151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[23:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum. Meginefni frumvarpsins varðar breytingar á reglum um útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Í fjárlögum ársins 2019 var ákveðið að veita 4 milljarða kr. framlag vegna fyrirhugaðra kerfisbreytinga í almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja. Með lögum nr. 97/2019, um breytingar á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, voru fyrstu skrefin stigin í átt að nýju framfærslukerfi almannatrygginga vegna örorku en með lögunum var m.a. dregið úr áhrifum tekna örorkulífeyrisþega á útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu á þann hátt að nú koma aðeins 65% tekna lífeyrisþega til lækkunar uppbótarinnar í stað 100% áður auk þess sem dregið var úr áhrifum aldurstengdrar örorkuuppbótar við útreikning framfærsluuppbótarinnar. Var svokölluð króna á móti krónu skerðing þannig afnumin með lögunum. Nam kostnaður vegna þeirra breytinga 2,9 milljörðum kr. og er því óráðstafað 1,1 milljarði kr. af fjárveitingunni. Er ætlunin með frumvarpi þessu að tryggja að þeir fjármunir nýtist til frambúðar sérstaklega þeim hópi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem lökust hafa kjörin.

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að dregið verði úr áhrifum tekjutryggingar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, skv. 22. gr. laga um almannatryggingar, við útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu, skv. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt gildandi lögum telst tekjutrygging að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar en í frumvarpinu er lagt til að einungis 95% af fjárhæð tekjutryggingar skuli teljast til tekna lífeyrisþega í stað 100% nú. Er því gert ráð fyrir að haldið verði áfram á þeirri braut að draga úr áhrifum bóta almannatrygginga við ákvörðun fjárhæðar sérstakrar uppbótar vegna framfærslu.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa í för með sér að ráðstöfunartekjur þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá uppbótina greidda munu aukast umtalsvert og mun meðalfjárhæð uppbótarinnar hækka mest hjá tekjulægsta hópnum. Þannig sýna útreikningar að tekjulægstu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegarnir munu fá 7.980 kr. hækkun á mánuði umfram þá 3,6% almennu hækkun á bótum almannatrygginga sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021. Það mun hafa það í för með sér að heildarhækkun bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar til tekjulægstu lífeyrisþeganna verður um 19.700 kr. á mánuði sem nemur 6,1% hækkun um næstu áramót og mánaðamót. Verður þannig stærstum hluta þeirra fjármuna sem eru til skiptanna varið til að bæta kjör tekjulægsta hóps örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og tryggt að þeir sem engar aðrar tekjur hafa en bætur almannatrygginga fái umtalsverða kjarabót. Þannig sýna útreikningar að meðalhækkun til allra lífeyrisþega verði tæplega 7.000 kr. á mánuði. Þá munu um 35% allra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega fá hámarkshækkun upp á tæplega 8.000 kr. á mánuði. Munu þessar hækkanir koma til viðbótar þeirri 3,6% hækkun bóta sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Um helmingur þeirra lífeyrisþega sem fær hærri bætur eftir breytinguna er með tekjur undir 10.000 kr. á mánuði og munu 667 milljónir kr. eða 56,5% þeirrar fjárhæðar sem gert er ráð fyrir að fylgi frumvarpi þessu renna til þessa tekjulægsta hóps. Einnig mun breytingin hafa það í för með sér að lífeyrisþegum sem fá sérstaka uppbót vegna framfærslu mun fjölga við breytinguna úr 13.473 í 14.079 eða um 642. Er í því sambandi einnig mikilvægt að halda því til haga að meiri hluti þeirra sem fær greidda sérstaka uppbót vegna framfærslu eru konur og er hlutfall kvenna sem munu fái hærri greiðslur um 63% á móti 37% karla. Þannig munu alls 8.726 konur og 5.127 karlar fá hærri greiðslur frá almannatryggingum verði frumvarp þetta að lögum.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið það hvað felst aðallega í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar og varðar breytingu á lögum um félagslega aðstoð sem gert er ráð fyrir að öðlist gildi strax um næstu áramót. Til viðbótar því sem þegar hefur komið fram er lagt til að vegna ársins 2020 verði örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum greidd eingreiðsla nú í desember og að kveðið verði á um það í nýju ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Er gert ráð fyrir að þeir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem hafa á yfirstandandi ári átt rétt á greiðslu örorkulífeyris, samkvæmt lögum um almannatryggingar, slysaörorkulífeyris, samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða endurhæfingarlífeyris, samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fái sérstaka eingreiðslu sem nemi 50.000 kr.

Verði frumvarpið að lögum munu tæplega 21.400 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fá eingreiðsluna. Er lagt til að þeir sem hafa fengið greiðslur frá Tryggingastofnun alla mánuði ársins fái fulla greiðslu en að fjárhæð eingreiðslunnar til þeirra sem hafa fengið greiðslur hluta úr ári verði í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða ársins sem viðkomandi hefur átt rétt á greiðslum.

Einnig er, í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja vegna heimsfaraldursins, lagt til að eingreiðsla þessi verði skattfrjáls og teljist þannig ekki til tekna lífeyrisþega og leiði þar með ekki til skerðingar annarra greiðslna, svo sem húsnæðisbóta. Er það í samræmi við fyrri eingreiðslur til lífeyrisþega á árinu 2020 sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins inni eingreiðslu þessa af hendi nú í desembermánuði.

Virðulegi forseti. Ég hef stiklað á stóru varðandi þær efnislegu breytingar sem felast í frumvarpi þessu og munu koma öllum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum til góða og þá sérstaklega þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Auk þessa er í frumvarpinu gert ráð fyrir að tekjuviðmið, skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, verði uppfærð í lögunum en þessi viðmið hækkuðu 1. janúar 2020 og eru nú 255.834 kr. á mánuði fyrir þá lífeyrisþega sem búa með öðrum og 321.678 kr. á mánuði fyrir þá sem búa einir. Fjárhæðir tekjuviðmiða samkvæmt lögunum hafa verið uppfærðar með reglugerð en skýrara þykir að hafa uppfærðar fjárhæðir í 9. gr. laganna. Þykir einnig rétt í því sambandi að reikna með 3,6% hækkun tekjuviðmiðanna frá 1. janúar 2021 í samræmi við frumvarp til fjárlaga næsta árs. Samkvæmt því munu fjárhæðir tekjuviðmiða framfærsluuppbótarinnar verða 265.044 kr. á mánuði fyrir þá lífeyrisþega sem búa með öðrum og 333.258 kr. á mánuði fyrir þá sem búa einir.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum hvetja þingið til að afgreiða þetta mikilvæga mál hratt og vel þannig að tryggja megi að þeir sem fá örorku- eða endurhæfingarlífeyri frá almannatryggingum fái þegar í þessum mánuði að njóta þeirrar eingreiðslu sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu og enn fremur að þær breytingar sem hér eru lagðar til á reglum um útreikning sérstakrar uppbótar vegna framfærslu, og munu nýtast tekjulægstu lífeyrisþegunum mest, komi til framkvæmda strax um næstu mánaðamót.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að umræddu máli verði vísað til hv. velferðarnefndar.