151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að í 1. gr. frumvarpsins er talið upp hvaða starfsemi telst til almannaheilla samkvæmt töluliðnum, í a–g-lið, og ég rakti það stuttlega í máli mínu áðan. Ég teldi það hins vegar ekki í samræmi við markmið laganna að fara að teygja einstaka töluliði yfir einhver átaksmál í samfélaginu sem eru eingöngu til þess hugsuð að vinna að framgangi einhverra pólitískra hugðarefna. Það teldi ég ekki vera í samræmi við megintilgang laganna. Það er komið aðeins nánar inn á þetta í greinargerð. Þar eru dregin fram ýmis atriði sem máli skipta varðandi skilgreiningu á hugtakinu almannaheill. Við erum hér með umfjöllun sem rifjar það upp að skilgreining á hugtakinu, út frá þeim málaflokkum sem falla undir 1. gr., hefur lykilþýðingu. Það er sem sagt rifjað upp að þeir lögaðilar eru undanþegnir skattskyldu sem um ræðir í 2. gr. tekjuskattslaga í dag og eiga hér heimili ef þeir verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það einasta að markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum, samkvæmt 4. gr. tekjuskattslaga. Síðan er farið aðeins nánar út í þetta. (Forseti hringir.) Það er erfitt að fara dýpra í þessi mál hér (Forseti hringir.) í andsvari en mér fannst hv. þingmaður viðra (Forseti hringir.) mikilvæg sjónarmið sem þarf að hafa í huga.