasteignum. Þá er rétt að geta þess að stimpilgjald af skjölum sem varða eignayfirfærslu skipa yfir fimm brúttótonnum hefur verið afnumið. Breytingin hefur m.a. haft jákvæð áhrif á starfsemi björgunarsveita sem þurftu fyrir breytinguna að greiða 1,6% stimpilgjald af kaupverði skipanna. Þetta getur skipt miklu máli fyrir svona félagastarfsemi.

Að lokum er lagt til að í lögum um erfðafjárskatt verði kveðið á um að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til aðila sem starfa til almannaheilla. Ákvæðið verður því ekki lengur takmarkað við gjafir til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana eins og nú er, heldur nær til allra þeirra sem falla undir skilgreiningu laganna um almannaheillastarfsemi en hingað til hafa það eingöngu verið gjafir og framlög sem að öðrum kosti skal greiða erfðafjárskatt af sem ákvæðið hefur tekið til. Við erum að útvíkka regluna. Það verður ekki skylt að greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til félaga sem starfa til almannaheilla, miklu víðtækari regla.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef hér rakið má ljóst vera að tillögur frumvarpsins munu hafa neikvæð áhrif á skatttekjur ríkissjóðs og nemur breytingin um 2 milljörðum kr. á ári. Mér finnst rétt að líta þannig á að það verði þá a.m.k. 2 milljarðar kr. sem fara til almannaheillastarfsemi á ári ótímabundið. Það verður vonandi til að stórefla þá starfsemi um allt land. Þetta flokkast þannig í matinu að heimild lögaðila til að draga frá tekjum af atvinnurekstri vegna einstakra gjafa eða framlaga er um 800 millj. kr. Það sem snýr að einstaklingum er um hálfur milljarður og tekjutap ríkissjóðs af undanþágu þeirra lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum að undanþága frá tekjuskatti af fjármagnstekjum geti leitt til um 400 millj. kr. lægri tekna fyrir ríkissjóð. Það má nefna að af því eru styrktarsjóður háskólanna og aðrir menntasjóðir að njóta góðs upp á um 2,5–10 millj. kr. á ári. Útvíkkun endurgreiðsluheimildar virðisaukaskatts, vegna vinnu manna á byggingarstað, er metin í kringum 200 millj. kr. á ári. Stimpilgjaldsundanþágan um 100 millj. kr. og erfðafjárskattsreglan útvíkkuð getur leitt til um 100 millj. kr. taps á ári. Þetta eru auðvitað allt saman áætlaðar tölur og erfitt að meta nákvæmlega en þetta leggur sig svona. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta frumvarp muni hafa mjög jákvæð áhrif á starfsemi þeirra lögaðila sem starfa til almannaheilla en það hefur hins vegar reynst mun erfiðara að ganga svo langt að greina áhrif frumvarpsins á jafnrétti kynjanna.

Ég tel að ég hafi náð að fara ágætlega yfir tilgang þessa máls. Ég er alveg sannfærður um að við náum fram jákvæðum breytingum með þessu máli, að við munum ná að snerta marga. Ég tel að skattkerfið okkar eigi að senda út þau skilaboð að við kunnum að meta allt það starf sem unnið er til almannaheilla af sjálfboðaliðum og jafnvel launuðu starfsfólki landið um kring alla daga allt árið. Ég ætla líka að segja að þó að við séum að stíga nokkuð stórt skref með þessu í dag þá held ég að þetta mál muni mögulega opna augu margra fyrir því hversu lítið við höfum í raun gert til þessa. Það geti þannig verið fyrsta skrefið af mörgum sem við í kjölfarið kunnum að stíga. Eflaust eigum við eftir að læra eitthvað af framkvæmd laganna, verði frumvarpið samþykkt, á komandi misserum sem kann að leiða til nánari útfærslu og það er ekkert að því. Það er bara eðlilegasti hlutur. En upp úr stendur í þessu máli að við þurfum að taka höndum saman hér á þinginu og senda út mjög skýr skilaboð til allra þeirra sem koma að þeirri starfsemi sem verið er að fjalla um í þessu máli.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni umræðunni og til 2. umr.