151. löggjafarþing — 30. fundur,  3. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[00:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það sem þarf að gerast er að Alþingi nái að samþykkja þessi lög, eða það sem lýtur að þessari 50.000 kr. eingreiðslu, á allra næstu dögum í rauninni vegna þess að þegar þingið hefur lokið afgreiðslu málsins þarf það að fara í sinn hefðbundna farveg, undirritun forseta, birtingu laganna o.s.frv., áður en Tryggingastofnun getur greitt þetta út. Gangi það eftir að þingið afgreiði þetta í byrjun næstu viku eða eitthvað slíkt þá eiga þessar tímasetningar algjörlega að geta gengið og mínar upplýsingar herma að Tryggingastofnun vinni að því að geta greitt þetta út 18. desember en þó með þeim fyrirvara að þingið afgreiði málið. Það er í rauninni þetta mál eingöngu sem þarf að afgreiða, við þurfum ekki fjáraukalög eða fjárlagaheimild vegna þess að þetta er tekið af fjárveitingum yfirstandandi árs. Fjárveitingin hefur þegar verið samþykkt þannig að það þarf ekki að samþykkja fjáraukalög eða fjárlagafrumvarp næsta árs vegna þess að þetta er á yfirstandandi ári. Það sem þarf að gera til að þessi dagsetning, 18. desember, geti gengið eftir er að þetta frumvarp, í það minnsta sá hluti þess sem lýtur að þessum 50.000 kr., sé afgreitt hratt og vel í gegnum þingið.