151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sannarlega er ég er mikill stuðningsmaður þess að knatthús eða yfirbyggð íþróttamannvirki verði reist sem víðast og reyndar held ég að ef við tækjum höfuðborgarsvæðið og kannski litum aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið og myndum draga hring sem næði frá Reykjanesinu, utan um Hveragerði og jafnvel Árborg, upp á Akranes og yfir í Faxaflóann aftur, um höfuðborgarsvæðið og við myndum telja knatthúsin á þessu svæði, þá ætla ég að leyfa mér að efast um að við getum fundið annan stað í heiminum öllum þar sem þéttleiki yfirbyggðra knattspyrnuvalla er jafn mikill. Það kemur ekki til af engu. Það er vegna þess að við búum norðarlega og við höfum haft mikla þörf til að reisa mörg slík mannvirki. En það hafa orðið alveg ofboðslegar framfarir á undanförnum tveimur áratugum í þessu efni.

Ef við viljum ganga lengra en hérna er talið upp þá stöndum við einmitt frammi fyrir spurningum eins og hv. þingmaður kom inn á. Mér fannst það kannski ekki alveg skýrt í hans máli en hérna þurfum við að svara því: Erum við að reyna að styðja sveitarfélögin í því að reisa slík mannvirki eða ætlum við að reyna að styðja félögin sem ætla að stunda starfsemina í slíku húsnæði? Við eigum dæmi um að félögin hafi sjálf tekið að sér að reisa slík mannvirki en almennt er þar að baki einhvers konar samningur við sveitarfélagið sem á í hlut um að leigja aðstöðu fyrir unglinga og börn í viðkomandi sveitarfélagi til þess að menn hafi einhverja örugga tekjustofna o.s.frv. Þetta er mjög gild spurning. En ég held hins vegar að ef við ætlum að fara út í þetta nánar, út í mannvirkjagerðina, þá verðum við að leyfa okkur að skoða víðar en knatthús eða íþróttamannvirki. Við þurfum að skoða hvaða önnur (Forseti hringir.) félagsaðstaða er mikilvæg. Við skulum ekki gleyma því að við erum meira að segja með trúarstarfssemi hérna undir. (Forseti hringir.) Við verðum þá að svara því hvað eigi að gilda um kirkjur og ýmislegt annað.