151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni um það að hvaða tilgangi við erum að vinna hér þegar vísað er til æskulýðsstarfs, íþróttafélaganna og annarrar sambærilegrar starfsemi. Ég hef tekið beinan þátt í að vinna að slíkum málefnum, bæði sem formaður félags og sem einn af skipulagsnefndarfulltrúum í minni heimabyggð við að skipuleggja uppbyggingu slíkrar starfsemi og þekki það allt saman ágætlega, bæði sem iðkandi og foreldri og sem þátttakandi í félagsstarfinu. Þannig að það er auðvitað stóra markmiðið og það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að uppbygging mannvirkjanna hefur haft gríðarlega mikil jákvæð áhrif á árangur okkar á undanförnum árum og skilað miklum framförum.

Varðandi frumvarpið sem vísað var til og hefur komið hingað til þingsins þá hygg ég að það hafi komið hingað til þingsins oftar en einu sinni og mikið verið togast á um það mál. Ég teldi það vera til framfara að ljúka þeirri vinnu. Það mál hvílir hjá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mér er ekki kunnugt um hvort það er á þingmálaskránni. Ég hefði haldið að það væri þar en mér er sagt hér úr þingsal að svo sé ekki, en það hefði verið til framfara. En síðast þegar ég ræddi þetta við ráðherrann þá var hún dálítið uppgefin af samskiptum sínum við þingið. Hún hafði komið með það ítrekað og alltaf fengið það aftur í hausinn. Það væri til framfara að ljúka því máli. En gleymum því ekki að það mál gerir ekkert annað en að skapa umgjörð um starfsemina, að klára öll formlegheitin, hvernig eru ákvarðanir teknar, hver getur skuldbundið þau félög sem þar falla undir o.s.frv. (Forseti hringir.) Það væri sannarlega framfaramál. En þetta mál getur alveg staðið sjálfstætt við hliðina á þeim breytingum.