151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég veit að íþróttamálin standa honum nærri. Þetta mál er gott svo langt sem það nær. En þar liggur kannski vandinn, vandi sem íþróttafélög hafa staðið frammi fyrir lungann af þessu ári. Staðan er nefnilega sú að þau hafa beðið eftir aðstoð frá því snemma árs og þau hafa haft væntingar, eðlilegar væntingar, enda hefur ekkert skort á hástemmdar yfirlýsingar ráðherra íþróttamála sem ég trúi að hafi fullan vilja til að gera vel. En staðan er sú að hér er vilji sannarlega ekki allt sem þarf, það þarf meira til.

Nú er verið að tala um að uppsagnarfresturinn samkvæmt þessu máli sé til 30. september á næsta ári og aðstoðin nær til tímabilsins 1. október á þessu ári til 30. júní næsta ár. Næsta haust þurfum við að horfa fram á að það verða einhver íþróttafélög komin niður á hnén ef ekkert verður að gert. Þau búa við kostnað núna, þau búa við tekjufall núna.

Fyrsta spurningin er: Geta félög, verði þetta að lögum, strax í janúar sótt um styrki fyrir fyrstu mánuðina og síðan aftur um mitt ár fyrir áföllnum kostnaði og svo aftur, eða þarf að sækja um þetta allt í einu næsta haust og lifa á loftinu þangað til?

Hæstv. ráðherra fór yfir það af hverju þetta nær ekki til verktaka. Að hluta til að beiðni fjármálaráðuneytisins er verið að reyna að vinna að því að fjölga launþegum íþróttafélaga og fækka verktökum. En verktakar eru staðreynd í dag, rétt eins og það er staðreynd að íþróttafélög berjast í bökkum. Ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Er þetta rétti tíminn til að fara út í slíkar breytingar? Væri ekki rétt að bregðast við núverandi vanda á þann besta hátt sem hægt er með þessu frumvarpi, sem verður vonandi að lögum á næstu dögum, og vinna síðan áfram í hinu?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem ég veit að er ánægður með þann árangur sem náðst hefur með hlutabótaleiðinni: Ég er þeirrar skoðunar að íþróttafélög hefðu átt að fá að njóta þeirra úrræða líka. Nú veit ég ekki með ráðherra en mig langar til þess að fá hans skoðun á því, (Forseti hringir.) og útskýringar, af hverju hlutabótaleiðin nær ekki til íþróttafélaga.