151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

sóttvarnaráðstafanir með sérstakri áherslu á bólusetningar gegn Covid-19 - forgangsröðun og skipulag, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, en ég bendi henni á að það er ekki svo einfalt að fá tilvísun til sjúkraþjálfara frá lækni. Sums staðar er það mjög einfalt. Annars staðar er það mjög erfitt, sérstaklega ef maður er að fara í fyrsta skipti, þá vill læknirinn fá viðkomandi á staðinn og ég get bara sagt að ef ég ætla að panta tíma hjá lækni núna þá er það mánaðarbið. Maður má bara þakka fyrir að fá tíma innan mánaðar. Við verðum að átta okkur á því að þetta er nauðsynlegt. Ég skil þetta bara ekki vegna þess að læknarnir tapa á þessu, sjúkraþjálfararnir tapa á þessu og sá sem þarf á þessu að halda tapar á þessu. Þeir sem virðast græða á þessu eru auðvitað Sjúkratryggingar Íslands og ríkið, þau spara sér pening. En ef þetta er sparnaður þá sé ég ekki hvernig það á að vera. Ég vil benda líka á að með opnun sundlauga og að koma þessum hlutum í lag þá munum við stórminnka svefnlyf, verkjalyf og annað. Ég hef miklar áhyggjur af því að lyfjanotkun muni stóraukast núna ef við förum ekki að gera eitthvað vegna þess að það er stór hópur sem þarf nauðsynlega á hreyfingu að halda og komast t.d. í sund.