151. löggjafarþing — 30. fundur,  3. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[00:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég efast eiginlega ekki um að við eigum að geta komið þessu máli í gegnum velferðarnefnd og komið því til þingsins strax eftir helgi. Ég held að það verði ekki ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að drífa þetta af vegna þess að, eins og ég segi, oft er þörf en nú er nauðsyn í þessum Covid-faraldri. Ég sé líka í þessu frumvarpi ágætishækkun umfram þessa 3,6% hækkun, þ.e. allt upp í 19.700 kr. hækkun og er það bara hið besta mál. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað á döfinni fyrir þá eldri borgara sem eru verst settir, sem eru í þeirri aðstöðu, upp á jólabónus og annað? Eins og hér kemur fram eru það að stórum hluta konur sem lenda í þessu og það gildir líka það sama varðandi skerðingar, sérstaklega hjá öryrkjum. Það er svolítið spurning um það. Þeir sem eru verst settir í þessu kerfi eru yfirleitt eru konur og líka meðal eldri borgara þannig að ég spyr hvort eitthvað sé á döfinni fyrir þann hóp, því að það veitir ekki af, a.m.k. fyrir þá sem verst eru settir.